Loftslag.is

Month: January 2013

  • Árið 2012 skv NASA GISS, öfgahitar og hnatthitaspá meistaranna

    Árið 2012 skv NASA GISS, öfgahitar og hnatthitaspá meistaranna

    Árið 2012 var ár öfga, en  öfgar aukast með hækkandi hitastigi. Árið í ár var það níunda heitasta frá upphafi mælinga samkvæmt NASA GISS, en öll þau ár hafa orðið eftir 1998 (það ár meðtalið). Hnattrænt hitafrávik árið 2012 var +0,56°C miðað við viðmiðunartímabilið 1951-1980 – þrátt fyrir sterk La Nina áhrif.

    Hnattrænt hitafrávik samkvæmt NASA GISS. Á myndinni má sjá helstu áhrifavalda náttúrulegra sveifla í hitastigi, þ.e. eldgos (grænt) og ENSO (blár og kaldur La Nina fasi og appelsínugulur og hlýr El Nino fasi).

    Ein helsta ástæða þess að ekki var sett hitamet á síðasta ári er sú að Kyrrahafssveiflan (ENSO) var í La Nina fasa, en sú sveifla hefur kælandi áhrif á hnattrænan hita. Því er talið víst að við næstu El Nino sveiflu þá verði sett hitamet, því nokkur hitaaukning er í pípunum, sem náttúrulegar sveiflur hafa deyft undanfarin ár.

    Öfgahitar

    Þessi áframhaldandi hái hiti hefur orðið til að auka tíðni öfgaveðurs og þá sérstaklega óvenjumikinn hita víða um heim, eins og sjá má á þessari fróðlegu hreyfimynd sem sýnir í lokin hitafrávik 2012:

    Fyrir nokkrum dögum kom út grein sem virðist staðfesta áhrif hækkunar hnattræns hita af mannavöldum á öfgahita, en vísindamenn frá Potsdam stofnuninni komust að þeirri niðurstöðu að það hafi orðið fimmföld meiri aukning í metmánuðum hnattrænt, en væri ef engin áhrif væru af mannavöldum (Coumou o.fl.2013). Sú niðurstaða er byggð á 131 ári mánaðarmeðaltala á yfir 12 þúsund mælistöðum víðs vegar um heim. Gögnin sýna einnig náttúrulegar sveiflur, líkt og hitamet El Nino ára, en niðurstaðan er sú að náttúrulegar sveiflur hafi ekki úrslitaáhrif á heildarfjölda meta.

    Breytingar á fjölda meta eftir tímaás (þunn rauð lína sýnir fjölda meta, þykka rauða línan fimm ára meðaltal). Spágildi líkansins sem þeir nota er sýnt með bláu (ljósblár skuggi er frávik). (Mynd PODSDAM)

    Samkvæmt rannsókninni þá má búast við að eftir 30 ár, þá verði mánaðarleg hitamet um 12 sinnum algengari en án aukningar í hnattrænum hita af mannavöldum.

    Hnatthitaspámeistarinn 2012

    Undanfarin ár höfum við notað áramótin til að spá fyrir um komandi hitafrávik og höfum við notað NASA GISS sem viðmiðun. Í fyrra voru bara þrír sem treystu sér í að spá fyrir um 2012. Árið 2011 hafði endað í +0,51 og einn spáði lítilsháttar kólnun árið 2012, einn lítilsháttar hlýnun og einn aðeins meiri hlýnun.

    Spáin fyrir 2012:

    Höskuldur Búi: +0,61°C +/- 0,02
    Sveinn Atli: +0,53°C +/- 0,02
    Emil Hannes: +0,48°C +/- 0,02

    Niðurstaðan árið 2012 var síðan hitafrávik upp á +0,56°C. Því er ljóst að enginn er með nákvæma tölu en einn er þó lygilega nálægt endanlegri niðurstöðu. Í þriðja sæti er Emil Hannes, en hann var -0,08°C fjarri lagi, í öðru sæti er Höskuldur Búi sem var +0,05°C frá endanlegri niðurstöðu en Sveinn Atli er engöngu -0,03°C frá hitafráviki ársins 2012.

    Sveinn Atli er því hér með krýndur sem hnatthitaspámeistari ársins 2012.

    Þess ber að geta að enginn af þeim sem spá mikilli hnattrænni kólnun (þvert á það sem vísindamenn segja) treysti sér til að taka þátt í spánni – en líklega hefði þannig spá ekki verið vænleg til árangurs.

    Horfur 2013?

    Sá sem þetta skrifar endar þessar áramótayfirlitsgreinar á því að fabúlera sjálfur um næsta ár og hvetja aðra til að taka þátt, enda er þetta einungis til skemmtunar og umræðu. Við munum áfram notast við NASA GISS hitaröðina.

    Nú hafa komið tvö ár í röð með köldum fingraförum La Nina á sér (þ.e. köld sveifla) en samt hefur hitastig haldist nokkuð hátt – því tel ég líklegt að á næsta ári verði hitastig hærra en undanfarin tvö ár. Í fyrra reiknaði ég með því að náttúrulega sveiflan í ENSO myndi færast yfir í hlutlausan fasa og því reiknaði ég með að sú sveifla myndi skila +0,05°C hærra fráviki. Ég held mig við það miðað við þetta ár.

    Mér finnst líklegt að sveiflur í sólinni verði litlar og skili sér í hvorki hlýnun né kólnun.

    Eins er með eldvirkni eins og í fyrra og hitteðfyrra:

    Óvíst er um eldvirkni, en líklega er best að reikna með því að áhrif eldgosa verði hverfandi á árinu, þá sérstaklega á hitaröð NASA GISS – en til þess að hafa teljandi áhrif, þá þyrfti á næstu vikum (eða mánuðum) að verða stórt sprengigos nálægt miðbaug Jarðar. Það verður að teljast ólíklegt en getur þó alveg gerst.

    Ég ætla áfram að veðja á að hlýnunin af völdum gróðurhúsalofttegunda sé um +0,03°C.

    Ef lagt er saman hitafrávik ársins 2012 (0,56°C), hlýnun jarðar vegna gróðurhúsalofttegunda (um það bil +0,03°C), sólvirkni (enigin hlýnun nú) og ENSO  (mögulega +0,05°C að þessu sinni), þá fæst um +0,64°C, en það yrði þriðja heitasta árið samkvæmt NASA GISS frá upphafi mælinga – en einungis árið 2005 (+0,65°C) og 2010 (+0,66°C) hafa hærri frávik. Það skal tekið fram eins og í fyrra að ef ENSO sveiflan fer á árinu upp í sterkan El Nino fasa, þá má búast við heitasta árinu frá upphafi mælinga – en hér er því samt ekki spáð.

    Við hvetjum hér með lesendur loftslag.is að spreyta sig í þessari skemmtilegu keppni – hver verður Hnatthitaspámeistari árið 2013?

    Heimildir og ítarefni

    Greinagerð NASA GISS um síðasta ár (Hansen o.fl. 2013): Global Temperature Update Through 2012

    Grein Potsdam sofnunarinnar um aukningu í öfgahita (Coumou o.fl. 2013):  Global increase in record-breaking monthly-mean temperatures

    Hitagögn NASA GISS má finna hér:  GISTemp

    Tengt efni á loftslag.is

  • Íslenskar “efasemdir” um hnatthlýnun af mannavöldum rækilega skjalfestar

    Íslenskar “efasemdir” um hnatthlýnun af mannavöldum rækilega skjalfestar

    Það er ekki óalgengt að fram séu settar “efasemdir” um loftslagsvísindin á opinberum vettvangi eins og til að mynda á vef- og fjölmiðlum hér á landi. Oft er það einhver misskilningur manna varðandi eitthvað sem sumir velja að kalla meint gróðurhúsaáhrif eða einhverjar aðrar ályktanir sem hafa lítið sem ekkert með raunveruleikann að gera. Það er þarft verk að skjalfesta opinberar yfirlýsingar varðandi þessi mál. Það getur vonandi haft það í för með sér að viðkomandi hugsi sig um varðandi þeirra eigin frjálslegu túlkanir á loftslagsfræðunum í framtíðinni.

    Mig langar að leggja út með tilvísunum í þrjá einstaklinga úr hinum títt umtöluðu bloggheimum. Sá fyrsti er góðkunningi okkar á loftslag.is, Ágúst H. Bjarnason. Hann á það til að draga upp einhver sérvalin gögn, til að reyna að draga upp mynd af meintri kólnun eða öðru sem virðist að óathuguðu máli geta dregið úr áhyggjum manna af manngerðum loftslagsbreytingum. Vinsælt hjá honum hefur verið að benda á það þegar smávægileg kólnun verður til skemmri tíma vegna náttúrulegs breytileika eða einhverjar skammtíma sveiflur í sjávarstöðunni. Það er erfitt að finna fullyrðingar hjá honum þar sem hann virðist oft ýja að einhverju, en þær finnast þó, eins og sjá má hér undir:

    Gott er til þess að hugsa til þess að um þessar mundir er ekkert sem bendir til þess að sjávarborð sé að rísa óvenju hratt, nema síður sé.

    [Heimild: Ágúst H. Bjarnason – Verkfræðingur og bloggari – Hækkun sjávarborðs; engar fréttir eru góðar fréttir…]

    Ágúst var reyndar svo vinsamlegur að vísa í færslu á loftslag.blog.is í athugasemdum (ekki var mögulegt fyrir ritstjórn loftslag.is að gera athugasemdir við þessa færslu hans), þar sem við ræddum aðferðafræði hans, sjá hér. Það er reyndar ekki alltaf auðvelt að finna beinar fullyrðingar eða ályktanir um fræðin hjá Ágústi, enda setur hann oft mikla varnagla á og setur hlutina oft upp í spurnarformi sem ruglar lesendur sem þurfa því stundum að álykta út frá hans orðum – og þær ályktanir geta svo sem farið um víðann völl. Ágúst hefur þó stundum notað eftirfarandi ályktun sína þegar um þetta er rætt…en allavega slær hann þarna mikinn varnagla á fræðin en útilokar í sjálfu sér ekkert:

    Helmingur [hita] hækkunarinnar gæti stafað af völdum náttúrulegra breytinga og helmingur vegna losunar manna á koltvísýringi.  Hugtakið “helmingur” er hér mjög loðið og gæti þýtt nánast hvað sem er.

    [Heimild: Ágúst H. Bjarnason – Verkfræðingur og bloggari  – Er hnatthlýnunin ógurlega bara hjóm eitt…?]

    Vinsamlega takið eftir varnaglanum, orðalaginu og spurningamerkinu í yfirskriftinni hjá Ágústi… Annars er fátt sem styður þessa fullyrðingu, þar sem gögn styðja ekki svona ályktanir nema síður sé. Hér undir er svo enn ein spurningamerkjafyllt “ályktun” um þessi mál – lesendum sem “efuðust” um fræðin var svo góðfúslega gefið leyfi til að koma með áskanir á hendur Al Gore, umhverfisráðherra og fleiri, ásamt fullyrðingum um trúarbrögð, skattpíningar og fleira sem nefnt var til sögunnar án athugasemda frá Ágústi – en hann vandaði sig þó við að gera athugasemdir við gagnrýnar og málefnalegar athugasemdir ritstjórnar loftslag.is, sem endaði svo með lokun fyrir athugasemdir þegar hann var kominn á endastöð frekari umræðu – en allavega hér er tilvitnunin í Ágúst:

    Hvað varð eiginlega um þessa hnatthlýnun sem allir voru að tala um…?   Nú dámar mér alveg…   Engin hnatthlýnun í 11 ár…?

    [Heimild: Ágúst H. Bjarnason – Verkfræðingur og bloggari  – BBC spyr: Hvað varð um hnatthlýnunina?]

    Sérval gagna hefur stundum leitt til svona fullyrðinga um enga hnatthlýnun í 5/11/16 ár eða hvað það nú er í hvert og eitt skiptið, sjá til að mynda athyglisvert graf hér undir með “efasemda” rúllustiganum.

    Munurinn á því hvernig "efasemdamenn" og raunsæismenn um hnattræna hlýnun af mannavöldum sjá núverandi hækkun hitastigs

    Sá næsti sem fær heiðurinn af því að verða rækilega skjalfestur hér á loftslag.is er hæstaréttarlögmaðurinn, Jón Magnússon, sem virðist hafa sterka ályktanaþörf þegar kemur að þessum efnum. Í kjölfar þess að Met-Office uppfærði nýlega spár um hnattrænana hita næstu fimm árin, þá fannst Jóni tilvalið að koma með eftirfarandi fullyrðingar:

    Þetta þýðir að öll tölvumódel og spár vísindamannanna sem hafa spáð afturkallanlegri hlýnun af mannavöldum og óbætanlegar skemmdir á jörðinni og vistkerfinu vegna útblásturs koltvíoxýðs hafa sem betur fer reynst rangar.

    [..]

    Ævintýrið um hnattræna hlýnun af mannavöldum er dýrasta ævintýrið sem mannkynið hefur nokkurn tíma látið sér detta í hug að trúa á.

    [Heimild: Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokks – Breska veðurstofan endurskoðar spár um hnattræna hlýnun.]

    Jahérna hér, þetta eru merkilegar fullyrðingar (úti er ævintýri – bara öll módelin ónýt…hvurslags er þetta…). En þetta er náttúrulega einhver óskhyggja í fyrrverandi þingmanninum, sem ekki fær staðist, eins og kemur t.a.m. fram í eftirfarandi umfjöllun á loftslag.is – Mistúlkanir á 5 ára spá Met Office og náttúrulegur breytileiki

    Að lokum er svo einn af mínum uppáhalds “efasemdamönnum”, enda merkilega berorður um vísindamenn af öllum sortum – hans uppáhald eru reyndar fiskifræðingar og fullyrðingar um þá, en fast á hæla þeim koma svo fullyrðingar hans um loftslagsvísindi og loftslagsvísindamenn – eins og lesa má í eftirfarandi tilvitnun hans:

    Blekkingin um “hlýnun andrúmsloftsins” hefur breyst í kuldamartröð í vetur í Evrópu og USA.

    Veðurguðirninr  virtust móðgast stórlega við loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn og virðast hafa tekið ákvörðun um að  “kæla niður” bullið  um óðelilega hlýnun loftslags – í Evrópu og Ameríku frá því ráðstefnunni lauk með góðu kuldakasti.

    Heimsendaspár um “hækkun á yfirborði sjávar” virðist líka hafa verið “vitlaust reiknað”.. og varla kemur það á óvart… enda skylt skeggið hökunni í blekkingarleiknum….

    [..]

    Það er ágætt ef eitthvað af þessum “vísindahórum”  fara loksins draga í land með  eitthvað af platinu og blekkingunum – en betur má ef duga skal.

    [Heimild: Kristinn Pétursson – fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bloggari og áhugmaður um vandaða þjóðmálaumræðu – Blekkingaleikurinn á undanhaldi í vísindaheiminum?]

    Þarna fer Kristinn Pétursson, sem eldur í sinu í umræðu um loftslagsmál með berorðar fullyrðingar um heila vísindagrein, sem eiga lítið skilt við vandaða þjóðmálaumræðu og þaðan að síður við þær staðreyndir sem blasa við varðandi loftslagsvandann. Ásakanir um heimsendaspár heyrast oft á tíðum þegar “efasemdamenn” ræða um þessi mál, hvað sem veldur…

    Fullyrðingar í þessum dúr sjáum við stundum í hinum títtnefndu og á stundum logandi bloggheimum, svo og í öðrum fjölmiðlum. Að mínu persónulega mati, þá valda svona fullyrðingar ruglingi í umræðunni (sem er hugsanlega ætlunin í sjálfu sér). Það að einhverjir leyfi sér að fullyrða svona án haldbærra gagna stenst að sjálfsögðu engan vegin skoðun. Það er mín ósk að í athugasemdir við þessa færslu verði settar aðrar skjalfestar heimildir um ályktanaglaða “efasemdamenn” á Íslandi og orðaval þeirra. Vinsamlega vísið í orð viðkomandi með heimild/tengli þar sem finna má samhengið, líkt og hér að ofan. Sjálfur mun ég reyna að safna saman einhverjum vel völdum tilvísunum í athugasemdum hér undir, bæði nýjum og gömlum. Það væri fróðlegt að sjá hverju hefur verið haldið fram varðandi þessi mál í gegnum tíðina, af hverjum og í hvaða samhengi.

    Ýmistlegt efni af loftslag.is sem gott er að hafa í bakhöndinni þegar þessi mál eru skoðuð:

  • Mistúlkanir á 5 ára spá Met Office og náttúrulegur breytileiki

    Mistúlkanir á 5 ára spá Met Office og náttúrulegur breytileiki

    Nýlega birtust mistúlkanir á erlendum vefmiðlum, sem hafa fengið að bergmála lítillega hér á landi.

    Þessar mistúlkanir byrjuðu á því að Breska Veðurstofan (Met Office) gaf út nýja spá um hnattrænan hita næstu 5 árin (mynd 1).

    Mynd 1: Mælt hnattrænt hitafrávik (svart, frá Hadley Centre, GISS og NCDC) ásamt spá um hitafrávik samanborið við tímabilið 1971-2000. Fyrri spár frá 1960, 1965, …, 2005 eru sýndar sem hvítar línur með rauðum skugga sem sýnir hvar 90% líkur er á að mæld gildi falli. Nýjasta spáin (blátt) byrjar í nóvember 2012.

    Í þessari spá er gert ráð fyrir minni ákafa í hlýnunni á næstu árum en spáð hefur verið undanfarið. Sem dæmi þá var spáin ögn hærri sem gefin var út í desember 2011. Breska Veðurstofan bendir á að samkvæmt báðum spám megi búast við hitastig sem verði nálægt því að slá met á næstu árum, hins vegar er munurinn á milli þessara spáa aukin þekking á staðbundnum sveiflum í yfirborðshita sjávar, á nokkrum stöðum m.a. í Kyrrahafinu, þótt aðrir þættir spili inn í.

    Í kjölfarið birtust yfirlýsingar  og umfjallanir í bresku pressunni, um að Breska veðurstofan væri búin að “viðurkenna” að hin hnattræna hlýnun af mannavöldum væri hætt. Þær umfjallanir höfðu að engu eitt aðalatriðið í spánni, en þar stóð (lauslega þýtt):

    “Spá þessi er um áframhaldandi hnattræna hlýnun, sem er að mestu leiti knúin áfram af styrkaukningu á gróðurhúsalofttegundum”

    Breska veðurstofan gerir því ráð fyrir því að þeir náttúrulegu þættir sem dempað hafa yfirborðshlýnun jarðar síðastliðin áratug (La Nina fasi ENSO og minni virkni sólar sem dæmi), geti haldið áfram að dempa hnattræna hlýnun næstu fimm árin. Þrátt fyrir dempun á hinni hnattrænu hlýnun vegna náttúrulegs breytileika, þá leikur enginn vafi á því að áframhaldandi hlýnun af mannavöldum á sér stað.

    Nú nýlega bjuggu snillingarnir í Skeptical Science til gott myndband þar sem útskýrt er glögglega hvaða áhrif eldvirkni (og sólvirkni) og sveiflur í La Nina/El Nino (ENSO) hefur á hnattrænt hitastig jarðar og hvað gerist ef þessi áhrif eru fjarlægð:

    Eins og sést á þessu myndbandi, þá bendir ekkert til þess að hnattræn hlýnun af mannavöldum hafi hægt á sér, þó náttúrulegir þættir hafi undanfarin ár náð að dempa hlýnunina. Þegar sú dempun gengur til baka er næsta víst að við taka óvenjuheit ár.

    Heimildir og ítarefni

    Þýtt og staðfært af heimasíðunni Skeptical Science: Resolving Confusion Over the Met Office Statement and Continued Global Warming

    Spá Met Office má lesa hér: Decadal forecast og nánari útskýring Updates to our decadal forecast

    Tengt efni á loftslag.is

  • Formaður VG snýst gegn meginmarkmiðum umhverfisverndar

    Formaður VG snýst gegn meginmarkmiðum umhverfisverndar

    Í aðdraganda loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna í Doha í lok síðasta árs kom fram að meðal iðnríkja hafði losun gróðurhúsalofttegunda aukist mest í Noregi eða um 38% s.l. 20 ár. Nú hyggst hinn vinstri-græni atvinnu- og nýsköpunarráðherra Íslands, Steingrímur J. Sigfússon, taka Noreg sér til fyrirmyndar. Við Morgunblaðið í dag segir hann, að „Þetta eru talsverð tímamót,“ og fagnaði aðkomu norskra að olíuleit á Drekasvæðinu.

    Steingrímur J. Sigfússon virðist – eða þykist vera – ómeðvitaður um þá niðurstöðu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (International Energy Agency) að þegar hefur fundist meiri olía en unnt verður að brenna ef takast á að ná því markmiði alþjóðasamfélagsins – og ríkisstjórnar Íslands – að halda hlýnun andrúmslofts jarðar innan vð 2°C að meðaltali. Alþjóðaorkumálastofnunin telur einsýnt að 2/3 jarðefnaeldsneytis verði að liggja ónýtt í jörðu til að takast megi að nokkur möguleiki sé á að ná þessu markmiði.

    No more than one-third of proven reserves of fossil fuels can be consumed prior to 2050 if the world is to achieve the 2 °C goal, unless carbon capture and storage (CCS) technology is widely deployed.

    This finding is based on our assessment of global “carbon reserves”, measured as the potential CO2 emissions from proven fossil-fuel reserves. Almost two-thirds of these carbon reserves are related to coal, 22% to oil and 15% to gas. Geographically, two-thirds are held by North America, the Middle East, China and Russia. 

    Tal Steingríms J. Sigfússonar um varfærni og virðingu gagnvart umhverfinu ber vott um tvískinnung. Formaður Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs hlýtur að vita að aukin vinnsla jarðefnaeldsneytis mun ekki einungis hafa í för með sér hættur fyrir viðkvæmt umhverfis norðurslóða heldur einnig torvelda mannkyni enn frekar það erfiða verkefni að koma í veg fyrir óafturkræfar loftslagsbreytingar.

    Náttúruverndarsamtök Íslands harma að formaður Vinstri grænna hafi ekki til bera hugrekki og siðferðisþrek til að fylgja þeirri loftslagsstefnu sem Ísland hefur markað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

    —–

    Til frekari upplýsingar:

    Í grein sem birtist í norska Dagbladet þann 29. september dregur yfirmaður Olíustofnunar Noregs (Norges Oljedirektorat) mjög í efa að unnt verði að nýta olíu á Drekasvæðinu.

    Bent er á að ferð norska olíumálaráðherrans til Íslands þá hafi helst verið “en politisk markering av norske interesser, snarere enn starten på et nytt norsk oljeeventyr.

    Þar segir ennfremur
    Troen på store og driveverdige olje- og gassfunn i Nordishavet utenfor Jan Mayen er så liten at Islands tildeling av letetillatelser i området avfeies av flere oljetopper som en «forhastet» eller «desperat» handling, for å tilføre landet kapital i kjølvannet av finanskrisen.