Loftslag.is

Month: May 2013

  • Útbreiðsla fiskitegunda breytist við hlýnun sjávar

    Útbreiðsla fiskitegunda breytist við hlýnun sjávar

    Fiskitegundir eru að breyta útbreiðslu sína um úthöfin, vegna hlýnunar sjávar.  Áframhaldandi hlýnun getur haft neikvæð efnahagsleg áhrif, samkvæmt nýrri rannsókn.

    Rannsóknin sem birtist í Nature (Cheung o.fl. 2013), notast við einskonar  úrvalsvísitölu (e. novel index) sem   fiskihitamælir. Með henni er hægt að finna vísbendingar um búferlaflutinga út frá aflatölum veiðiskipa. Í ljós kom töluverð færsla fiskitegunda milli búsvæða, sem var í góðum takti við loftslagsbreytingar.

    Hver fiskitegund hefur sitt ákveðna bil kjörhitastigs. Ef hitastig sjávar á ákveðnu svæði færist frá því bili, þá dregur úr vexti og æxlun misferst, sem smám saman fækkar einstaklingum tegundarinnar á því svæði og breytir smám saman útbreiðslu fiskitegundanna.

    Yfirborðshitafrávik ársins 2012, á Norður-Atlantshafi, frá meðalhita  síðastliðin 100 ár. Mynd: Northeast Fisheries Science Center.
    Yfirborðshitafrávik ársins 2012, á Norður-Atlantshafi, frá meðalhita síðastliðin 100 ár.
    Mynd: Northeast Fisheries Science Center.

    Við auknar loftslagsbreytingar, vegna losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum, þá má búast við hraðari búferlaflutningum og illskeyttari deilum vegna færslu fiskistofna milli landhelga. Sem dæmi um stofna sem hafa færst til er þorskur, lýsingur, humar og sardínur út af Nova Scotia, þar sem stofn þeirra hverfur syðst af fyrrum kjörsvæðum tegundanna við færsluna norður. Í íslensku samhengi er skemmst að minnast makríls sem er orðinn ansi áberandi í íslenskri landhelgi.

    Með því að skoða aflatölur undanfarin 40 ár, úr 52 stórum sjávarvistkerfum, var hægt að reikna fyrrnefnda vísitölu, sem vísar í meðalsjávarhita veiða hverrar tegundar. Þegar búið var að taka með í reikninginn breytingar á veiðiaðferðum og sjávardýpi, þá fundu Cheung og félagar tölfræðilega marktæka tengingu milli breytinga í veiðihita og aukningu í yfirborðshita sjávar.

    Hitabeltið er sérstaklega viðkvæmt fyrir breytingum á hitastigi, þá vegna þess hversu lítið bil kjörhitastigs er hjá þeim tegundum sem lifa þar, sem þá flýja fljótt á hærri breiddargráður (til norðurs eða suðurs). Þar koma þá engar nýjar tegundir inn til mótvægis við þær tegundir sem flýja hitann.

    Á hærri breiddargráðum eykst að sama skapi fjöldi hlýsjávartegunda á kostnað kaldsjávartegunda, sem flýja til hærri breiddargráða.

    Heimildir og ítarefni:

    Greinin í Nature, eftir Cheung o.fl. 2013 (ágrip): Signature of ocean warming in global fisheries catch
    Grein Nye o.fl. 2009 (ágrip): Changing spatial distribution of fish stocks in relation to climate and population size on the Northeast United States continental shelf
    Umfjöllun á Climate Central: As Oceans Warm, Fish Are Finding New ZIP Codes

    Tengt efni á loftslag.is

  • Loftslagsbreytingar, án tölvulíkana og IPCC

    Loftslagsbreytingar, án tölvulíkana og IPCC

    Hér má sjá nýjasta myndband Peter Hadfield (Potholer54), en þar sýnir hann ljóslega fram á að hægt er að sýna fram á loftslagsbreytingar af mannavöldum án þess að notast  við loftslagslíkön eða IPCC (án þess þó að gera lítið úr þeim til að skerpa heildarmyndina).

    Tengt efni á loftslag.is

     

  • 400

    400

    Það hefur legið í loftinu í þó nokkurn tíma að 400 ppm CO2 gildið í andrúmsloftinu myndi falla á hinni víðfrægu Mauna Loa mælistöð á Havaí. Það hefur nú gerst og mældist styrkur CO2 yfir 400 ppm á stöðinni á Havaí. Það er ekki talið að gildi CO2 hafi verið svona hátt í allavega 800 þúsund ár, jafnvel allt að 15 milljón ár. Fyrir iðnbyltinguna var meðalgildi CO2 í andrúmsloftinu um 280 ppm og hafði þá sveiflast á bilinu 180 ppm til 280 ppm síðastliðin 800 þúsund ár, sjá mynd.

    5_10_13_news_andrew_co2graphic-600x338

    Það er ekki til algilt svar um það hvenær styrkur CO2 í andrúmsloftinu var síðast svona hár, en rannsóknir sýna að það gæti verið á bilinu 800 þúsund til 15 milljón ár síðan þetta gerðist síðast. Talið er líklegt að þetta gæti hafa gerst á Plíosen tímabilinu, fyrir um 2 til 4,6 milljónum ára. Þess má geta að siðmenning nútímamannsins byrjaði fyrir um 12 þúsund árum síðan – þannig að gildi CO2 hefur ekki verið hærra í sögu mannkyns. Nýlegar rannsóknir sýna að það gæti verið enn lengra síðan gildi CO2 fór hærra, eða um 10-15 milljónir ára.

    Um miðja öldina gæti styrkur CO2 verið orðin um 450 ppm, fer eftir því hvernig þróun losunar verður.

    Heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Bill McKibben, 350.org og loftslagsbreytingar

    Bill McKibben, 350.org og loftslagsbreytingar

    bill_mckibbenEinn áhrifamesti fyrirlesari um loftslagsbreytingar, Bill McKibben heldur opinn fyrirlestur í boði Landverndar, Norræna hússins og námsbrautar í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ. Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni “Frá vitund til verka” um hugarfarsbreytingu í umhverfismálum og fer fram í Háskólabíó, SAL 1, sunnudaginn 5. maí kl. 12:30. Ef þið hafið möguleika, vinsamlega skráið ykkur á Facebook viðburð sem hefur verið stofnaður um fyrirlesturinn – en annars bara mæta, þetta er opinn viðburður.

    Bill McKibben er höfundur fjölda bóka um umhverfismál og einn stofnenda hinnar alþjóðlegu grasrótarhreyfingar 350.org, sem berst fyrir því að verja Jörðina fyrir hlýnun andrúmslofts. Samtökin hafa samhæft um 15 þúsund fjöldafundi í 189 löndum síðan 2009.

    Bill McKibben er höfundur bókarinnar „The End of Nature“ sem var ein fyrsta bók fyrir almenning um loftslagsbreytingar. McKibben skrifar í fjölmörg tímarit, m.a. The New York Times, The Atlantic Monthly, Rolling Stone og Outside. Hann kemur fram út um allan heim og er afar vinsæll og áhrifamikill fyrirlesari. Time Magazine hefur útnefnt hann sem „The planet’s best green journalist“ og árið 2010 skrifaði Boston Globe að hann væri „probably the country’s [US] most important environmentalist“.

    Hér að neðan eru linkar á upplýsingar um McKibben og um 350.org.