Loftslag.is

Month: December 2010

  • Svampur Sveinsson í vandræðum með gróðurhúsaáhrifin

    Svampur Sveinsson í vandræðum með gróðurhúsaáhrifin

    Hérna má sjá hvað gerist hjá Svampi Sveinssyni (e. Sponge Bob Square Pants) þegar gróðurhúsaáhrifin eru sett í “5. gír” í veröld hans, í nafni hugsanlegs skyndi gróða. Mig langar að þakka ungri dóttur minni fyrir þýðingarhjálpina.

    Smá útúrdúr á léttum nótum, gjörið svo vel:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Ský og meiri hnattræn hlýnun

    Ský og meiri hnattræn hlýnun

    Nýjustu og fullkomnustu loftslagslíkönin spá töluverðri hlýnun vegna styrkaukningar gróðurhúsalofttegunda líkt og koldíoxíð (CO2) í andrúmsloftinu. Líkönin greinir aftur á móti á um hversu mikla hlýnun megi búast við. Sá munur er að mestu leiti vegna mismunar á því hvernig loftslagslíkönin túlka ský. Sum líkönin spá því að skýjahula muni aukast við hlýnun og að sú aukning muni auka speglun á sólargeislum og þar með dempa hina hnattrænu hlýnun. Önnur líkön reikna með að skýjahula muni minnka og þar með muni hlýnunin magnast.

    Í grein sem birtist nýlega í tímaritinu Journal of Climate, þá er könnuð færni líkana til að herma eftir skýjum og leggja höfundar fram nýja framsetningu á því hvernig best er að greina þá svörun sem ský veita við hlýnandi loftslag.

    Til að greina betur skýin, þá notuðu höfundar líkan sem líkti eftir takmörkuðu svæði yfir Austur Kyrrahafi og landsvæðunum þar í kring. Ský á þessu svæði eru þekkt fyrir að hafa töluverð áhrif á loftslag, en loftslagslíkön eiga í erfiðleikum með að líkja eftir þeim. Þetta svæðisbundna líkan nær aftur á móti nokkuð vel að líkja eftir skýjahulu nútímans, auk skýjabreytinga vegna breytinga í El Nino. Þegar búið var að sannreyna að líkanið hermdi vel eftir núverandi aðstæðum, þá var líkanið keyrt miðað við ætlað hitastig eins og búist er við eftir eina öld. Við það kom í ljós tilhneyging skýjanna til að þynnast og minnka í þessu líkani.

    Ef rétt reynist, þá er loftslag í raun viðkvæmara fyrir styrkaukningu á CO2 í andrúmsloftinu en áður hefur verið talið og flest loftslagslíkön að vanreikna mögulega hlýnun – þar sem minnkandi skýjahula myndi  magna upp hlýnunina.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin birtist í Journal of Climate, Lauer o.fl. 2010 (ágrip):  The Impact of Global Warming on Marine Boundary Layer Clouds over the Eastern Pacific—A Regional Model Study

    Umfjöllun um greinina má finna á heimasíðu háskólans á Hawaii: Cloud Feedbacks Amplify Global Warming

    Tengt efni á loftslag.is

  • Bardagi vísindamanna

    Bardagi vísindamanna

    Eitt af þeim atriðum sem kom fram í hinu svokallaða Climategate máli á sínum tíma var tölvupóstur þar sem Dr. Ben Santer var mjög harðorður gagnvart öðrum vísindamanni. Hann orðaði það þannig honum þætti það mjög freystandi að “beat the crap out of Pat Michaels” (ísl. “berja Pat Michaels í klessu”). Pat Michaels er loftslagsvísindamaður sem vinnur m.a. fyrir olíuiðnaðinn og “efast” um að hlýnun jarðar af mannavöldum sé mikil. Þeir “félagar” tókust loks á, eins og sést í þessu þriðja myndbandi sem við sýnum frá áheyrnafundi um loftslagsmál, sem fram fór á vegum bandaríska þingsins.

    En hvernig fór þessi bardagi svo, gjörið svo vel, dæmið sjálf.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Magnandi svörun í Alaska

    Magnandi svörun í Alaska

    Loftslagsbreytingar eru að auka alvarleika skógarelda í Alaska, sem veldur því að meira losnar af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið, samkvæmt nýrri grein sem birtist nýlega í Nature Geoscience. Þessir auknu skógareldar í Alaska hafa losað meira CO2 út í andrúmsloftið síðasta áratug, en skógar og freðmýrar Alaska náðu að binda á sama tíma.

    Undanfarin 10 ár, þá hefur svæði sem skógareldar hafa farið yfir í innsveitum Alaska tvöfaldast, mest vegna síðsumars skógarelda. Hér er á ferðinni einskonar magnandi svörun, þar sem hækkandi hitastig veldur því að skógareldar Alaska verða umfangsmeiri og alvarlegri – sem aftur losar meira af CO2 út í andrúmsloftið – sem aftur hækkar hitastig.

    Margt bendir til þess að vistkerfi norðurslóða muni verða fyrir mestum áföllum vegna hækkandi hitastigs jarðar og að þau muni í stað þess að binda kolefni í stórum stíl losa það og auka þar með á gróðurhúsaáhrifin.

    Heimildir og ítarefni

    Greinina má lesa hér Turetsky o.fl. 2010 (ágrip): Recent acceleration of biomass burning and carbon losses in Alaskan forests and peatlands

    Umfjöllun um greinina má lesa lesa á Science Daily: Northern Wildfires Threaten Runaway Climate Change, Study Reveals

    Tengt efni á loftslag.is
  • Wikileaks og loftslagsmál

    Wikileaks og loftslagsmál

    Nú er varla talað um annað en leka ýmissa skjala, yfir á wikileaks. Þau skjöl virðast ná til ýmissa mála og höfum við á loftslag.is rekist á nokkrar umfjallanir um loftslagsmál í tengslum við þau.

    Mostafa Jafari

    Þar er meðal annars fjallað um það hvernig bandarískir embættismenn reyndu (og tókst kannski) að koma í veg fyrir að Mostafa Jafari yrði meðstjórnandi í einum vinnuhóp IPCC, en Jafari er Íranskur vísindamaður. Hinn meðstjórnandinn var Bandaríski vísindamaðurinn Christopher Field. Í skjalinu stendur (lauslega þýtt):

    Meðstjórnendur frá Bandaríkjunum og Íran, mun valda vandamálum og hugsanlega vera á skjön við stefnu Bandaríkjanna gagnvart Íran

    Svo virðist sem náin samskipti og ferðalag Bandaríkjamanns og Írans í fjögur ár, hafi ekki hentað Bandarískum ráðamönnum.

    Yfirlýsing hefur komið frá Pachauri hjá IPCC um að hann hafi ekki látið að kröfum Bandaríkjamanna, þrátt fyrir að Argentínskur vísindamaður hafi verið valinn í hans stað. Það hefði í fyrsta lagi ekki verið í hans verkahring, auk þess sem vonlaust væri að ná slíku í gegn.

    Heimildir og ítarefni

    Wikileaks – Secret US Embassy Cables

    The Great Beyond: Wikileaks cables suggest US blocked Iranian scientist from UN climate panel chair

    The Guardian:  US embassy cables: US lobbied Rajendra Pachauri to help them block appointment of Iranian scientistWikiLeaks cables reveal how US manipulated climate accordWikiLeaks cables: US pressured UN climate chief to bar Iranian from job

  • Stöðuvötn hitna

    Stöðuvötn hitna

    Undanfarin aldarfjórðung hafa stöðuvötn Jarðar hitnað í takt við hinar hnattrænu loftslagsbreytingar, samkvæmt rannsókn vísindamanna NASA.

    Notuð voru gervihnattagögn og yfirborðshiti 167 stöðuvatna víðs vegar um heim mældur. Samkvæmt þessari rannsókn hafa vötnin verið að hitna um 0,45°C að meðaltali á áratug, en sum vötnin hafa verið að hitna um allt að 1,0°C á áratug. Hitaleitnin er hnattræn og mest er hækkunin á mið og hærri breiddargráðum norðurhvels Jarðar.

    Hiti var mældur að sumri til (júlí-september á norðurhveli og janúar-mars á suðurhveli) en það var gert vegna erfiðleika við gagnaöflunar þegar stöðuvötnin eru hulin ís eða þokubakkar liggja yfir þeim. Notuð voru stöðuvötn sem voru oftast nær yfir 500 ferkílómetrar að flatarmáli eða stærri – eða vötn sem hafa sérstakt vísindalegt gildi.

    Þessar niðurstöður bætast við sívaxandi gagnamagn þar sem skoðuð eru áhrif loftslagsbreytinga hnattrænt, en sérstaklega er þetta áhugaverð rannsókn fyrir þá sem rannsaka vistkerfi stöðuvatna en þau vistkerfi eru viðkvæm og geta breyst við litla breytingu í vatnshita. Sem dæmi getur lítil breyting í vatnshita orðið til þess að eitraðir þörungar blómstra eða að nýjar lífverur fara að breiða úr sér, sem getur rofið fæðukeðju vatnanna.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin er eftir Schneider og Hook 2010 (ágrip):  Space observations of inland water bodies show rapid surface warming since 1985

    Umfjöllun Science Daily um greinina má lesa hér: Earth’s Lakes Are Warming, NASA Study Finds

    Tengt efni á loftslag.is

  • Vitnisburður vísindamanna

    Vitnisburður vísindamanna

    Alltaf gaman að fylgjast með Dr. Alley að störfum

    Í þessu öðru myndbandi frá áheyrnarfundi í bandaríska þinginu svara loftslagsvísindamennirnir Dr. Richard Alley og Dr. Ben Santer ýmsum spurningum um loftslagsbreytingar, fyrra myndbandið má sjá hér. Fróðlegt er að sjá hvernig þetta fer fram þarna í BNA. Það virðist ekki alltaf vera auðvelt að svara flóknum spurningum á stuttum tíma og á sama tíma reynir spyrjandinn jafnvel að láta ljós sitt skína. En persónulega finnst mér vísindamennirnir skila þessu vel þrátt fyrir umgjörðina. Spurning hvort það væri ekki betra að lesa sig í gegnum eitthvað af þeim skýrslum sem til eru, í stað þess að hafa einskonar morfís keppni til að finna “sigurvegara” þar sem takmarkaður tími og aðrar takmarkanir eru settar varðandi möguleikann til að svara að viti. En jæja, þeir félagar (Alley og Santer) standa sig allavega með ágætum í þessum myndbandsbúti.

    Dr. Richard Alley og Dr. Ben Santer eru báðir virtir loftslagsvísindamenn.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Helstu sönnunargögn – Inngeislun sólar

    Helstu sönnunargögn – Inngeislun sólar

    Hér undir er úrdráttur af síðunni Helstu sönnunargögn.

    Inngeislun sólar síðustu áratugi

    Hér má sjá styrk inngeislunar sólar frá um 1880 til ársins 2000 borin saman við hitastig (skv. NASA GISS). Eins og sést var smávægileg aukning í inngeislun sólar framan af öldinni, neðri myndin. Á efri myndinni má sjá þróun hitastigs og inngeislunar sólar á jörðinni, en samkvæmt myndinni þá hefur hitastig hækkað nokkuð jafnt fá um 1975 þó að inngeislun sólar hafi verið minnkandi á sama tímabili. TSI (Total Solar Irradiance) hefur sveiflast um 1365,5 – 1366,5 W/m2, sem er u.þ.b. 0,1% sveifla á tímabilinu, og það er ekki talið geta útskýrt hlýnunina, sérstaklega frá því eftir 1975.

    Árlegt hnattrænt hitastig jarðar (þunn rauð lína) með 11 ára meðatalslínu (þykk rauð lína). Hitastig frá NASA GISS. Árleg sólvirkni – TSI (þunn blá lína) með 11 ára meðaltalslínu TSI (þykk blá lína). TSI frá 1880-1978 frá Solanki. TSI frá 1979-2009 frá PMOD.

    ÍtarefniNASAexplorer – Hitastigið 2009 og SólinVegur niðursveifla í virkni sólar upp á móti hlýnun jarðar af mannavöldum?Sólvirkni og hitastigGeimgeislar Svensmark og hlýnun jarðar

    Nánar, Helstu sönnunargögn

    Annað tengt efni af loftslag.is:

  • Gorgeirinn og vísindamaðurinn

    Gorgeirinn og vísindamaðurinn

    Vísindamaðurinn

    Í þessu myndbandi sem er frá einskonar áheyrnarfundi í bandaríska þinginu reynir Dana Rohrbacher að slá vísindamanninn Dr. Richard Alley út af laginu með ýmsum fullyrðingum og spurningum sem Dr. Alley fær ekki alltaf að svara fyrir yfirlæti Rohrbacher. Fróðlegt að sjá hvernig þetta fer fram þarna, það virðast ekki vera gerðar jafn miklar kröfur til spyrjenda og þeirra sem eiga að svara spurningunum, fyrir utan svo að ætla að ræða málin á þeim nótum að fólk fái 15 sekúndur til að svara yfirgripsmiklum spurningum.

    Dana Rohrbacher er þingmaður fyrir repúblíkanaflokkinn og vill gjarnan verða formaður nefndar um tækni og vísindi á bandaríska þinginu.
    Dr. Richard Alley er virtur vísindamaður frá Penn State háskólanum og sérfræðingur í fornloftslagi.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Hlýnun jarðar, Cancun og ábyrgð Íslands í loftslagsmálum

    Hlýnun jarðar, Cancun og ábyrgð Íslands í loftslagsmálum

    Þessi pistill, eftir Mikael Lind, birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 2. desember.

    Mikael Lind

    Sendimenn frá fleiri en 190 löndum hafa komið saman í Cancun í Mexíkó til að ræða leiðir til að draga úr áhrifum frá hlýnun jarðar og er góð ástæða til. Árið 2010 er hið heitasta á plánetu okkar síðan mælingar hófust og í fréttunum getum við fylgst með afleiðingunum; skógareldar í Rússlandi sem kæfa íbúa Moskvu og flóð í Pakistan sem setja einn fjórða af landinu í kaf.

    Eins og blaðamaðurinn Johann Hari á The Independent bendir á þá er meiri ástæða að hræðast náttúruhamfarir en þær hagfræðihamfarir sem tröllriðið hafa heiminum undanfarið því það er tvennt ólíkt að bjarga bönkunum frá gjaldþroti og að bjarga náttúrunni frá eyðileggingu.

    Virtustu loftslagssérfræðingar heims hafa bent á að vatnsyfirborð jarðar gæti hækkað um u.þ.b. einn til einn og hálfan metra á þessari öld. Ef þessar spár reynast réttar mundi hafið kaffæra London, Bangkok, Feneyjar, Sjanghæ og Kairó. Rannsókn á plöntusvifum sýndi nýlega fram á að 40% þeirra hafa drepist síðan 1950 vegna hlýnunar hafsins. Þessi svif framleiða helminginn af súrefni jarðar og drekka í sig koltvísýringa sem hafa annars hlýnandi áhrif á jörðina.

    Eins og Noam Chomsky benti á í myndfyrirlestri sínum í Háskólabíói fyrir stuttu er það þannig að þrátt fyrir framsetningu margra fjölmiðla er meginmál umræðunnar um hlýnun jarðar varla eitthvert rifrildi á milli þeirra fræðimanna sem trúa að útblástur gróðurhúsagasa hafi hlýnandi áhrif á jörðina og þeirra sem trúa því ekki. Mjög fáir vísindamenn afneita að hlýnun jarðar er af manna völdum og sums staðar virðist lobbýismi olíufyrirtækja vera partur af spilinu hjá þeim sem þverneita að viðurkenna vandann. Alvöru umræðan í vísindaheiminum á sér stað á milli loftslagsfræðimanna um hversu slæmar afleiðingarnar verða. Það að það verði afleiðingar er þegar álitið sem staðreynd.

    Þrátt fyrir að vera lítið land ber Ísland ábyrgð ásamt öllum öðrum löndum í heiminum. Það er stundum talað um þá sem vilja lifa “grænum lífsstíl” og þá sem vilja það ekki. En ég tel það líklegt að ef ástandið fari að versna samkvæmt spám fræðimanna þá mun varla vera um frjálst val að ræða miklu lengur. Er ekki það að passa vel upp á umhverfið frekar skylda gagnvart heiminum og sérstaklega börnum okkar sem erfa hann? Þynnkuna eftir náttúruhamfarir sem rekja má til kæruleysis í loftslagsmálum verður mun erfiðara að koma lagi á en bankakreppuna vegna kæruleysis stjórnmálamanna.

    Það er margt sem mátti betur fara á Íslandi og til að verða fyrirmyndarland verður að stefna hærra og ekki slaka á markmiðinu. Þar sem Ísland er mikil bílaþjóð verður að vera auðveldara fyrir Íslendinga að keyra á grænu eldsneyti eða rafmagni. Það verður einnig að auðvelda aðgengi fjölgandi hóps hjólafólks með því að byggja fleiri hjólabrautir. Í Reykjavík og stærri borgum vil ég sjá fleiri vistgötur og það þarf að hvetja fólk til þess að nota bílinn sjaldnar í miðborginni. (Strikið í Kaupmannahöfn er vel heppnuð göngugata; getum við ekki reynt að fylgja þessu dæmi eftir?) Æskilegt væri að framleiða eins mikið hér á landi og hægt er til að koma í veg fyrir mengandi innflutning. Fyrirtækin verða að axla ábyrgð og leggja sitt af mörkum í þróun græns hagkerfis.

    Ef horft er til framtíðar verður að skoða möguleika eins og að byggja lest frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar. Þannig mætti draga verulega úr mengun og einnig einfalda fyrir bæði Íslendinga og ferðamenn að ferðast á milli þessara staða á þægilegan hátt. Þetta og annað hefur verið rætt og tek ég því fagnandi, sem og frumlegum hugmyndum um notkun jarðvarma í stór gróðurhús varpað fram af Björk Guðmundsdóttur, John Perkins og fleiri. Þessi umræða verður að halda áfram og breiða úr sér. Setjum Ísland í fremstu röð grænna samfélaga!