Loftslag.is

Month: June 2013

  • Leyndardómur sífrerans

    Leyndardómur sífrerans

    Ný sérhönnuð flugvél á vegum NASA, flýgur þessi misserin hægt og lágt yfir landsvæði Alaska norðan heimskautsbaugar. Hér er um að ræða vél sem notuð er í verkefni sem kallað er Carbon in Arctic Reservoirs Vulnerability Experiment (CARVE), en það er fimm ára rannsókn sem á að varpa ljósi á hvernig loftslagsbreytingar hafa áhrif á kolefnishringrás norðurslóða.

    Í vélinni eru nemar sem greina losun á gróðurhúsalofttegundunum CO2 og metangasi úr þiðnandi sífrera.

    Svæði með sífrera ná yfir nærri einn fjórða af meginlöndum norðurhvels jarðar. Verkefnið CARVE (Carbon in Arctic Reservoirs Vulnerability Experiment) sem er á vegum NASA skoðar sífrera norðan við heimskautsbaug í Alaska til að kanna losun á CO2 og methani úr þiðnandi sífrera.Mynd: Hugo Ahlenius, UNEP/GRID-Arendal
    Svæði með sífrera ná yfir nærri einn fjórða af meginlöndum norðurhvels jarðar. Verkefnið CARVE (Carbon in Arctic Reservoirs Vulnerability Experiment) sem er á vegum NASA skoðar sífrera norðan við heimskautsbaug í Alaska til að kanna losun  á CO2 og metani úr þiðnandi sífrera.Mynd: Hugo Ahlenius, UNEP/GRID-Arendal

    Neðanjarðar

    Sífreri, frosinn jarðvegur, er víða neðanjarðar á norðurskautinu. Á hverju sumri þá þiðnar efsti hluti jarðvegsins, mismikið þó. Þar sem er hvað kaldast þiðnar einungis tæplega 10 sentimetra lag, en þiðnunin getur verið nokkrir metrar á hlýrri svæðum. Í þessu efsta lagi jarðvegsins, lifa plöntur norðurskautsins. Hið kalda og blauta loftslag norðurskautsins kemur í veg fyrir að plöntur og dýr nái að rotna, þannig að á hverju ári þá bætist í sarpinn lífrænt kolefni, sem svo sekkur niður í sífrerann.

    Þýdd skematísk mynd úr grein Schaeffer o.fl. 2011 sem sýnir magnandi svörun við bráðnun sífrera.
    Þýdd skematísk mynd úr grein Schaeffer o.fl. 2011 sem sýnir magnandi svörun við bráðnun sífrera.

    Á nokkrum hundruðum þúsunda, jafnvel milljónum ára , hefur jarðvegur sífrera norðurskautsins, safnað miklu magni af lífrænum kolefnum – sem metið er að sé á milli 1.400-1850 petagrömm (petagramm er einn milljarður tonna). Það er um það bil helmingur alls lífræns kolefnis sem jarðvegur jarðarinnar geymir. Til samanburðar þá hafa um 350 petagrömm af kolefni verið losuð við bruna jarðefnaeldsneytis frá 1850.  Mikill hluti þessa lífræna kolefnis er í efstu þremur metrunum sem er hvað viðkvæmastur fyrir þiðnun.

    Talið er að forskeytið sí í sífrera fari brátt að heyra sögunni til – en norðurskautið og þar með jarðvegur sífrerans er að hlýna hraðar en önnur svæði jarðar. Hlýnunin sem nær smám saman dýpra og dýpra, gerir þessar kolefnisbirgðir óstöðugar og getur losað þær út í andrúmsloftið í formi CO2 og metangass og þar með aukið á gróðurhúsaáhrifin og hlýnun.

    Núverandi loftslagslíkön ná ekki fullkomlega að herma hvernig loftslagsbreytingar hafa áhrif á sífrera, né þá hvernig sífrerinn muni hafa áhrif á staðbundið og hnattrænt loftslag. Því er mikilvægt að reyna að mæla breytingar þær sem nú eru að gerast til að hægt sé að áætla meir um framtíðina.

    Með fyrrnefndu verkefni, CARVE, sem nú er á sínu þriðja ári er einmitt verið að auka þekkingu og skilning á því hvernig vatns- og kolefnishringrás norðurskautsins tengist loftslagi. Hingað til hefur vitneskja okkar um hvernig sífrerinn bregst við hlýnuninni, verið takmörkuð.

    Í flugvélinni eru háþróuð tæki sem “lykta” af andrúmsloftinu í leit sinni að gróðurhúsalofttegundum. Einnig eru nákvæmar litrófsmyndavélar sem greina hvernig sólarljós endurkastast frá yfirborði jarðar og mælir þannig styrk CO2, metans og CO í andrúmsloftinu. Þær mælingar eru kvarðaðar með mælingum við jörðu á nokkrum lykilstöðum. Á þessum lykilstöðum eru tekin loftsýni auk mælinga á raka í jarðvegi og hitastigi, til að ákvarða hvort jarðvegurinn er frosinn, þiðinn eða vatnssósa.

    Ekki eru allar gróðurhúsalofttegundir jafnar

    Svarthvít mynd tekin með Gambit gervihnettinum árið 1966 (vinstri) sýnir sífrera með stökum runnum, en mynd tekin árið 2009 (hægri) sýnir mun þéttvaxnari runna.Myndir frá U.S. Geological Survey.
    Svarthvít mynd tekin með Gambit gervihnettinum árið 1966 (vinstri) sýnir sífrera með stökum runnum, en mynd tekin árið 2009 (hægri) sýnir mun þéttvaxnari runna.Myndir frá U.S. Geological Survey.

    Það er mikilvægt að flokka jarðveginn og hver staðan er í yfirborðinu. Það er fylgni milli jarðvegsgerða og hvernig hann losar CO2 og metan. Jarðvegur norðurskautsins hefur í gegnum tíðina bundið meira af kolefni en hann hefur losað. Ef loftslagsbreytingar gera norðurskautið heitt og þurrt, þá búast vísindamenn við að þau muni losa kolefni í formi CO2. Hins vegar ef það hlýnar og verður að auki blautara, þá muni losunin verða að mestu leyti metan.

    Munurinn þar á milli er mikill. Ef borið er saman, sami fjöldi mólikúla af CO2 og metani, þá er metan 22 sinnum áhrifameiri gróðurhúsalofttegund en CO2 á 100 árum – en 105 sinnum áhrifameiri ef tekið er 20 ára tímabil. Því er mikilvægt að vita í hvaða magni metan og CO2 losna úr sífreranum. Aðrir mikilvægir þættir sem rannsakaðir eru og hafa áhrif á losun sífrerans, er t.d. tímasetning vorleysinga og lengd þess tímabils sem gróður vex – en það eru þættir sem hafa áhrif á hvort ákvæðin svæði losa eða binda kolefni.

    Fyrstu niðurstöður

    Niðurstöður streyma inn og segja vísindamenn að nú þegar sé ljóst að losunin á metani og CO2 er önnur en líkanareikningar gerðu ráð fyrir. Á stórum svæðum í miðhluta og norður Alaska var meira útstreymi á CO2 og metani úr jarðveginum, en venjulegt getur talist. Sem dæmi var mikið streymi á metani úr mýrum Innoko víðáttunnar og urðu mæligildin á tímabili um 650 ppb hærri en bakgrunnsgildin.

    Líklega munu áframhaldandi rannsóknir á sífreranum auka skilning okkar á því hvort einhvern  vendipunkt (e. tipping point) er að finna í sífreranum, þ.e. hvort hætt sé við að hlýnunin verði það mikil að ekki verði aftur snúið og að sífrerinn taki til við að auka á gróðurhúsaáhrifin óháð okkur mönnunum.

    Víða streymir metan

    Metan sreymir víða úr jarðlögum, meðal annars frá landbúnaði og nú nýlega hefur orðið vart við mikið uppstreymi af sjávarbotni norður af Síberíu (frétt á RÚV). Styrkur metans í andrúmsloftinu hefur verið að aukast jafnt og þétt og er nú orðinn 1800 ppb (parts per billion) en fyrir iðnbyltinguna var styrkur þess í kringum 700 ppb.  Eins og kemur fram í fréttinni um uppstreymið norður af Síberíu, þá er talið að fyrir um 55 milljónum ára (PETM – Paleocene Eocene Thermal Maximum) hafi orðið mikið streymi metans úr metangeymum jarðar. Sá atburður jók hitann um nokkrar gráður, auk þess sem mikill fjöldaútdauði varð hjá sjávarlífverum, vegna súrnunar sjávar (sem var vegna auksins CO2 í andrúmsloftinu). Þó sá atburður hafi verið hraður þá er talið að nú séu úthöfin að súrna 10 sinnum hraðar.

    Hvort og hvenær streymi metans úr sífrera á landi eða hafsbotni fer að nálgast hættuleg mörk eru upplýsingar sem við höfum varla efni á að bíða eftir – svo alvarlegt er það ef farið verður yfir þá vendipunkta. En víst er að á meðan þjóðir heims ströggla við að finna lausnir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þá styttist óhjákvæmilega í þá vendipunkta.

    Heimildir og ítarefni

    Þessi færsla er að hluta unnin upp úr heimasíðu NASA Jet Propulsion Laboratory: Is a Sleeping Climate Giant Stirring in the Arctic?

    Heimasíða CARVE

    Schaefer o.fl. 2011  í tímaritinu Tellus: Amount and timing of permafrost carbon release in response to climate warming

    Tengt efni á loftslag.is

  • Stefna eða stefnuleysi nýrrar ríkisstjórnar varðandi loftslagsmál

    Stefna eða stefnuleysi nýrrar ríkisstjórnar varðandi loftslagsmál

    althingishusMikið hefur verið rætt um umhverfismálin og stefnu nýrrar ríkisstjórnar í þeim efnum að undanförnu. Vangaveltur um það hvort að umhverfisráðuneytið fái að lifa eður ei hafa verið áberandi og erfitt er að greina hver stefnan er í þeim efnum enn sem komið er. Það er alveg þess virði að prófa að rýna á málefnalegan hátt í þá stefnu sem stjórnvöld virðast ætla að marka þegar skoðaðar eru ýmsar opinberar yfirlýsingar og gögn um loftslagsmálin.

    Varðandi loftslagmálin, þá eru nokkur atriði sem hafa komið fram, til að mynda sagði háttsettur forsætisráðherra í stefnuræðu sinni:

    Umhverfisvernd og barátta gegn loftslagsbreytingum er eitt af helstu sameiginlegu viðfangsefnum heimsbyggðarinnar.

    Þar getur Ísland lagt mikið af mörkum og gert betur.

    Aukin uppbygging og endurheimt gróður- og jarðvegsauðlinda og efling skógræktar og landgræðslu mun auka kolefnisbindingu. Mikilvægt er að skipuleggja þær aðgerðir vel og stuðla um leið að nýtingu innlendra vistvænna orkugjafa.

    Svona yfirlýsingum er varla hægt annað en að vera sammála, þó manni geti í raun fundist að það þurfi að ganga lengra í varðandi það að minnka losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. En þó er ljóst að Sigmundur Davíð veit að loftslagsbreytingar [af mannavöldum] eiga sér stað og vill í orði berjast gegn þeim – sem er jákvætt. Í öðrum hluta stefnuræðunnar skoðar hann hin meintu tækifæri varðandi loftslagsbreytingar í framtíðinni:

    Mikilvægi matvælaframleiðslu á norðurslóðum mun aukast umtalsvert  í framtíðinni. Þar eiga Íslendingar ónýtt tækifæri, til dæmis með nýsköpun í landnýtingu, auknu fiskeldi og ylrækt.

    Sífellt vaxandi eftirspurn eftir mat í heiminum mun skapa íslenskum landbúnaði ótal sóknarfæri.

    Framleiðsluaukning í landbúnaði getur bæði minnkað gjaldeyrisþörf vegna innflutnings matvæla og gefið aukin tækifæri til útflutnings ef unnið verður kröftuglega að markaðssetningu íslenskra afurða erlendis á næstu árum og áratugum.

    [..]

    Þar þurfum við meðal annars að horfa til aukinnar  áherslu á samstarf við aðrar þjóðir varðandi  nýtingu nýrra tækifæra sem tengjast breyttu loftslagi, nýjum auðlindum og breyttum aðstæðum í heiminum á næstu áratugum.

    Ísland þarf að leggja áherslu á að vera í fararbroddi í norðurslóðasamstarfi,  með tilliti til nýtingar auðlinda á svæðinu, umhverfisverndar og opnunar nýrra siglingaleiða um norðurhöf.

    Ný tækifæri, eins og t.a.m. opnun siglingaleiða, aukin landbúnaðarframleiðsla og nýting auðlinda virðast vera aðal áhersluefnin. Þetta virðist ríma vel við stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, þar sem segir meðal annars í kaflanum um landbúnað að þar séu ýmis tækifæri (sem væntanlega má m.a. rekja til breytinga í loftslagi eins og Sigmundur kemur inná í stefnuræðu sinni):

    Vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapar íslenskum landbúnaði sóknarfæri með möguleikum á aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum. Ríkisstjórnin mun gera íslenskum landbúnaði kleift að nýta þau sóknarfæri sem greinin stendur frammi fyrir.

    [..]

    Til að bregðast við aukinni eftirspurn eftir matvælum og hækkandi verðlagi verður skipaður starfshópur til að móta tillögur um hvernig auka megi matvælaframleiðslu á Íslandi og tryggja að ávinningur af aukinni eftirspurn og sókn á nýja markaði skili sér í bættum kjörum bænda.

    Starfshópur mun fara yfir og móta tillögur byggðar á þeim tækifærum sem virðast gerðar væntingar til á næstu áratugum. Það er í sjálfu sér gott að vita hvað leynist í framtíðinni, svo langt sem það nær og það leynast alltaf einhver tækifæri í því að hafa sem bestar upplýsingar um stöðu mála hverju sinni. Ef maður skoðar ályktanir flokksþings Framsóknarmanna [PDF], þá virðist ljóst að þessi tækifæri íslensk landbúnaðar séu vegna breytinga í loftslagi:

    Með hlýnandi loftslagi skapast ný og spennandi sóknarfæri. Aukin akuryrkja, nytjaskógrækt  og fjölbreyttari innlend matvælaframleiðsla er hluti af því að efla íslenskan landbúnað.

    “Spennandi sóknarfæri” eru því í pípunum þegar hlýnun jarðar er skoðuð út frá ályktunum flokksþings Framsóknarmanna. Það er kannski þess vegna sem að í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er stefnt að því að:

    Ríkisstjórnin mun eins og kostur er stuðla að því að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda geti hafist sem fyrst, finnist þær í vinnanlegu magni.

    Ef það má notast við líkingu varðandi eldvarnir, það á s.s. að stefna að því í orði að koma eldvörnunum upp, en á sama tíma hella bensíni á eldsmatinn og svo vonast eftir “spennandi sóknarfær[um]” í framhaldinu. Þetta rímar ekki vel við þá stefnu að berjast gegn loftslagsbreytingum, eins og háttvirtur forsætisráðherra boðaði í stefnuræðu sinni.

    Varðandi hin “spennandi sóknarfæri” í landbúnaði í hlýnandi heimi, þá er kannski ekki auðvelt að spá um hvað gerist staðbundið. Hér á Íslandi gætu válynd veður með kali í túnum eins og hafa átt sér stað víða um norðanvert landið í vetur sett strik í reikning hinna “spennandi sóknarfær[a]”. Það er því kannski fullmikil einföldun að fullyrða að hlýnandi loftslag innihaldi endilega “spennandi sóknarfæri”. Breytingar í loftslagi geta líka haft í för með sér neikvæðar breytingar sem erfitt getur verið að bregðast við. Það virðist vera í eðli stjórnmála að einblína á hlutina frá þeirri hlið sem kemur betur út fyrir stjórnmálin sjálf og forðast vandamál sem stjórnmálamönnum hugnast ekki að ræða og/eða almenningur vill ekki hugsa um. Þ.a.l. verður kannski seint reynt að skoða þessi mál með opnum huga á hinu háa Alþingi. Það virðist aðeins eiga að skoða hin “spennandi sóknarfæri” og sleppa neikvæðum hlutum eins og hvaða áhrif loftlagsbreytingar af mannavöldum geta í raun haft og á sama tíma á að stefna að því að stjórnvöld helli bensíni á eldsmatinn með stjórnvalds aðgerðum sem eiga að “stuðla að [..] nýting[u] hugsanlegra olíu- og gasauðlinda”.

    Það er mjög varhugavert að draga línuna á þann hátt að skoða aðeins aðra hlið málsins (og láta líka líta út fyrir að sú hlið sé full af “spennandi sóknarfær[um]”) en sleppa þeim vandamálum sem finna má þegar aðrar hliðar málsins eru skoðaðar. Það er væntanlega vandkvæðum bundið að alhæfa einhliða um aukna landbúnaðarframleiðslu og “spennandi sóknarfæri” þegar óvíst er hvað mun gerast í framtíðinni við hærra hitastig og meiri öfga í veðri. Öfgar í veðurfari eru ekki endilega líklegir til að búa til “spennandi sóknarfæri” í landbúnaði, þó ekki sé hægt að útiloka það staðbundið eða á tímabilum þegar öfgar eru minni. Það er líka ákveðið vandamál fyrir fiskveiðiþjóð eins og Ísland að heimshöfin súrni vegna losunar mannkyns á koldíoxíð. Það er vandamál sem gæti kippt stoðum undan fiskveiðum landsins til framtíðar – en stjórnmálamenn velja frekar að einblína á “spennandi sóknarfæri” sem í þeirra augum hljóta að vera framundan og eiga að styðja við hagvöxt og velsæld í landinu til frambúðar. Það getur vel verið að það séu tækifæri í stöðunni, en það má ekki útiloka umræðu um neikvæðar hliðar málsins eða mögulegar lausnir til frambúðar með fókus á minni losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda, lausnir sem ekki innihalda og ýta undir enn frekari olíu- og gasvinnslu.

    Hitt er annað mál að ég tel að umræða um þessi mál endurspegli að hluta til vilja og upplýsingu þjóðarinnar í þessum efnum og því ekki eingöngu hægt að kenna stjórnmálamönnum um að velja að fylgja straumnum án gagnrýninnar skoðunar á málinu. En það má þó benda málefnalega á mótsagnir í umræðunni og benda á að það ætti alls ekki að líta á loftslagsvandann sem sóknarfæri, heldur vandamál sem þarf að taka föstum tökum á heimsvísu – þar með talið okkar framlag hér á landi. Opin umræða um þessi mál þarf að fara fram og þarf að byggjast á því að skoða allar hliðar málsins – líka neikvæðar hliðar þess, þó það geti orðið erfitt og sé jafnvel ekki líklegt til vinsælda í kosningum.

    Heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is: