Loftslag.is

Month: December 2012

  • Jólakveðja

    Jólakveðja

    Við óskum lesendum okkar gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

    Það verður rólegt hér á loftslag.is yfir hátíðirnar, þó stöku pistlar geti ratað inn ef tilefni gefst. Við minnum á að töluvert lesefni er að finna hér á loftslag.is, sjá t.d. Leiðakerfi síðunnar og tilvísanir í ýmsar mikilvægar síður hér.

  • Vængjasniglar í vanda

    Vængjasniglar í vanda

    Nú þegar er skel sumra sjávarsnigla í Suðurhöfum byrjuð að eyðast upp vegna súrnunar sjávar, samkvæmt nýrri rannsókn.

    Í  greiningu á vængjasniglum sem tekin voru í grennd við Suðurskautið árið 2008,  kom í ljós óvenjuleg rýrnun á skeljum dýranna, sem vísindamenn telja að séu mögulega vísbendingar um að súrnun sjávar af völdum aukins styrks CO2, sé nú þegar farin að hafa áhrif á viðkvæmustu sjávardýrin.

    Greiningar á rannsóknastofum hafa sýnt að súr sjór ógni tilveru margra sjávarhryggleysingja, líkt og skeldýra og kóraldýra – því geta þeirra til að mynda skel og utanáliggjandi beinagrind minnkar. Viðkvæmust eru dýr sem, líkt og vængjasniglar, byggja skeljar sínar úr aragóníti, en það er kalsíum karbónat sem er einstaklega viðkvæmt fyrir aukinni súrnun.

    Samkvæmt vísindamönnum, þá er pH stig úthafanna að lækka hraðar nú en nokkurn tíman síðastliðin 300 milljón ár.

    Heimildir og ýtarefni

    Greinin er eftir Bednaršek o.fl. 2012 og birtist í Nature Geoscience: Extensive dissolution of live pteropods in the Southern Ocean

    Umfjöllun um greinina má lesa á heimasíðu NewScientist: Animals are already dissolving in Southern Ocean

    Tengt efni á loftslag.is

  • Með styrk frá Noregi?

    Með styrk frá Noregi?

    Í vikunni fagnaði formaður Vinstri Grænna, Steingímur J. Sigfússon, þátttöku Norðmanna í fyrirhugaðri olíuleit á Drekasvæðinu. Hann telur það styrkja verkefnið.

    Það gefur því aukið vægi og það er styrkur í að hafa Norðmenn okkur við hlið í þessu. Þeir búa enda yfir mikilli reynslu á þessu sviði, þá ekki síst í öllu sem snýr að öryggis- og umhverfismálum í tengslum við olíu- og gasvinnslu á hafi úti. Þannig að ég held að það sé akkur í því, auk þess sem við eigum náttúrlega mikið samráð við Noreg og erum með samkomulag við Norð- menn um skiptingu á Drekasvæðinu,“

    sagði Steingrímur J. í viðtali við Morgunblaðið.

    Norska fyrirmyndin?
    Olíuríkið Noregur hefur að undanförnun fengið á sig gagnrýni fyrir að tala með tungum tveim í loftslagsmálum og sitt með hvorri.

    Á sama tíma og norsk stjórnvöld verja gríðarlega háum fjárhæðum til bjargar regnskógum REDD+ og CDM-fjárfestingarverkefni í hreinni tækni í þriðja heims ríkjum sýna ný gögn að markmið norskra stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda eru enn langt undan.

    Noregur hefur stært sig af að skattleggja olíutekjur sínar til að fjármagna REDD+ og CDM-verkefni, að viðbættri rausnarlegri þróunaraðstoð. Nýjar tölur frá Alþjóðlegu orkumálastofnuninni (International Energy Agency, IEA) sýna að losun gróðurhúsalofttegunda í Noregi hefur aukist umtalsvert.

    Bård Vegar Solhjell, umhverfisráðherra, mun lenda í Doha síðar í vikunni á 18. loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna, til að kynna metnaðarfull markmið ríkisstjórnar sinnar til að vinna á loftslagsbreytingum, þ.m.t. 20 prósent samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda innan landamæra Noregs fyrir árið 2020, skuldbindingar um 500 milljóna dollara framlag á ári til að styðja við vernd regnskóga (REDD+), fjárframlög til að styrkja nýtingu endurnýjanlegrar orku í þróunarríkjum (CDM) og nokkrar milljónir dollara til að auðvelda aðlögun að breyttum heimi í kjölfar loftslagsbreyting; hin fátækari ríki heims augljóslega eiga bágt með að taka á vandamálum í kjölfar veðuratburða á borð við Sandy af sömu festu og Bandaríkin geta gert.

    Hvað sem því líður þá fela tölur IEA í sér að Noregur hefur fallið af stalli sem ofurhetja í umhverfismálum. Losun koltvísýrings frá eldsneytisbrennslu hefur aukist um 38 prósent frá árinu 1990 (viðmiðunar ár Kyoto-bókunarinnar), meira en öll önnur OECD-ríki nema Ástralía, sem lengi vel taldist meðal helstu loftslagsbófa.

    Meiri áhyggjum veldur að losunarspár fram til ársins 2020 sýna að losun gróðurhúsalofttegunda mun aukast og orsökin er losun frá olíu- og gasvinnslu og að brennslu þess konar eldsneytis hefur aukist verulega. Á móti kemur að annar iðnaðar á landi hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda.

    Þessi þróun mun skaða hið góða orðspor Noregs í umhverfismáum. Vilji Noregur láta taka mark á sér duga ekki bara metnaðarfullar yfirlýsingar á alþjóðlegum ráðstefnum um hversu ábyrgir heimsborgarar Norðmenn séu. Slíkum yfirlýsingum verður að fylgja aðgerðir heima fyrir; aðgerðir sem fela í sér verulegan samdrátt í losun koltvísýrings.

    Steingrímur J. Sigfússon veit betur en við flest eftir marga og erfiða daga í fjármálaráðuneytinu að Ísland er ekki aflögufært um peninga í sama mæli og Noregur, jafnvel ekki samkvæmt höfðatölureglunni. Hvað varðar loftslagsstefnu væri óskandi að hann sækti fyrirmyndir sínar annað en til Noregs; að hann hefði siðferðisstyrk til að segja kjósendum sínum fyrir norðan að samkvæmt skýrslu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar geti mannkyni einungis nýtt þriðjung nýtanlegs jarðefniseldsneytis sem vitað er um fyrir árið 2050. Það er að segja, eigi mannkyninu að takast að halda hækkun hitastigs andrúmsloftsins innan við 2 gráður á Celsíus að meðaltali. Eru ekki Vinstri græn með okkur í því verkefni?

  • Saga loftslagsumræðunnar á 83 sekúndum

    Saga loftslagsumræðunnar á 83 sekúndum

    Á tímum hraða og tímaleysis, þá þarf stundum að hraðsjóða hlutina til að ná athygli. Það er væntanlega einhver vottur af sannleika í þessu myndbandi – en allavega fróðleg framsetning. Þess má geta að loftslagsráðstefnan COP18 er í gangi í Doha þessa dagana, en vegna tímaleysis og frekar lítilla væntinga til raunverulegra niðurstaðna þá verður væntanlega lítið fjallað um loftslagsfundinn í þetta skiptið. En allavega ekki missa af þessum 83 sekúndum, nokkuð athyglisverð nálgun:

    Tengt efni á loftslag.is: