Loftslag.is

Month: August 2011

  • Samhljóða álit vísindamanna sterkt

    Samhljóða álit vísindamanna sterkt

    Endurbirting á frétt frá því í fyrra

    Í fyrra birtist grein í PNAS (Proceedings of the National Academy of Sciences) þar sem staðfest er samhljóða álit (e. consensus) loftslagsvísindamanna að loftslagsbreytingar séu raunverulegar og séu af völdum manna (Anderegg o.fl. 2010).

    Gerð var greining á ritrýndum skrifum 1372 loftslagsvísindamanna og kom í ljós að nánast allir vísindamenn sem eru virkir á sviði loftslagsvísinda telja að loftslagsbreytingar séu af völdum manna. Í ljós kom að um 2% af þeim 50 vísindamönnum sem teljast virkastir í loftslagsvísindum eru ekki sannfærðir um að loftslagsbreytingarnar séu af mannavöldum. Svipað er upp á teningnum þegar skoðaðir eru topp 100 virkustu vísindamennirnir, en þá eru 3% ekki sannfærðir og um 2,5% af topp 200 vísindamönnunum hafa efasemdir um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Þá kom í ljós að því meira sem vísindamenn hafa skrifað í ritrýnd tímarit – því líklegri voru þeir til að vera sannfærðir um loftslagsbreytingar af mannavöldum.

    Dreifing vísindamanna eftir fjölda ritrýndra greina, eftir því hvort þeir eru sannfærðir um loftslagsbreytingar af mannavöldum (CE) eða ekki sannfærðir (UE).

    Höfundar segja enn fremur (lauslega þýtt):

    Þrátt fyrir að fjölmiðlar leitist við að sýna báðar hliðar rökræðunnar um loftslagsbreytingar af mannavöldum, sem getur leitt til misskilnings meðal almennings um hvar sú rökræða stendur, þá eru ekki allir loftslagsvísindamenn jafnir hvað varðar vísindalegan trúverðugleika og sérfræðiþekkingu á loftslagskerfum.

    Þá benda höfundar á að þessi umfangsmikla greining á þeim sem eru framarlega í loftslagsvísindum bendi til þess að umræða í fjölmiðlum og meðal stjórnmálamanna, sem og almenn umræða, ætti að taka mið af þessu þegar verið er að fjalla um loftslagsmál.

    Þetta er í samræmi við fyrri rannsóknir af svipuðu meiði, en Doran o.fl. (2009) komust að svipaðri niðurstöðu,  sjá t.d. mýtuna Vísindamenn eru ekki sammála, en þar segir meðal annars:

    Það virðist sem rökræðan um ástæður hnattrænnar hlýnunar og hlutverk mannlegra athafna í henni sé lítil sem engin á meðal þeirra sem eru framarlega í að skilja vísindalegan grunn í langtíma loftslagsferlum. Helsta áskorunin viðist vera hvernig hægt er að koma þeim staðreyndum til yfirvalda og til almennings sem virðist enn halda að það séu enn rökræður um málið meðal vísindamanna. Doran o.fl. 2009

    Heimildir og ítarefni

    Anderegg o.fl. 2010 – Expert credibility in climate change

    Doran o.fl. 2009 –  Examining the Scientific Consensus on Climate Change

     

    Tengt efni af loftslag.is

  • Hreyfingar jökulbreiðunnar á Suðurskautinu kortlagðar í fyrsta skipti

    Hreyfingar jökulbreiðunnar á Suðurskautinu kortlagðar í fyrsta skipti

    Vísindamenn frá Kalíforníu hafa í fyrsta skipti kortlagt hreyfingar jökulbreiðunnar á Suðurskautinu og jökulstrauma þess, en þar eru um 90 % af öllum ís sem finnst á jörðinni.  Þeir notuðu gögn frá gervihnöttum sem Evrópuþjóðir, Kanada og Japan höfðu aflað.

    Hér fyrir neðan er hreyfimynd sem sýnir hvernig jöklarnir flæða frá suðupólnum og í Suðurhöfin, þar sem sumir straumarnir fara allt að 250 m á ári.  Einn af þeim sem stóðu að þessari rannsókn segði að ljóst væri að jökulstraumarnir flæddu meðfram botninum.  Höfundar telja að þetta kort verði mikilvægt til að skilja hvernig jökulbreiður og jöklar muni bregðast við hækkun á hnattrænu hitastig og þar með að bæta spár um hækkun sjávarstöðu. Ef jöklar og jökulbreiður við sjávarsíðu Suðurskautsins fara að bráðna hraðar vegna hækkun loft- og sjávarhita, þá er líklegt að sú bráðnun muni auka hraða jökulstraumanna sem kortlagðir hafa verið.

     

    Heimildir og ítarefni

    Á heimasíðu European Space Agency má finna ítarlega umfjöllun um kortið:  Revealed: an ice sheet on the move

    Aðra umfjöllun má finna á heimasíðu Earth Observatory:  First Map of Antartica’s Moving Ice: Image of the Day

    Tengt efni á loftslag.is

  • Styrkur koltvísýrings á Íslandi yfir 400 ppm

    Styrkur koltvísýrings á Íslandi yfir 400 ppm

    VÍ © NOAA. Styrkur koltvísýrings í andrúmslofti á Stórhöfða í Vestmannaeyjum: mæliröð bandarísku loftrannsókna-stofnunarinnar NOAA frá 1992 í samvinnu við Veðurstofu Íslands. Blátt: gæðavottuð gildi. Rautt: óvottuð gildi frá 2011 (nýjustu niðurstöður). Styrkurinn hefur aukist úr 362 ppm í um 400 ppm. Einingin er míkrómól per mól eða ppm. Árstíðasveiflan er greinileg.

    Samfelldar mælingar á styrk CO2 (koltvísýrings) í lofthjúpnum hófust árið 1957 á suðurpólnum og árið 1958 á Mauna Loa á Hawaii. Þessar mælingar sýndu fljótlega að styrkur CO2 í lofti jókst ár frá ári og var aukningin sambærileg í hitabeltinu og á suðurpólnum.

    Við upphaf mælinga var styrkurinn um 315 ppm en árið 2010 var hann orðinn um 390 ppm*. Mælingar á magni CO2 í loftbólum í ískjörnum sýna að fyrir daga iðnbyltingarinnar var styrkurinn í lofthjúpnum um 280 ppm; nokkur árstíðasveifla var í styrknum og útslag hennar meira en í hitabeltinu.

    Á næstu áratugum bættust við fleiri stöðvar og árið 1992 hófust m.a. mælingar á Stórhöfða í Vestmannaeyjum en þær eru samvinnuverkefni Veðurstofu Íslands og bandarísku loftrannsókna-stofnunarinnar NOAA. Myndin hér undir sýnir mæliraðir frá þessum þremur stöðvum og augljóst er að ár frá ári er aukning í styrk CO2 á Stórhöfða sambærileg við hina staðina en árstíðasveiflan mun stærri:

    Árstíðasveiflan stafar mestmegnis af því að þegar plöntur vaxa að sumarlagi draga þær CO2 úr loftinu en þegar þær falla á haustin og rotna skila þær CO2 til baka. Ástæða þess að árstíðasveifla CO2 er meiri eftir því sem norðar dregur er einfaldlega sú, að á norðurhveli eru stærri landsvæði með gróðurþekju. Styrkur CO2 á Stórhöfða nær því venjulega hámarki á vorin, áður en gróður fer að taka við sér, en er svo í lágmarki á haustin áður en rotnun hefst.

    Fyrsta mæliárið á Stórhöfða var hámark CO2 rúmlega 362 ppm. Eins og myndin sýnir hefur styrkurinn aukist stöðugt síðan þá og vorið 2010 náði hámarkið 397 ppm. Myndin sýnir einungis yfirfarin gögn og enn sem komið er hafa mælingar frá árinu 2011 ekki verið gæðavottaðar. Óyfirfarin gögn fyrir árið 2011 má þó sjá í vöktunarkerfi NOAA. Myndin sem fylgir þessari frétt (í hægra horni efst) er úr vöktunarkerfinu og sýnir að styrkur CO2 fór yfir 400 ppm í andrúmslofti á Stórhöfða í vor.

    Þetta heyrir til verulegra tíðinda því líklega hefur styrkur CO2 hér á landi ekki verið svona hár í a.m.k. hundruð þúsunda ára. Lesa má um loftslagsbreytingar og gróðurhúsaáhrif hér á vefnum, svo og sögu mengunarmælinga á Stórhöfða frá 1991.

    * Styrkur CO2 er mældur í milljónustu hlutum og 390 ppm þýðir, að af hverjum milljón loftsameindum eru 390 sameindir CO2.

    Heimildir og ítarefni

    Þessi færsla birtist fyrst á vedur.is, en Halldór Björnsson veðurfræðingur og Þórður Arason jarðeðlisfræðingur lögðu til efni í þessa frétt.

    Tengt efni á loftslag.is

  • Hraðir flutningar, hærra og lengra

    Hraðir flutningar, hærra og lengra

    Í Science birtist nýlega grein um rannsókn, þar sem sýnt er fram á tengsl milli hinnar hnattrænu hlýnunar og flutning plantna og dýra til hærri breiddargráða og upp í meiri hæð yfir sjávarmál. Að auki kom í ljós að lífverur flytjast um set, um tvisvar til þrisvar sinnum hraðar en áður var talið.

    Vistfræðingar sem fylgdust með fiðrildum, tóku eftir því fyrir um tíu árum síðan að þau voru að flytjast um set.  Það hefur síðan komið meir og meir í ljós að stór hluti af mismunandi plöntum og dýrum eru að færa sig að hærri breiddargráðum eða upp hlíðar fjalla.  Augljósa svarið hefur verið að lífverur séu að flýja aukinn hita af völdum hnattrænnar hlýnunar, en það er ekki fyrr en með þessari grein sem talið er að vafanum þar um hafi verið eytt.

    Rannsóknarteymið hefur sýnt fram á að hinir ýmsu flokkar dýra –  liðdýr, fuglar, fiskar, spendýr, skeldýr, plöntur og skriðdýr – eru að færa sig fjær svæðum þar sem hlýnunin hefur verið mest.

    Vistfræðingar óttast að miklir flutningar lífvera á hnattræna vísu, eigi eftir að hafa slæm áhrif á líffræðilega fjörlbreytni og hafa truflandi áhrif á jafnvægi vistkerfa, auk þess að hraða á útdauða lífvera. Þar sem þetta er að gerast hraðar en talið var, þýðir að minni tími mun gefast til að bregðast við.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin birtist í Science og er eftir Chen o.fl. 2011 (ágrip): Rapid Range Shifts of Species Associated with High Levels of Climate Warming

    Umfjöllun um greinina má lesa á Science Now: In Warming World, Critters Run to the Hills

    Einnig er umfjöllun um greinina á heimasíðu Háskólans af York: Further, faster, higher: wildlife responds increasingly rapidly to climate change

    Tengt efni á loftslag.is

  • Breytingar á loftslagi af mannavöldum á einni mynd

    Breytingar á loftslagi af mannavöldum á einni mynd

    Árið 1859 gerði eðlisfræðingurinn John Tyndall tilraun sem sýndi fram á gróðurhúsaáhrifin. Sýnilegt ljós fer auðveldlega í gegnum lofthjúpinn til að hita upp jörðina. Annað mál gegnir um hina ósýnilegu innrauðu varmageislun sem kemur frá yfirborði jarðar. Hún sleppur ekki svo auðveldlega út í geim. Í tilraunastofu sýndi Tyndall, með því að senda hitageislun í gegnum lofttegundir, t.d. vatnsgufu og koldíoxíð (CO2), að sumar lofttegundir hindra varmageislun. Þær hafa verið kallaðar gróðurhúsalofttegundir.

    Tyndall spáði einnig fyrir því hvað myndi gerast ef gróðurhúsalofttegundir myndu valda hlýnun (Tyndall 1861). Búast má við sérstöku mynstri í hinni hnattrænu hlýnun, ef hún er af völdum aukinna gróðurhúsalofttegunda. Mælingar á þeim mynstrum styrkir vísbendingar um að mannkynið sé að valda þeirri hlýnun – auk þess sem þau útiloka náttúrulegar ástæður. Við skulum líta á hin fjölmörgu fingraför mannkyns á breytingum loftslags:

    Mannkynið eykur styrk CO2 í andrúmsloftinu

    Fyrst verður að minnast á það að það er mannkynið sem er að auka styrk CO2 í andrúmsloftinu. Magn CO2 í andrúmsloftinu er að aukast um 15 milljarða tonna á ári. Menn losa um tvöfalda þá upphæð. Aðrar vísbendingar um að menn eru að auka styrk CO2 í andrúmsloftinu eru fjölmargar.

    Við mælingar á tegundum kolefnis (samsætur- e. isotopes), sem eru að safnast fyrir í andrúmsloftinu , þá mælum við mun meiri aukningu á þeim tegundum sem myndast við bruna jarðefnaeldsneytis (Manning 2006). Við bruna jarðefnaeldsneytis þá tekurðu auk þess súrefni úr andrúmsloftinu. Mælingar á styrk súrefnis bendir til þess að það sé að minnka í tak við styrkaukningu CO2 (Manning 2006). Styrkaukning kolefnis úr jarðefnaeldsneyti hefur aukist til muna í kóröllum (Pelejero 2005) og sjávarsvömpum (Swart 2010). Manngert CO2 er að auki farið að aukast í djúpsjó úthafana (Murata 2010). Mælingar á kolefni í árhringjum trjáa staðfestir að mannkynið er ábyrgt fyrir auknum styrk CO2 (Levin 2000). Jafnvel efnagreiningar á blaðsíðum fornbóka sýna aukningu á bruna jarðefnaeldsneytis aftur að upphafi iðnbyltingunarinnar (Yakir 2011).

    Margar mismunandi vísbendingar staðfesta að við, mannkynið, er ástæða nýlegrar styrkaukningar á CO2 í andrúmsloftinu.

    Aukinn styrkur CO2 breytir varmageislun í lofthjúpnum

    Skilningur okkar á því hvernig gróðurhúsaáhrifin virka, gefur möguleikann á því að staðfesta spár þar um. Við aukinn styrk CO2 í andrúmsloftinu, ætti varmageislun út í geim að minnka. Gervihnettir sem mæla innrauða útgeislun frá jörðu, sýna að minni hiti sleppur út í geim nú ef miðað er við fyrir nokkrum áratugum, á þeim bylgjulengdum sem CO2 gleypir orku (Harries 2001, Griggs 2004, Chen 2007). Þeir sem lýstu þessu fyrstir sögðu ennfremur (bein þýðing):

    „ …þetta eru beinar mælingar sem sýna marktæka aukningu gróðurhúsaáhrifa.“
    Harries 2001

    Ef minni hiti sleppur út í geim, þá er einungis ein leið fyrir hitan að fara – þ.e. til baka að yfirborði jarðar. Með því að mæla varmageislun á innrauðum bylgjulengdum geta vísindamenn mælt þá varmageislun sem kemur niður til jarðar úr lofthjúpnum. Þær mælingar staðfesta fyrrnefnd gervihnattagögn – aukin varmageislun er niður í átt að yfirborði jarðar (Philipona 2004, Evans 2006, Wang 2009). Eitt teymi vísindamanna sem lýstu þessu sögðu ennfremur (bein þýðing):

    „Þessi mæligögn ættu í raun að enda rökræður efasemdamanna sem segja að engin gögn sýni tengsl milli styrkaukningu gróðurhúsalofttegunda og hnattrænnar hlýnunar.
    Evans 2006

    Hin hnattræna hlýnun fylgir mynstri hlýnunar af völdum gróðurhúsalofttegunda.

    Á miðri nítjándu öld, spáði Tyndal því að við hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda þá myndu nætur hlýna hraðar en dagar. Það er vegna þess að á nóttunni, þá kólnar yfirborð jarðar við varmaflæði út í geim. Gróðurhúsalofttegundir hindra þetta varmaflæði og minnka því þá kólnun sem verður á nóttunni. Um 130 árum síðar þá var búið að staðfesta spá Tyndalls. Á síðustu áratugum þá hefur yfirborð jarðar hlýnað hraðar á nóttunni en á daginn (Braganza 2004, Alexander 2006, Zhou 2009).

    Tyndall spáði öðru um það hvernig hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa birtast í gögnunum. Rétt eins og gróðurhúsalofttegundir hægja á kólnun á nóttunni, þá hægja þær einnig á kólnun á veturna. Þannig að Tyndall bjóst við að vetur myndu hlýna hraðar en sumur. Þetta hefur verið staðfest með því að skoða leitni hitastigs undanfarna áratugi (Braganza et al 2003, Braganza et al 2004). Bæði mælingar við yfirborð jarðar og með gervihnattagögnum staðfesta að vetur hlýna hraðar en sumur.

    Eitt mynstur sem búast má við í lofthjúpnum, við hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda, er að neðri hluti lofthjúpsins hlýni. Að sama skapi er búist við að minna varmaflæði frá yfirborði jarðar verði þá til þess að efri hluti lofthjúpsins kólni. Gervihnettir og veðurbelgir hafa staðfest þessa breytingu á efri hluta lofthjúpsins og neðri hluta hans (Jones 2003).

    Við það að neðri hluti lofthjúpsins (veðrahvolfið) hlýnar og efri hluti hans (heiðhvolfið) kólnar, þá ættu mörk þeirra – veðrahvörfin, að rísa við hlýnun af völdum gróðurhúsaáhrifa. Það hefur verið mælt (Santer 2003). Enn hærra er svo jónahvolfið. Við hlýnun vegna gróðurhúsaáhrifa þá má búast við að það kólni og dragist saman. Gervihnettir hafa einmitt sýnt fram á það (Laštovika 2006). Það má því segja að uppbygging lofthjúpsins sé að breytast af mannavöldum.

    Það sem áðurnefndar vísbendingar eða fingraför hlýnunar vegna gróðurhúsalofttegunda gera ennfremur, er að þau útiloka aðrar mögulegar ástæður hnattrænnar hlýnunar. Ef sólin væri orsök hlýnunarinnar, þá myndu sumrin hlýna hraðar en vetur og dagar hraðar en nætur, auk þess sem efri hluti lofthjúpsins myndi hlýna. Mælingar útiloka því sólina.

    Að sama skapi útilokar mynstur í hlýnun sjávar það að hlýnunin sé vegna reglubundinna sveifla í hringrásum sjávar.  Úthöfin hafa verið að safna í sig hita undanfarna hálfa öld. Það er því ekki þannig að hitinn sé að sveiflast til vegna hringrása sjávar. Sú hlýnun sjávar sem er í gangi, er í góðu samræmi við hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda (Barnett 2005).

    If it walks like a duck… – að leita of langt yfir skammt…

    Núverandi hnattræn hlýnun sýnir samskonar fingraför og búast má við af hlýnun vegna gróðurhúsalofttegunda. Ef þú ætlar að efast um þátt manna í þeirri hlýnun þá þarftu að komast að tvenns konar niðurstöðu. Annars vegar að eitthvað óþekkt sé að valda þeirri hlýnun og að það sýni sama mynstur við hlýnun og gróðurhúsaáhrifin. Hins vegar þarf að vera til eitthvað sem bælir niður hin vel þekktu (og vel mældu) gróðurhúsaáhrif. Það má því segja að við verðum að viðurkenna hið augljósa (hlýnun vegna gróðurhúsalofttegunda) eða við verðum að sætta okkur við óvissu um tvö óþekkt fyrirbæri.

    Á ensku er til orðatiltækið „if it walks like a duck and quacks like a duck, then it must be a duck.Það má útfæra þannig að ekki skuli leita of langt yfir skammt að útskýringu. Efasemdamenn um hnattræna hlýnun af mannavöldum vilja þó meina að í fjarska sé útskýringu að finna og neita að samþykkja hina augljósu skýringu.

    Heimildir og ítarefni

    Þessi færsla er þýðing á færslu af Skeptical Science, sjá How we know we’re causing global warming in a single graphic

    Tengt efni á loftslag.is

  • Jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins bráðna hraðar

    Jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins bráðna hraðar

    Endurbirting á færslu frá því í vor.
    Samkvæmt nýlegum gögnum þá eru jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins að bráðna sífellt hraðar með hverju árinu.

    Margt bendir til þess – samkvæmt greiningu á fjölbreyttum gögnum (Rignot o.fl. 2011) – að bráðnun frá jökulbreiðum heimsskautanna sé að taka við af fjallajöklum og hveljöklum sem stærsti þátturinn í sjávarstöðuhækkun úthafanna. Það er mun fyrr en loftslagslíkön hafa bent til.

    Hraði bráðnunarinnar hefur verið að aukast töluvert. Á hverju ári, á því tímabili sem skoðað var, bráðnaði að meðaltali um 36,3 gígatonn meira en á árinu áður.

    Heildar massajafnvægi jökulbreiðanna milli áranna 1992 og 2009. Efsta myndin sýnir bráðnun á Grænlandi, miðmyndin sýnir Suðurskautið og neðsta myndin sýnir samtölu beggja jökulbreiðanna í gígatonnum á ári. Notaðar eru tvær aðferðir: Massamælingar samkvæmt aðferð A (svartir punktar) og þyngdarmælingar frá NASA GRACE gervihnettinum aðferð B (rauðir þríhyrningar). Mynd: NASA/JPL-UC Irvine-Utrecht University-National Center for Atmospheric Research

    Það að jökulbreiður verði ráðandi þáttur í sjávarstöðubreytingum er nokkuð sem búist hefur verið við – en hingað til hefur verið talið að aukningin myndi gerast hægar. Þessi rannsókn styður nýlegar rannsóknir sem benda til þess að IPCC frá árinu 2007, hafi vanmetið komandi sjávarstöðubreytingar.

    Höfundar tóku saman gögn fyrir næstum tvo áratugi, af mánaðarlegum gervihnattamælingum bornum saman við gögn úr loftslagslíkönum til að kanna breytingar og leitni í bráðnun jökulbreiðanna.

    Notaðar voru tvenns konar mæliaðferðir. Sú fyrri (aðferð A) bar saman annars vegar gögn um yfirborðsbreytingar með InSAR tækninni,  auk þykktarmælinga þar sem notaðar eru bylgjumælingar (RES) til að áætla hversu mikið jökulbreiðurnar voru að missa og hins vegar staðbundið loftslagslíkan sem notað var til að áætla hversu mikið safnaðist saman á ákomusvæði jökulbreiðanna. Seinni aðferðin (aðferð B) notaði átta ár af gögnum við þyngdarmælingar með GRACE gervihnetti NASA.

    Gögn frá þessum tveimur mismunandi aðferðum sýndu gott samræmi þegar þau voru borin saman, bæði hvað varðar heildarmagn massatapsins og hraða þess – þ.e. þau átta ár sem báðar mælingarnar voru í gangi. Þannig er hægt að álykta að gögnin sýni samfellda niðurstöðu frá árinu 1992.

    Á hverju ári, þau 18 ár sem gögnin ná yfir, þá bráðnaði Grænlandsjökull um 21,9 gígatonnum meira heldur en árið áður. Á Suðurskautinu var það um 14,5 gígatonn meira á ári.

    Það eykur gildi rannsóknarinnar að notaðar voru tvær óháðar aðferðir sem svona mikið samræmi var á milli og sýnir hversu mikið þekking á bráðnun jökulbreiðanna hefur aukist undanfarin ár og hversu mikið betri gögnin eru.

    Ef áfram heldur sem horfir, samkvæmt höfundum, þá munu jökulbreiðurnar tvær auka sjávarstöðu um 15 sentimetra fyrir árið 205o – sem þýðir um 32 sentimetrar ef aðrir þættir eru teknir með í reikninginn. Óvissan er þó enn mikil, en þetta er töluvert meira en t.d. spár IPCC frá 2007.

    Heimildir og ítarefni

    Sjá grein í Geophysical Research letters, Rignot o.fl. 2011 (ágrip):  Acceleration of the contribution of the Greenland and Antarctic ice sheets to sea level rise

    Umfjöllun um greinina má finna á heimasíðu NASA, Jet Propulsion Laboratory: NASA Finds Polar Ice Adding More to Rising Seas

    Tengt efni á loftslag.is

     

  • Tíðni hitabylgja gæti aukist í Bandaríkjunum

    Tíðni hitabylgja gæti aukist í Bandaríkjunum

    Eitt af því sem vísindamenn spá að muni aukast við þær loftslagsbreytingar sem nú eru að verða eru hitabylgjur. Mikil hitabylgja gengur nú yfir Suðurríki Bandaríkjanna sem eru í góðu samræmi við það sem vísndamenn segja.  Af því tilefni rifjum við upp færslu af loftslag.is frá því í fyrra:

    Óvenjulangar hitabylgjur og óvenjumikill hiti gæti orðið algengur í Bandaríkjunum á næstu 30 árum, samkvæmt  nýlegri rannsókn.

    Við rannsóknina voru notaðar umfangsmiklar keyrslur á þriðja tug mismunandi loftslagslíkana, þar sem könnuð var sú sviðsmynd að losun CO2 í andrúmsloftinu myndi auka hnattrænt hitastig jarðar um 1°C frá 2010-2039 – sem þykir frekar líklegt samkvæmt IPCC. Höfundar greindu hitagögn fyrir Bandaríkin milli áranna 1951-1999. Markmið þeirra var að finna lengstu hitabylgjurnar og heitustu árstíðina fyrir seinni hluta tuttugustu aldarinnar. Þær greiningar voru keyrðar í loftslagslíkönum, meðal annars inn í RegCM3 sem er loftslagslíkan með mikilli upplausn og líkir eftir hitastigi frá degi til dags á litlu svæði (25×25 km).

    Samkvæmt niðurstöðunni, þá munu hitabylgjur – svipaðar og þær lengstu á tímabilinu 1951-1999 – verða allt að fimm sinnum milli áranna 2020-2029 á hluta vesturstrandar og miðríkja Bandaríkjanna. Á milli 2030-2039 verða þær enn viðameiri og algengari.

    Höfundar spá einnig mikilli aukningu í óvenjulegu árstíðabundnu hitastigi á áratugnum sem nú er hafinn, en hitastig sem jafnast á við heitustu árstíðina frá 1951-1999 gæti orðið allt að fjórum sinnum fram til ársins 2019 yfir stóran hluta Bandaríkjanna. Auk þess töldu höfundar líklegt að dagleg hitamet verði tvisvar sinnum algengari á fjórða áratug þessarar aldar en milli áranna 1980-1999.

    Fyrir áratuginn 2030-2039, gæti stór hluti Bandaríkjanna orðið vitni að allavega fjórum árstíðum á áratug, sem verða jafn heit og heitasta árstíðin á tímabilinu 1951-1999. Í Utah, Colorado, Arizona og Nýju Mexíkó gætu mjög heitar árstíðir á áratug orðið allt að sjö.

    Einn aðalhöfunda segir um niðurstöðuna: “Á næstu 30 árum, gætum við séð aukningu á tíðni hitabylgja líka þeirri sem gengur nú yfir Austurströnd Bandaríkjanna (byrjun júlí) eða líka þeirri sem reið yfir Evrópu árið 2003 og olli tugum þúsunda dauðsfalla. Hitabylgjur sem þær, valda einnig töluverðu álagi á ræktun korns, sojabauna, baðmullar og vínberja, sem getur valdið uppskerubrest.” Við þetta bætist að líklegt er talið að breytingar í úrkomu og raka jarðvegs eigi eftir að versna til muna þegar líður á öldina og muni það magna upp afleiðingar hitabylgjanna – þ.e. að meira verði um þurrka og skógarelda í náinni framtíð.

    Miðað við fyrrnefnda sviðsmynd, yrði hnattrænn hiti eftir 30 ár um 2°C heitari en fyrir iðnbyltinguna. Margir hafa talið það ásættanlegt markmið til að komast hjá verstu afleiðingum hlýnunar Jarðar (sjá Tveggja gráðu markið). Samkvæmt þessari rannsókn þá munu svæði í Arizona, Uta, Colorado og Nýju Mexíko verða fyrir allavega 7 hitabylgjum á tímabilinu 2030-2039 – hitabylgjum jafn heitum og þær verstu frá árinu 1951-1999. Þar með telja höfundar að mörg svæði Bandaríkjanna muni verða fyrir alvarlegum afleiðingum hlýnunar Jarðar, þrátt fyrir að tveggja gráðu markið myndi nást.

    Heimildir og ítarefni

    Unnið upp úr frétt af heimasíðu Stanford háskólans: Heat waves and extremely high temperatures could be commonplace in the U.S. by 2039, Stanford study finds

    Diffenbaugh, N.S. and Ashfaq, M., Intensification of hot extremes in the United States, Geophysical Research Letters, doi:10.1029/2010GL043888, in press.

    Tengdar færslur á loftslag.is

  • Er heimurinn að hlýna eða kólna?

    Er heimurinn að hlýna eða kólna?

    Gestapistill eftir Emil Hannes Valgeirsson – birtist fyrst á bloggsíðu hans, Er heimurinn að hlýna eða kólna? en er hér í smávægilega uppfærðri útgáfu.

    Það eru væntanlega fáir sem efast um að hlýnað hafi á jörðinni síðustu 100 ár enda sýna mælingar það svo ekki verði um villst. Þessar 0,7° gráður eða svo sem hlýnað hefur um í heiminum frá aldamótunum 1900 teljast varla vera nein katastrófa en haldi hlýnunin áfram á þessari öld með auknum hraða, gæti gamanið farið að kárna eins og margoft hefur verið varað við.

    En hér eru ekki allir á sama máli, því inn á milli heyrast raddir um að loftslag á jörðinni stjórnast lítið sem ekkert af athöfnum manna – það hafi alls ekkert hlýnað undanfarin ár og framundan sé áratugalangt kuldaskeið af náttúrulegum orsökum en aðallega þá vegna minnkandi sólvirkni. Sumir hafa undanfarið jafnvel talið að kuldaskeiðið mikla væri í þann veginn að hefjast eins og þessar tilvitnanir segja til um:

    It is likely that 2011 will be the coolest year since 1956, or even earlier, says the lead author of a peer-reviewed paper published in 2009. Our ENSO – temperature paper of 2009 and the aftermath by John McLean

    „Global temperatures have suddenly returned to the same level they were in 1980 and are expected to drop much further. Given the momentum of the solar hibernation, it is now unlikely that our generation or the next one will return to the level of global warming that we have just passed through. Again, global warming has ended. It was always caused by the Sun and not mankind. The global cooling era has begun.“ Space and Science Research Center, February 4, 2011

    Þessi síðari tilvitnun er frá því í febrúar nú í ár eftir að hitinn hafði fallið í byrjun árs. Ekki reyndist sú kólnun langvinn. Þeir sem kallast efasemdamenn um hnatthlýnun hafa reyndar lengi bent á að mikið hitafall sé yfirvofandi eða í þann veginn að skella á. Slíkt hefur hingað til látið á sér standa eða frestast, því eftir hvert bakslag hefur hitinn náð sér á strik svo um munar. Myndir hér að neðan sýnir hitaþróun jarðar frá 1979 samkvæmt gervitunglagögnum UAH:

    Sá þáttur sem hefur einna mest skammtímaáhrif á hitafar jarðar en ENSO sveiflan í Kyrrahafi, sem segir til um hvort hinn hlýji El Nino eða hin kalda La Nina ráði ríkjum hverju sinni en mestu áhrifin eru af völdum sterks El Nino árið 1998 enda var það ár það hlýjasta samkvæmt þessum gögnum. Frá 1950 hefur þróunin verið þannig (rautt = El Nino / blátt = La Nina):

    Ef við setjum þessar tvær myndir saman fyrir árin 1979-2011 þannig að ártölin stemmi, þá sést vel hvað átt er við. Hitaþróunin eltir ENSO sveiflurnar en er þó oftast nokkrum mánuðum á eftir. Eina tímabilið sem passar illa er 1992-1993 en það er vegna kælingar af völdum stóra eldgossins í Pinatupo á Filippseyjum:

    Í þessum samanburði kemur það í ljós að hitaferill hefur smám saman verið að lyfta sér upp fyrir ENSO sveiflurnar eins og ég stilli þessu upp. Með öðrum orðum: Það er undirliggjandi hlýnun í gangi sem ekki verður skýrð með tíðni El Nino og La Nina. Á síðasta ári var uppi kalt La Nina ástand (lengst til hægri) sem dugði þó ekki nema til þess að lækka hitann rétt niður fyrir meðallag en stóð stutt. Nú þegar hlutlaust ENSO-ástand er komið á á ný hefur hitinn rokið aftur upp (+0,37°) og það langt yfir meðallag. Til að ná slíkri hæð á árunum fyrir 1995 hefði hinsvegar þurft eindregið El Nino ástand.

    Annað mikilvægt er að hitaþróun síðustu ára virðist ekki vera í samræmi við þá minnkandi sólvirkni sem verið hefur síðustu ár – allavega ekki enn sem komið er. Vísbendingar eru um langvararandi sólardeyfð á næstu áratugum en hvaða áhrif það mun hafa hafa veit ég ekkert um. Allavega virðumst við ennþá vera í ferli hlýnunnar sem erfitt er að útskýra án þess að íhuga þann möguleika að eitthvað gæti kannski komið við sögu sem ef til vill hefur eitthvað með mannkynið að gera.

    Tengt efni á loftslag.is:

     

     

  • Hitastig í veðrahvolfinu í júlí og þróun hitastigs á þeim slóðum

    Hitastig í veðrahvolfinu í júlí og þróun hitastigs á þeim slóðum

    Hitastig í veðrahvolfinu, samkvæmt gervihnattamælingum, sveiflast yfirleitt meira heldur en hitastig við jörðu og því hefur augnabliksstaða sveiflnanna stundum verið notað af “efasemdamönnum” sem dæmi um litla hlýnun og jafnvel kólnun þegar þannig liggur á mönnum. Eins og sjá má á grafinu hér undir þá eru sveiflurnar þó nokkrar og þegar það á við, hefur náttúruleg og eðlileg niðursveifla í þessum tölum verið notað sem dæmi um eitthvað sem ekki er í tölunum, sjá t.d. Hröð kólnun lofthjúpsins undanfarið samkvæmt gervihnattamælingum… (Ágúst H. Bjarnason, 13. apríl 2011). Vonandi mun hann fjalla jafn ítarlega um toppinn á sveiflunni þegar þar að kemur…

    Það má segja að það sé ekkert nýtt í þessu grafi, hitastig í veðrahvolfinu sveiflast meira en niður við yfirborð jarðar og leitnin sýnir hækkandi hitastig í veðrahvolfinu. Leitnin er í raun í nokkru samræmi við leitni hitastigs við yfirborð jarðar, hvað sem segja má um sveiflurnar sjálfar eða einstakar túlkanir á augnabliksstöðu þeirra.

    Við munum fjalla nánar um hitastigið í júlí við yfirborð jarðar þegar tölurnar birtast hjá NOAA og NASA síðar í mánuðinum ásamt því að skoða tölurnar fyrir maí og júní – þar sem við höfum ekki verið ýkja duglegir við að fjalla um hitastig í lofthjúpnum að undanförnu. Samkvæmt þróun hitastigs í veðrahvolfinu nú, má kannski búast við því að hitastig geti verið á uppleið aftur eftir að La Nina ástandið í miðjarðarhafinu hopaði, en það mun tíminn einn leiða í ljós.

    Heimildir

    Grafið er fengið af vefsíðu Dr. Roy Spencer. En ekki get ég þó mælt með hans túlkunum á loftslagsvísindunum, þó svo hann vinni m.a. við að taka þessar tölur saman, sjá nánar Latest Global Temps. Dr. Roy Spencer er “efasemdamaður” og við munum væntanlega fjalla nánar um hann og hans þátt í “efasemda” umræðunni hér á loftslag.is á næstunni, þangað til geta lesendur forvitnast um kappann hér og hér.

    Tengt efni á loftslag.is:

    Latest Global Temps