Lengi vel stóð maður í þeirri meiningu að hvert ísaldarskeið væri samfelld kuldaskeið með sínum ógurlegu jökulskjöldum og freðinni jörð langt suðureftir löndum. Fyrstu hugmyndir vísindamanna á sínum tíma hafa sjálfsagt verið eitthvað svipaðar uns mönnum lærðist að innan hvers jökulskeiðs væru vísbendingar um hlýrri tímabil með mun minni jökulþekju. Það var svo ekki fyrr en eftir borkjarnarannsóknir á Grænlandsísnum að það kom almennilega í ljós hversu óstöðugt loftslag mun í raun hafa verið á síðustu ísöld og hvernig jöklar fóru ýmist hraðminnkandi eða stækkandi með tilheyrandi áhrifum á hæð sjávarborð auk annarra áhrifa á náttúrufar almennt. Sérstaklega hér við Norður-Atlantshaf. Þetta er ólíkt hlýskeiðinu síðustu 10 þúsund árin þar sem loftslag hefur verið mjög stöðugt, en það hefur örugglega haft sitt að segja um velgengni þeirrar dýrategundar sem við teljumst til.
Þessi óstöðugleiki og loftslagssveiflur innan síðasta jökulskeiðs virðast í fyrstu hafa verið nokkur ráðgáta meðal vísindamanna því þær eiga ekki samsvörun í sveiflum í inngeislun sólar vegna breytilegs möndulhalla jarðar og fleiri atriða sem oftast eru kallaðar Milankovich-sveiflur, sem þó eru í stærra samhengi taldar höfuðorsök lengri jökulskeiða og hlýskeiða.
Vitað hefur verið að sjávarstraumar við Norður-Atlantshaf geta verið óstöðugir og er þá Golfstraumurinn gjarnan nefndur því án hans væri varla byggilegt á okkar slóðum. Seltujafnvægi sjávar spilar þarna inní og talið að mikil aukning af ferskvatni í norðurhöfin geti stöðvað streymi hlýsjávar hingað norður eins og sumir hafa óttast að gæti gerst með aukinni jökulbráðnun í náinni framtíð. Slík aukning af ferskvatni er þó lítil og hægfara miðað við þá atburði sem áttu sér gjarnan stað þegar jöklar voru að hörfa og risastór jökulvötn ruddu sér leið til út í Atlantshafið ýmist frá Evrópu eða Norður-Ameríku. Þetta atriði þykir geta skýrt ýmislegt og þá sérstaklega það mikla bakslag sem skyndilega varð undir lok síðasta jökulskeiðs fyrir 12.800 árum (Yngra-Dryas) sem tók við af stuttu tímabili sem var nálega eins og hlýtt og hefur verið á nútíma.
Kenningin um áhrif Beringssundsins
Í upphafi þessa árs sá ég athyglisverða kenningu um að stóri örlagavaldurinn í ógnarjafnvægi Norður-Atlantshafsins á síðasta jökulskeiði væri fólgin í hinu þrönga Beringssundi á milli Alaska og Síberíu og ef sú kenning er rétt þykir það vera gott dæmi um hvað lítilvæg atriði geta haft mikið að segja. Þessi kenning er annars fengin útfrá fjölþjóðlegri rannsókn á vegum National Center for Atmospheric Research (NCAR) og gengur út á eftirfarandi atriði:
Þegar loftslag kólnar vegna sveiflna á sporbaug jarðar um sólu, vaxa jöklar á norðurhveli og þar með lækkar sjávarborð nógu mikið til að landbrú myndast við Beringssund milli Asíu og Norður-Ameríku. Kyrrahafssjór sem er í eðli sínu seltulítill streymir þá ekki lengur inn Beringssund og áfram inn í Atlantshafið úr norðri eins og venjan er þegar Beringssund er opið. Við þetta eykst seltustig Norður-Atlantshafs þannig að þungur selturíkur sjór sekkur í ríkara mæli hér í norðurhöfum og eykur á kraft þeirra sjávarhringrása sem dæla suðlægum hlýsjónum norður. Með aukningu á hlýsjó í Norður-Atlantshafi, hlýnar loftslag nógu mikið til að jökulbreiður taka að bráðna á ný. Þótt Kyrrahafið kólni á móti skiptir það ekki máli því jökulbreiður eru ekki þar umhverfis.
Með bráðnandi jökulhvelum hækkar sjávarborð nægilega til að sjór streymir á ný gegnum Beringssund. Seltuminni sjór berst á ný inn Atlantshafið úr norðri og veikir gangverk hlýsjávarstrauma þannig að kólnun tekur við á ný. Jöklarnir taka því að vaxa aftur og að sama skapi lækkar sjávarborð sem endar á því að Beringssundið lokast og ferlið endurtekur sig á ný.
Eftir því sem brautarganga jarðar um sólu varð óhagstæðari mögnuðust harðind síðasta ísaldarskeiðs smám saman og fyrir 34 þúsund árum skipti ekki lengur máli þótt Beringssundið væri lokað, jöklarnir höfðu að lokum náð yfirhöndinni og urðu stærstir fyrir um 25-15 þúsund árum. Eftir mikla hlýnun í framhaldi af því og stóra Dryas-bakslagið hefur hlýskeið ríkt hér á jörð. Það hlýskeið á að öllum líkindum tilveru sína að þakka hagstæðri brautargöngu jarðar um sól með aukinni sólgeislun á norðurhveli að sumarlagi og skapar þær aðstæður að ekki skiptir lengur máli þótt Beringssundið sé opið því sá Kyrrahafs-ættaði og seltusnauði sjór sem nú berst til Atlantshafsins úr norðri, nægir ekki til þess að koma á ísaldarástandi.
– – – – –
Þannig hljóma þessar kenningar samkvæmt því sem ég skil best og með þeim fyrirvara að rétt sé eftir haft af frétt á ScienceDaily-vefnum sem fjallaði um þetta Beringssundsmál þann 11. janúar á þessu ári.
Sjá hér: http://www.sciencedaily.com/releases/2010/01/100110151325.htm
Hitalínuritið að ofan er fengin af vefsíðu Richard A. Muller / brief introduction to the history of climate http://muller.lbl.gov/pages/iceagebook/history_of_climate.html
Takk fyrir þennan góða pistil Emil – hafði einmitt heyrt af þessu sambandi, en ekki útskýrt svona vel.