Loftslag.is

Month: June 2010

  • Er ís á Suðurskautinu að minnka eða aukast?

    Endurbirting færslu frá því í febrúar. Þetta er þýðing á færslu af Skeptical Science og á vel við í dag, þegar hafís á Suðurskautinu eykst.

    Röksemdir efasemdamanna…

    Ís á Suðurskautinu er að aukast, ef að það væri að hlýna þá myndi hann minnka. Línurit sýna að hann hefur farið stöðugt vaxandi á sama tíma og hann minnkar á Norðurskautinu.

    Það sem vísindin segja…

    Á meðan jökulbreiðan þykknar á hálendi Austur Suðurskautsins, þá er jökulbreiða Suðurskautsins í heild að minnka og á auknum hraða. Hafís umhverfis Suðurskautið er aftur á móti að aukast þrátt fyrir hlýnun Suðuríshafsins.

    Það er mikilvægt að halda því til haga að það er munur á ís á landi, jökulbreiðunni á Suðurskatutinu (e. ice sheet) og hafís (e. sea ice). Flestir gera sér grein fyrir þeim mun, en oft sést þó að menn rugla því saman þegar verið er að ræða Suðurskautið.

    Í stuttu máli þá er staðan þannig með Suðurskautið:

    • Jökulbreiða Suðurskautsins er að minnka og sú minnkun er að auka hraðann
    • Hafís umhverfis Suðurskautið er að aukast, þrátt fyrir hlýnun Suður Íshafsins

    Jökulbreiða Suðurskautsins er að minnka

    Að mæla breytingar í jökulbreiðu Suðurskautsins hefur verið erfitt verk, vegna stærðar breiðunnar og hversu flókin hún er. En frá árinu 2002 þá hefur gervihnötturinn Gravity Recovery and Climate Experiment (GRACE) mælt alla jökulbreiðuna. Gervihnötturinn mælir breytingar í þyngdarhröðun til að áætla massabreytingar jökulbreiðunnar. Fyrst um sinn kom í ljós að megnið af minnkun í massa jökulbreiðunnar var á Vestur Suðurskautinu (Velicogna 2007). Á sama tíma, þ.e. frá 2002-2005, þá var Austu Suðurskautið um það bil í massajafnvægi. Þ.e. ákoma á söfnunarsvæðum jökulbreiðunnar inn til landsins var svipuð og leysing út við jaðrana. Þetta má sjá greininlega á mynd 1 og muninn á massabreytingum á Vestur Suðurskautinu (rautt) og Austur Suðurskautinu (grænt):

    Skept_Sudursk_antarctic_mass2

    Mynd 1: Massabreytingar Suðurskautsins (heildregnar línur með hringjum) og besta leitnilína (brotalínur) fyrir jökulbreiður Vestur Suðurskautsins (rauð) og Austur Suðurskautsins (græn) frá apríl 2002 til ágúst 2005 (Velicogna 2007).

    Eftir því sem meira af gögnum koma frá GRACE, því meira hefur skilningur á jökulbreiðu Suðurskautsins aukist. Mynd 2 sýnir massabreytingu á Suðurskautinu á tímabilinu apríl 2002 til febrúar 2009 (Velicogna 2009). Blá línan/krossarnir sýna ósíuð mánaðarleg gildi, Rauðu krossarnir sýna þróunina þegar árstíðabundnar sveiflur hafa verið fjarlægðar og græna línan bestu leitnilínu.

    Skept_Sudurskaut_Antarctica_Ice_Mass

    Mynd 2: Massabreytingar í jökulbreiðu Suðurskautsins frá apríl 2002 til febrúar 2009.Ósíuð gögn eru bláar línur/krossar. Gögn sem síuð hafa verið til að fjarlægja árstíðarbundnar breytingar eru með rauðum krossum. Besta annars stigs leitnilína er sýnd með grænni línu (Velicogna 2009).

    Eftir því sem tímabilið sem skoðað er hefur lengst, hefur tölfræðilega áreiðanleg leitnilína birst. Jökulbreiður Suðurskautsins eru ekki eingöngu að missa massa, heldur er massabreytingin að aukast, en hröðunin er um 26 Gigatonn/ári2. Það hefur að auki sýnt sig að Austur Suðurskautið er ekki lengur í massajafnvægi, heldur einnig að missa massa (Chen 2009). Þær niðurstöður vöktu undrun, því hingað til hefur Austur Suðurskautið verið talið stöðugt vegna þess hve svæðið er kalt, en þetta bendir til þess að jökulbreiða Austur Suðurskautsins sé kvikulli en áður var talið.

    Það sem gerir þessa bráðnun á Austur Suðurskautinu enn mikilvægari er sú staðreynd að jökulbreiðan þar er mun massameiri en á Vestur Suðurskautinu. Austur Suðurskautið inniheldur nógu mikinn ís til að hækka sjávarstöðu hnattrænt um 50-60 metra á meðan vestari jökulbreiðan myndi hækka sjávarstöðuna um 5-7 metra. Jökulbreiður Suðurskautsins spilar mikilvæga rullu í heildarframlagi til sjávarstöðubreytinga og það framlag fer stöðugt vaxandi.

    Hafís Suðurskautsins eykst

    Hafís Suðurskautsins hefur sýnt langtímavöxt í útbreiðslu frá því að mælingar með gervihnöttum hófst árið 1979. Þetta eru mæliniðurstöður sem oft er bent á sem rök gegn kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum. Þrátt fyrir það, virðist spurningin um það af hverju hafísinn er að aukast sjaldan spurð. Rökréttast virðist vera að álykta sem svo að það hafi kólnað í kringum Suðurskautið, en það hefur verið sýnt fram á að svo er ekki. Í raun er Suður Íshafið að hlýna hraðar en önnur úthöf jarðar. Hnattrænt hlýnuðu höf jarðarinnar um 0,1°C á áratug frá 1955 til 1995. Til samanburðar hefur Suður Íshafið hlýnað um 0,17°C á hverjum áratug – Suður Íshafið er sem sagt ekki bara að hlýna, heldur er það að hlýna hraðar en önnur höf.

    Skept_Sudursk_Antarctica_Sea_Ice

    Mynd 3: Yfirborðshiti yfir hafísþekju Suðurskautsins (efri mynd). Hafís útbreiðsla samkvæmt gervihnattamælingum (neðri mynd).(Zhang 2007)

    En ef Suður Íshafið er að hlýna, hvers vegna er þá hafís Suðurskautsins að aukast? Það eru nokkrir þættir sem sjá til þess.

    Einn af þáttunum er gatið í ósonlaginu yfir Suðurskautinu. Gatið hefur valdið kólnun í heiðhvolfinu (Gillet 2003). Það hefur aftur aukið á lægðagang umhverfis meginland Suðurskautsins (Thompson 2002), sem veldur því að aukinn vindur hefur ýtt ísnum til og myndað vakir (e. polynyas) í ísnum. Þessar vakir hjálpa til við að auka hafísmyndun (Turner 2009).

    Annar þáttur eru breytingar í haftstraumum. Við yfirborð Suður Íshafsins er lag með köldum sjó og neðar heitara lag. Streymi vatns frá heitara laginu rís upp á yfirborðið til að bræða hafísin að neðan. Við hlýnun hefur úrkoma einnig aukist. Við það verður efsta lagið ferskvatnsblandaðra, sem gerir það eðlisléttara og blöndun við heitara lagið minnkar. Þar með minnkar hitastreymi til yfirborðs frá heitara laginu. Þar með bráðnar hafísinn minna (Zhang 2007).

    Ef við tökum það saman, þá er hafís Suðurskautsins háð flóknum og einstökum þáttum. Einfaldasta túlkunin um að hafísinn sé að aukast vegna þess að það hljóti að vera að kólna í kringum Suðurskautið á ekki við rök að styðjast. Hlýnun er í gangi – en hvernig það hefur áhrif á mismunandi svæði – er flókið.

    Þýðing af heimasíðu Skeptical Science. Sjá upprunalegu útgáfuna

  • Íshafsbráðnun og siglingaleiðir

    Sumarvertíðin á Norðurslóðum er nú í algleymingi og með hverjum sumardegi sem líður minnkar umfang hafíssins á Norður-Íshafinu. Einn eitt árið fylgjast menn með framvindunni – verður þetta metár í bráðnun eða er hafísinn kannski að jafna sig á ný eftir hrunið 2007? Við þessu fást ekki svör fyrr en í lok sumars þegar útbreiðsla hafíssins á norðurhveli nær sínu árlega lágmarki í september. Þangað til látum við okkur nægja að rýna í stöðuna eins og ég ætla að reyna að gera hér en best er að árétta að ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði, fylgist bara þessu af óútskýrðum áhuga.

    Ekki minni útbreiðsla mælst áður í júní.

    Það sem af er sumri hefur þróunin í stuttu máli verið sú að eftir meiri útbreiðslu hafíssins í lok vetrar en verið hefur í nokkur ár er nú svo komið að útbreiðslan er minni en hún hefur áður mælst á þessum árstíma. Þetta undirstikar meðal annars hversu lítið samhengi er á milli vetrarútbreiðslu og þess sem gerist sumarið á eftir. Eins og ég sagði í síðasta gestapistli þá verður að líta á hafíssvæðið sem tvö svæði, annarsvegar Norður-Íshafið sjálft og svo einstök hafssvæði þar suður af. Mikil hafísútbreiðsla í Norður-Kyrrahafi og jafnvel í Eystrasalti að vetrarlagi er t.d. engin vísbending um ástand kjarnasvæðisins á Norður-Íshafinu þar sem sumarbráðnunin á sér stað.

    Útbreiðsla hafíssins 24. júní 2010. Til samanburðar er lágmarksútbreiðslan haustið 2007. Norðvestur-siglingaleiðirnar eru merktar inn: Amundsen leiðin 1903-1906 (blá) og beina breiða leiðin um Parry-sund (græn). Kortið sem notað er í grunninn er af síðunni Cryosphere Today

    Opnast Norðvesturleiðin?

    Í síðasta pistli hálfpartinn lofaði ég óvenjumikilli bráðnun á heimskautasvæðunum norður af Kanada, aðallega þá vegna þess hversu hlýtt var á þeim slóðum síðasta vetur. Mér finnst enginn ástæða til að bakka með þá spádóma. Forvitnilegt verður að sjá hvort fær siglingaleið muni opnast að þessu sinni um hið breiða Parry sund eins og gerðist í fyrsta almennilega sinn svo vitað sé árið 2007. Skipum hafði að vísu fyrir þann tíma tekist að sigla þar einstaka sinnum í gegn með herkjum, gjarnan þá með aðstoð ísbrjóta. Það kæmi mér allavega ekkert á óvart að þarna galopnist allt í haust. Önnur leið sem er mun þrengi og oftar opin liggur sunnar þar sem Amundsen tókst fyrstum manna að sigla í gegn á árunum 1903-1906.

    Þótt deila megi um ágæti þess að heimskautaísinn bráðni mikið, þá horfa ýmsir vonaraugum til Norðvesturleiðarinnar í sambandi við skipaferðir. Sjálfsagt er þó langt í að slíkar siglingar verði almennar nema í mjög takmarkaðan tíma á ári. Norðausturleiðin sem liggur norður fyrir Síberíu er hinsvegar mun oftar aðgengileg stórskipum, ísinn er samt óútreiknanlegur og sem dæmi um það þá opnaðist Norðausturleiðin ekki árið 2007 þrátt fyrir metbráðnun.

    Bræðsluspár

    Nú er það svo að mjög margir þættir spila inn í varðandi sumarafkomu heimskautaíssins og kannski ekki furða þó spádómar séu misvísandi og sennilega bara tilviljun hvað af þeim rætist. Almennt virðast flestir spá því að lágmarkið í haust verði í stíl við það sem verið hefur 2 síðustu ár og að lágmarksmetið frá því 2007 verði ekki slegið að þessu sinni. Í þeim spádómum er t.d. horft til þróunar á aldursamsetningu íssins. Mjög lítið er eftir að gömlum lífseigum ís miðað við það sem var fyrir aldamót. Á móti kemur að hinn viðkvæmi fyrsta árs ís er þó ekki eins áberandi og verið hefur allra síðust ár og hlutfall 1-3ja ára íss hefur aukist sem bendir til einhvers endurbata á heimskautaísnum eftir nokkuð öflug vetrarhámörk síðustu 3 ár. Eftir því sem líður á sumarið verða spárnar auðvitað nákvæmari, ef til vill mun hinn mikla bráðnun í þessum mánuði fá einhverja til að endurskoða varfærnislegar spár sínar.

    Mynd frá Bandarísku hafísmiðstöðinni NSIDC sem sýnir aldurssamsetningu hafíssins í lok hverrar bræðsluvertíðar síðustu 3 ár ásamt meðaltali áranna 1981-2000.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Spár um lágmarksútbreiðslu hafíss í ár

    Undanfarin ár hafa nokkrir vísindamenn og áhugamenn um hafís Norðurskautsins gefið út spár um það hvernig útbreiðsla hafíss verður háttað í lok sumarbráðnunar. Þetta er meira til gamans gert en alvöru, en einnig er þetta nokkur keppni milli þeirra sem taka þátt – til að sýna fram á að þeirra aðferð til að spá um hafísútbreiðslu sé best. Þess ber að geta að sá sem þetta skrifar hefur ekki mikla trú á slíkum spám – því allt of mikið getur gerst sem hefur áhrif á útbreiðsluna – en það er gaman að prófa og sjá spádómsgáfurnar.

    Hér fyrir neðan er nýjasta spáin, sem gefin var út 22 júní síðastliðinn, en lesa má um spána hér – September Sea Ice Outlook: June Report

    Spár um hafísútbreiðslu (mynd frá http://www.arcus.org/search/seaiceoutlook). Smelltu á myndina til að stækka.

    Þess ber að geta að til að taka þátt í þessari spá, þá þurftu menn að senda inn tölur í lok maí, en síðan þá hefur margt gerst og bráðnun hafíssins komist á mikið skrið.

    Flestir virðist spá því að útbreiðslan verði mitt á milli þess sem hún var árið 2008 (um 4,7 milljónir ferkílómetra*) og 2009 (5,4 milljónir ferkílómetra), en fyrir þá sem ekki vita þá var lægsta útbreiðsla sem mælst hefur árið 2007 (um 4,3 milljónir ferkílómetra).

    Hér má sjá þróunina undanfarin ár:

    Hafísútbreiðsla í september frá 1979-2009 sýnir stöðuga hnignun (mynd National Snow and Ice Data Center – NSIDC).

    Til að setja hámarksútbreiðsluna undanfarna áratugi í sögulegt samhengi þá er hér línurit sem sýnir útbreiðsluna undanfarna hálfa öld eða svo – sumarútbreiðslan er neðsti hluti hverrar árstíðasveiflu á línuritinu:

    Það er því greinilegt að það eru miklar sveiflur á milli ára og margt getur gerst á stuttum tíma.

    Staðan þegar þetta er skrifað er sú að útbreiðslan í dag er minni en hún var metárið 2007, fyrir sömu dagsetningu:

    Hafísútbreiðsla 24 júní 2010

    Að auki er rúmmál hafíssins það lægsta sem hefur verið undanfarna áratugi, samkvæmt útreikningum Polar Science Center:

    Rúmmál hafíss Norðurskautsins samanber útreikninga fyrir 18 júní 2010. Smella á mynd til að stækka.

    Hvað gerist í framhaldinu er óljóst, vindar og skýjahula spila mikla rullu – auk hitastigs sjávar og lofts þar sem hafísinn er. Þykkt og dreifing ræður miklu og óteljandi þætti hægt að taka inn í spárnar.

    Mín spá:

    Ég ákvað lauslega áður en ég hóf að skrifa þessa færslu að líta eingöngu á eitt og miða mína spá út frá því – þ.e. leitninni undanfarna þrjá áratugi. Ef ég hefði gert það þá hefði spá mín orðið sú að lágmarksútbreiðsla eftir sumarbráðnun yrði sirka svipuð og í fyrra (5,4 milljónir ferkílómetra) – sem er svipað og margir af sérfræðingunum spá. Svo ákvað ég að taka inn í reikningin bráðnunina undanfarinn mánuð og þá staðreynd að útbreiðslan nú er minni en árið 2007 – sem var metárið. Einnig tek ég með í reikninginn að rúmmal hafíssins hefur hreinlega hríðminnkað undanfarna mánuði og því ætti að vera ljóst að það ætti að þurfa minna til að bráðnun nái sér á strik enn frekar. Auk þess erum við stödd núna á ári sem verður mögulega það heitasta frá upphafi mælinga.

    Því spái ég hér með að lágmarksútbreiðsla hafíss verði sambærileg við metárið 2007 – þ.e. að það verði í kringum 4,3 milljónir ferkílómetra í lok sumarbráðnunar.

    Ég vil að lokum skora á sem flesta til að skrifa spá sína hér fyrir neðan og rökstuðning. Allt í gamni að sjálfsögðu.

    *Hér er miðað við tölur frá NSIDC og má búast við lokatölum í október í haust. Bíðum spennt.

  • Vísindaleg umræða

    Endurbirting færslu / myndbands af loftslag.is frá því í nóvember – þetta var fyrsta Potholer54 myndbandið sem við birtum á sínum tíma og er að mínu mati mjög gott.

    Myndband frá Potholer54 sem er YouTube notandi, fyrrum vísinda fréttaritari, sem segist hafa áhuga á því að segja frá staðreyndum frekar en fjölmiðlaskrumi. Þetta myndband lítur á þær grunn ályktanir sem vísindamenn hafa um, að losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum valdi loftslagsbreytingum og hvernig vísindaleg umræða hefur verið um málið, m.a. þeirra sem eru efins um þá kenningu.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Fregnir af yfirvofandi ísöld hraktar

    Í þessu myndbandi skoðar Potholer54 sögusagnir um yfirvofandi ísöld vegna stöðvunar Golfstraumsins. Hvernig komu þessar sögusagnir til, voru vísindamenn kannski að spá því að ísöld væri yfirvofandi…? Hvernig ætli þetta hafi nú verið í pottinn búið? Potholer54 skoðar þessa mýtu, hvernig kemur hún til og hvernig þróaðist hún. Þessi sögusögn hefur merkilegan vinkil sem kemur í ljós í myndbandinu. Heimildir eru Potholer54 mikilvægar, þ.a.l. birtum við helstu heimildir hans neðst í færslunni.

    Tengt efni á loftslag.is:

    – – –

    Heimildalisti Potholer54 fyrir myndbandið:

    RealClimate quote “while continued monitoring of this key climatic area is clearly warranted, the imminent chilling of the (sic) Europe is a ways off yet” at http://www.realclimate.org/index.php/archives/2005/05/gul…

    Richard Wood saying Britain and Scandinavia should cool if Gulf Stream slowdown was real: “Failing ocean current raises fears of mini ice age” — New Scientist, (Nov 30, 2005) http://www.newscientist.com/article/dn8398-failing-ocean-…

    Harry Bryden saying not sure if change was temporary or signals a long-term trend: “Failing ocean current raises fears of mini ice age” — New Scientist, (Nov 30, 2005) http://www.newscientist.com/article/dn8398-failing-ocean-…

    Bryden says a variable signal, but too early to detect any trends:  “No new ice age for western Europe.” — New Scientist, (Nov 7, 2006) http://www.newscientist.com/article/mg19225763.900-no-new…

    “Sea change: why global warming could leave Britain feeling the cold” — The Guardian (Oct 27, 2006) http://www.guardian.co.uk/environment/2006/oct/27/science…

    “New climate change myth: Gulf Stream is NOT slowing down” — Daily Mail (Mar 30, 2010) http://www.dailymail.co.uk/sciencetech/article-1262096/Gl…

    “IS BRITAIN ON THE BRINK OF A NEW ICE AGE?” — Daily Mail (Dec 2, 2005) http://www.thefreelibrary.com/IS+BRITAIN+ON+THE+BRINK+OF+…

    “Global warming ‘will bring cooler climate for UK’” — Daily Telegraph (Dec 1, 2005) http://www.telegraph.co.uk/news/uknews/4198339/Global-war…

    “Gulf Stream is not slowing down, scientists claim.” — Daily Telegraph (Mar 30, 2010) http://www.telegraph.co.uk/science/science-news/7536760/G…

    1970s ice age myth busted at “Climate Change — Anatomy of a Myth – Grannskoðun á eiginleikum mýtu

  • Samhljóða álit vísindamanna styrkist

    Nýlega birtist grein í PNAS (Proceedings of the National Academy of Sciences) þar sem staðfest er samhljóða álit (e. consensus) loftslagsvísindamanna að loftslagsbreytingar séu raunverulegar og séu af völdum manna (Anderegg o.fl. 2010).

    Gerð var greining á ritrýndum skrifum 1372 loftslagsvísindamanna og kom í ljós að nánast allir vísindamenn sem eru virkir á sviði loftslagsvísinda telja að loftslagsbreytingar séu af völdum manna. Í ljós kom að um 2% af þeim 50 vísindamönnum sem teljast virkastir í loftslagsvísindum eru ekki sannfærðir um að loftslagsbreytingarnar séu af mannavöldum. Svipað er upp á teningnum þegar skoðaðir eru topp 100 virkustu vísindamennirnir, en þá eru 3% ekki sannfærðir og um 2,5% af topp 200 vísindamönnunum hafa efasemdir um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Þá kom í ljós að því meira sem vísindamenn hafa skrifað í ritrýnd tímarit – því líklegri voru þeir til að vera sannfærðir um loftslagsbreytingar af mannavöldum.

    Dreifing vísindamanna eftir fjölda ritrýndra greina, eftir því hvort þeir eru sannfærðir um loftslagsbreytingar af mannavöldum (CE) eða ekki sannfærðir (UE).

    Höfundar segja enn fremur (lauslega þýtt):

    Þrátt fyrir að fjölmiðlar leitist við að sýna báðar hliðar rökræðunnar um loftslagsbreytingar af mannavöldum, sem getur leitt til misskilnings meðal almennings um hvar sú rökræða stendur, þá eru ekki allir loftslagsvísindamenn jafnir hvað varðar vísindalegan trúverðugleika og sérfræðiþekkingu á loftslagskerfum.

    Þá benda höfundar á að þessi umfangsmikla greining á þeim sem eru framarlega í loftslagsvísindum bendi til þess að umræða í fjölmiðlum og meðal stjórnmálamanna, sem og almenn umræða, ætti að taka mið af þessu þegar verið er að fjalla um loftslagsmál.

    Þetta er í samræmi við fyrri rannsóknir af svipuðu meiði, en Doran o.fl. (2009) komust að svipaðri niðurstöðu,  sjá t.d. mýtuna Vísindamenn eru ekki sammála, en þar segir meðal annars:

    Það virðist sem rökræðan um ástæður hnattrænnar hlýnunar og hlutverk mannlegra athafna í henni sé lítil sem engin á meðal þeirra sem eru framarlega í að skilja vísindalegan grunn í langtíma loftslagsferlum. Helsta áskorunin viðist vera hvernig hægt er að koma þeim staðreyndum til yfirvalda og til almennings sem virðist enn halda að það séu enn rökræður um málið meðal vísindamanna. Doran o.fl. 2009

    Heimildir og ítarefni

    Anderegg o.fl. 2010 – Expert credibility in climate change

    Doran o.fl. 2009 –  Examining the Scientific Consensus on Climate Change

    Tengt efni af loftslag.is

  • Kolefnisfótspor | Bjór

    Kolefnisfótspor af hálfum lítra af bjór í koldíoxíð jafngildi, CO2e:

    300g CO2e: Innlendur bjór af krana á hverfiskránni
    500g CO2e: Innlendur átappaður bjór í Vínbúðinni, eða erlendur bjór af krana á kránni
    900g CO2e: Átappaður erlendur bjór í Vínbúðinni, sem kemur langt að

    – Athugið að útreikningar eru gerðir út frá breskum aðstæðum og ber því ekki að taka bókstaflega – en geta þó verið leiðbeinandi

    Bjór er væntanlega ekki stærsti losunarvaldur gróðurhúsalofttegunda hjá meðal fjölskyldunni. Þó geta nokkrir bjórar af innfluttum bjór á dag valdið kolefnisfótspori sem samsvarar allt að einu tonni CO2e á ári.

    Það eru nokkrir áhrifavaldar sem skipta máli þegar kolefnisfótsporið er skoðað. Þættir eins og innihald, pökkun, eldsneyti, rafmagn og flutningur skipta miklu máli. Einnig þarf að skoða hluti eins og ferðalög starfsmanna, kolefniskostnaðinn við að skipta út tækjabúnaði þegar þess þarf, ásamt notkun skrifstofuáhalda og búnaðar.

    Samkvæmt rannsókn sem gerð var á Keswick Brewing Company, sem er lítið brugghús á Bretlandi, þá er innihaldið rúmlega þriðjungur kolefnisfótsporsins, eldsneyti og rafmagn um fjórðungur og ferðalög starfsmanna um tíundi hluti. Gerjunarferillinn var um það bil tuttugasti hluti.

    Nokkrum kílómetrum frá Keswick brugghúsinu, er stórt ölgerðarhús. Afhending vöru frá því til kráa í nágrenninu fer í gegnum dreifingarmiðstöð í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð. Þetta er algengt meðal stærri ölgerða erlendis. Það virðist því vera góð hugmynd að kaupa bjór sem er framleiddur í héraði eða innlendann. Hér á Íslandi kemur væntanlega til flutningur hráefnis en kolefnisfótspor sjálfrar framleiðslunnar er mögulega mun minna en framleiðslunnar erlendis, vegna vatnsorkunnar  okkar. Einnig er minna kolefnisfótspor vegna flutninga hinnar fullunnu vöru, þegar flutningur er einungis innanlands. Þess má einnig geta að varðandi flutning bjórs um langan veg og kolefnisfótsporsins, þá er þyngdin mikilvæg og bjór í dós er léttari en flöskubjór, því má ætla að dósabjór sem kemur um langan veg sé með léttara kolefnisfótspor en flöskubjórinn.

    Almennt má segja að þá gildi þumalfingursreglan, því lengra sem vörur koma að, þeim mun stærra er kolefnisfótsporið. Pakkningar og þyngd skipta einnig máli í öllum vöruflokkum ásamt flutningsmáta.

    Heimild:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Olíumengunin í Mexíkóflóa – Samanburður

    Olíulekinn í Mexíkóflóa er gríðarlegt umhverfisslys. Mér hefur persónulega fundist fréttaflutningur hér á landi (og víðar) vera út frá einhverjum undarlegum vinkli um það hvað BP er alveg að fara að gera… eða næstum búið að koma í veg fyrir… í sambandi við lekann. Það virðist þó að mínu mati hafa orðið einhver breyting á því nýlega, nú þegar umfang olíumengunarinnar er að verða öllum ljós. Það hafa verið misvísandi fréttir af því hversu mikil olía lekur í flóann á hverjum sólarhring. Í fyrstu var talað um “aðeins” 5.000 tunnur á sólarhring og þótti mörgum nóg um. Nýlegar fréttir benda þó til að lekinn úr borholunni á hverjum sólarhring sé um 40.000 tunnur. Hvort það hefur verið svo mikið magn allan tímann skal ósagt látið, fyrir utan svo að það hefur náðst einhver árangur við að draga úr lekanum. Þessi leki mun hugsanlega hafa mikil áhrif á vistkerfi Mexíkóflóa og ströndum sem liggja að honum og jafnvel víðar. Þetta mengunarslys er nú þegar orðið eitt það stærsta í sögunni og engin ástæða til að draga eitthvað úr þeirri staðreynd. Meintur árangur við að draga úr lekanum héðan í frá minnkar ekki þann skaða sem nú þegar er orðin vegna þessa. Vonandi munu aðgerðir þær sem nú eru í gangi bera skjótan árangur, svo hægt verði að koma í veg fyrir að umfang mengunarinnar verði enn meiri en komið er.

    Það hafa ýmsir aðilar skoðað lekann í samhengi við aðra hluti. Til að mynda hafa sést ýmsir útreikningar á samanburðinum á losun CO2 á dag í heiminum og svo lekans í Mexíkóflóa á degi hverjum. Til að nálgast þetta má líta til tölunnar 40.000 tunnur á sólarhring. Hver tunna er u.þ.b. 138,8 kg af óunninni olíu, heimild. 40.000 tunnur * 138,8 kg / tunna = 5.552.000 kg af olíu á sólarhring, eða 5.552 tonn, sem verður að teljast nokkuð mikið…

    Til samanburðar þá höfum við, með losun koldíoxíðs vegna bruna jarðefnaeldsneytis, bætt 2 ppm af CO2 á ári í lofthjúpinn, sem eru um 15,6 Gt (milljarðar tonna) CO2 á ári. Þarna erum við að tala um magn CO2 í kg, til einföldunar skulum við bera þessa tölu saman við olíulekann. Útreikningur: 15.600.000.000 tonn / 365 dagar / 5552 tonnum af olíu / dag = 7.698 olíulekar á dag…

    Til að draga þetta saman, þá þýðir í stuttu máli: Losun CO2 á degi hverjum svarar til u.þ.b. 7.700 olíulekum á degi hverjum…

    Þessi útreikningur svarar til þess útreiknings sem er gerður hér. Á RealClimate nefna þeir töluna 5.000 í þessu sambandi, en þeir gáfu ekki upp útreikningana sérstaklega. Hvort sem er réttara, má sjá að losun CO2 er gríðarleg á degi hverjum.

    Mannkynið losar mikið magn af CO2…það er nokkuð ljóst og það mun hafa afleiðingar, sérstaklega til lengri tíma litið. Umhverfisslysið í Mexíkóflóa verður þó ekki minna af því og það verður að taka á því máli af styrk til að koma í veg fyrir enn verri afleiðingar en fyrirsjánlegar eru miðað við núverandi olíumengun, það er hið mikilvæga verkefni dagsins…til lengri tíma verðum við svo að draga úr losun á CO2 í lofthjúpinn…við þurfum að átta okkur á því sem fyrst.

    Heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Að slá botn í climategate

    Greenman3610 (öðru nafni Peter Sinclair) slær botn í climategate-málið svokallaða í þessu myndbandi. Hann fjallar að vanda á skorinortan hátt um afneitunariðnaðinn og þeirra þátt í því að reyna að koma óorði á vísindamenn með mistúlkunum á því sem vísindin hafa fram að færa, eins og komið hefur berlega í ljós í hinu svokallaða climategate-máli. Að venju notar hann kaldhæðin húmor og fyrir Monty Python aðdáendur, eins og þann sem þetta skrifa, þá eru nokkur atriði úr myndinni Monty Python and the Holy Grail í myndbandinu sem kæta.

    Ítarefni

    Hægt er að nálgast fleiri myndbönd eftir Greenman hér á loftslag.is:  Greenman3610
    Climategate á loftslag.is

    Tengt efni á loftslag.is – Greenman3610 myndbönd:

  • Hitastig | Maí 2010

    Helstu atriðið varðandi hitastig maímánaðar á heimsvísu

    • Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir maí 2010 var það heitasta samkvæmt skráningum, með hitafráviki upp á 0,69°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar (14,8°C).
    • Fyrir tímabilið mars-maí 2010, er sameinað hitastig fyrir bæði land og haf það heitasta, með hitafrávik upp á 0,73°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar fyrir tímabilið (14,4°C).
    • Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir tímabilið janúar til maí 2010 var það heitasta samkvæmt skráningum, með hitafrávik upp á 0,68°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar.
    • Hitastig sjávar á heimsvísu var 0,55°C yfir meðaltali 20. aldarinnar, og er það næst heitasta fyrir maímánuð samkvæmt skráningum.
    • Fyrir tímabilið mars-maí 2010 var hitastig sjávar á heimsvísu 0,55°C yfir meðaltali 20. aldarinnar, og er það heitasta skráning fyrir tímabilið.
    • Hitastig á landi á heimsvísu fyrir bæði maí mánuð og tímabilið mars-maí er það heitasta samkvæmt skráningu, með hitafrávik upp á 1,04°C og 1,22°C yfir meðaltali 20. aldar.
    • Fyrir norðurhvelið er bæði meðalhitastig maímánaðar 2010 fyrir landsvæði og sameinað hitastig lands og sjávar það heitasta frá því mælingar hófust.  Sjávarhitastigið var það næst heitasta fyrir maímánuð á norðuhvelinu. Fyrir tímabilið mars-maí var hitastig á norðurhvelinu það heitasta fyrir tímabilið.
    • El Nino ástandið hætti í maí 2010.

    Maí 2010

    Helstu atriði sýnd á myndum og gröfum, bæði fyrir mánuðinn og tímabilið janúar – maí.

    Í töflunni hér fyrir neðan má lesa helstu tölur varðandi hitastig fyrir maímánuð 2010.

    Maí Frávik Röð
    (af 131 ári)
    Heitasti/næst heitasti maí
    samkv. skrám
    Á heimsvísu
    Land +1,04°C Heitasti 2005 (+0,90°C)
    Haf +0,55°C 2. heitasti 1998 (+0,56°C)
    Land og haf +0,69°C Heitasti 1998 (+0,63°C)
    Norðuhvel jarðar
    Land +1,14°C Heitasti 2007 (+1,08°C)
    Haf +0,54°C 2. heitasti 2005 (+0,57°C)
    Land og Haf +0,77°C Heitasti 2005 (+0,70°C)
    Suðurhvel jarðar
    Land +0,78°C 4. heitasti 2002 (+0,94°C)
    Haf +0,58°C 2. heitasti 1998 (+0,62°C)
    Land og Haf +0,61°C 2. heitasti 1998 (+0,65°C)

    Í grafinu hérundir má sjá þessi gögn í öðru ljósi:

    Og svo að lokum hitafrávikin fyrir tímabilið janúar – maí 2010.

    Eins og sést hefur hitastigið það sem af er árinu verið í hæstu hæðum.

    Heimildir og annað efni af loftslag.is: