Climategate – Nú ár er liðið…skandallinn sem ekki varð

Þessi mynd er lýsandi fyrir hugsanagang þeirra sem afneita vísindum og vilja sýna þau í villandi ljósi (google myndaleit - climategate)

Um þessar mundir er liðið ár frá því að gögnum sem stolið var frá CRU var lekið á internetið og hið svokallað Climategatemál kom fram í dagsljósið. Hinar ýmsu heimasíður þeirra sem afneita loftslagsvísindunum sem fræðigreinar, fóru fremstar í flokki þeirra sem töldu að þessi gögn sönnuðu allt mögulegt varðandi svindl og fals loftlsagsvísindamanna. Í kjölfarið komu fram margar ásakanir á hendur vísindamanna sem voru byggðar á litlu öðru en sérvöldum mistúlkunum eða bara almennum misskilningi á því hvernig vísindastörf eru unnin. En hvernig standa málin svo núna ári seinna?

Tímaritið Nature hefur birt ágæta grein um málið (PDF), þar sem eftirfarandi kemur m.a. fram:

.. More certain is the conclusion that the hack of the server was a sophisticated attack. Although the police and the university say only that the investigation is continuing, Nature understands that evidence has emerged effectively ruling out a leak from inside the CRU, as some have claimed. And other climate-research organizations are believed to have told police that their systems survived hack attempts at the same time.

En það er nú fleira sem vert er að skoða, t.d. hvað hefur gerst áþreifanlegt á þessu ári sem er liðið.

Fyrst er að nefna skýrslu Vísindanefndar breska þingsins þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Phil Jones, sem er einn af þeim sem var miðpunktur hins svokallað climategatemáls, hafi ekki falsað niðurstöður.

Næst ber að nefna skýrslu vísindanefndar undir stjórn Lord Oxburgh, sem er fyrrum stjórnarformaður Shell í Bretlandi, sem komst að því að vísindin séu traust og að ekkert bendi til þess að vísindamenn hafi falsað niðurstöður.

Í enn einni rannsókninni, nú undir stjórn Sir Muir Russell, kom fram að vísindamenn og störf þeirra eru gerð af nákvæmni og samviskusemi og að ekki lægi fyrir vafi um störf þeirra.

Í Bandaríkjunum, voru gerðar tvær rannsóknir á vegum Penn State háskólans, varðandi störf prófessor Michael Mann þar sem hann var sýknaður af öllum áburði um að hafa staðið að vísindalegum misgjörðum.

Að lokum má nefna að fyrir nokkrum vikum þá kom fram, frá breskum stjórnvöldum, að upplýsingarnar sem komu fram í hinum illa fengnu tölvupóstum létu ekki í té nein sönnunargögn sem skapaði vantraust varðandi rannsóknir á loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Þannig að í þessari upptalningu er ekki bara eitt tilfelli, heldur ein sex tilfelli þar sem vísindamenn eru hreinsaðir af þeim tilhæfulausu ásökunum sem upp komu í þessu máli. Þetta kemur reyndar ekki á óvart, þar sem að þeir sem afneita loftslagsvísindum virðast fá mikla áheyrn fjölmiðla (sérstaklega í BNA) og vaða uppi með tilhæfulausar staðhæfingar ef það hentar málsstað þeirra.

En hvað um hin ýmsu “alltmöguleg-gate” sem hafa verið sett upp sem dæmi um vanhæfni IPCC? – Þess ber að geta að við skrifuðum ekki um öll þessi svokölluð hliðamál…enda frekar óspennandi og alls ekki uppbyggjandi í vísindalegu samhengi.

Það sem m.a. hefur gerst hingað til í hinum ýmsu “alltmöguleg-gate”-málum er t.d. eftirfarandi.

Sunday Times hefur beðist afsökunar á og dregið til baka fréttir um hið svokallað “Amazongate”-mál. Það er s.s. ekkert Amazongate-mál og regnskógum Amazon stendur því miður enn ógn af breytingum vistkerfa vegna loftslagsbreytinga.

Hollensk stjórnvöld hafa tekið ábyrgð á því að hafa gefið IPCC rangar upplýsingar varðandi það að 55% af Hollandi sé undir sjávarmál, þegar staðreyndin er sú að “aðeins” 26% er í hættu vegna flóða, þar sem svæði eru undir sjávarmáli, á meðan önnur svæði, 29% eru í hættu vegna flóða frá ám og fljótum.

BBC hefur einnig beðið CRU afsökunar á því að hafa farið villandi orðum í sinni umfjöllun um “climategate” fals-hneykslið.

Það sem er eftir af þessum svokölluðu “alltmöguleg-gate” er því aðeins hin neyðarlega villa (já aðeins ein) og hin klaufalega afsökunarbeiðni IPCC í kjölfarið á því, varðandi bráðnun jökla Himalaya, þar sem ártalið 2035 kom fram í stað ártalsins sem talið er líklegra 2350. Sú villa varð öllum ljós, ekki vegna þess að blaðamenn hefðu fundið hana með rannsóknarblaðamennskuna að vopni eða að eitthvert “efasemdarbloggið” uppljóstraði um það, heldur vegna þess að einn af vísindamönnunum og meðhöfundum IPCC skýrslunnar sagði frá villunni (þannig virka alvöru vísindi).

Það sem eftir stendur, ári eftir climategate er ein stafsetningarvilla og 6 hreinsanir vísindamanna af ásökunum og lítið annað. Í kjölfarið á þessu má setja fram hinar raunverulegu spurningar sem fjölmiðlar og aðrir ættu að spyrja sjálfa sig núna:

Af hverju?

Hverjir?

Eða sagt á annan veg:

Hverjir há þessa baráttu gegn loftslagsvísindamönnum og af hverju?

Ítarefni:

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.