Yfirlýsing frá breska jarðfræðafélaginu um loftslagsbreytingar

Endurbirting færslu sem birtist fyrst í nóvember síðast liðin.

Breska jarðfræðafélagið (e. Geological Society of London) hefur útbúið yfirlýsingu um loftslagsbreytingar, þar sem áhersla er lögð á jarðfræðigögn og hvað þau segja okkur. Jarðfræðigögn gefa töluverðar upplýsingar um það hvernig loftslag Jarðar hefur breyst til forna og veita mikilvægar vísbendingar um hvernig loftslagsbreytingum gæti háttað í framtíðinni. Yfirlýsingin byggir þannig á gögnum jarðfræðinnar, en ekki á nýlegum  hitastigsmælingar við yfirborð eða með gervihnöttum, né byggir yfirlýsingin á loftslagslíkönum. Það er alveg þess virði að lesa yfirlýsinguna, en þar koma fram töluverðar upplýsingar auk notadrjúgra ritrýnda heimilda (sjá tengla í lok færslunnar). Nokkur lykilatriði yfirlýsingarinnar má sjá hér fyrir neðan:

Hitastig Jarðar breytist af náttúrulegum völdum á tímaskala frá áratugum, til hundrað þúsunda, til milljóna ára. Í sumum tilfellum verða þessar breytingar smám saman en í sumum tilfellum gerast þær skyndilega. Gögn um loftslagsbreytingar hafa varðveist í margskonar jarðfræðilegu umhverfi t.d. í setlögum í botni sjávar og vatna, í jökulbreiðum, steingerðum kóröllum, dropasteinum og steingerðum trjám. Borkjarnar í jökulbreiður sýna hitastig skautana og samsetningu lofthjúpsins síðastliðin 120 þúsund ár fyrir Grænland og 800 þúsund ár fyrir Suðurskautið. Botnsetlög sjávar varðveita gögn um loftslag tugir milljóna ára aftur í tímann og eldra setberg teygir gögnin hundruðir milljóna ára aftur í tímann.

Jarðfræðileg gögn staðfesta það sem eðlisfræðin segja okkur, að með því að auka styrk CO2 í andrúmsloftinu þá eykst hiti Jarðar og getur leitt til hærri sjávarstöðu, breytt úrkomumynstri, aukið sýrustig sjávar og minnkað súrefni sjávar. Líf á Jörðu hefur lifað af miklar loftslagsbreytingar til forna, en mikill fjöldaúttdauði og breyting á dreifingu tegunda hefur tengst mörgum af þeim breytingum. Þegar mannkynið var fámennt og lifði hirðingjalífi, þá hafði sjávarstöðubreyting upp á nokkra metra ekki mikil áhrif. Við núverandi og vaxandi fólksfjölda, þar sem fjölmennustu svæði Jarðar eru í borgum við ströndina, þá mun slík sjávarstöðubreyting hafa neikvæð áhrif á samfélög manna, sérstaklega ef það gerist skyndilega eins og til forna.

Skyndilegar loftslagsbreytingar hafa áður gerst. Fyrir um 55 milljónum árum síðan – í lok tímaskeiðsins Paleósen, þá varð skyndileg hlýnun þar sem hnattrænt hitastig Jarðar jókst um 6°C og um 10-20°C á heimsskautunum. Þessi atburður, sem skammstafaður er PETM (Paleocene-Eocene Thermal Maximum) varð á sama tíma og kolefni losnaði í miklu magni (1500-2000 milljarðar tonna). Þessi innspýting af kolefni er talið geta tengst niðurbroti á metanvatnskristöllum (e. methane hydrate) í botnlögum sjávar, sem mögulega tengist eldvirkni og hafði áhrif til hlýnunar sem náði hámarki sínu fyrir um 50 milljónum ára í byrjun tímaskeiðsins Eósen. Styrkur CO2 í andrúmsloftinu var hár á þeim tíma – en þessi innspýting út í andrúmsloftið og úthöfin gerði þau enn heitari, súrefnisfirrtari og súrari. Í kjölfarið varð mikill útdauði lífvera, sérstaklega í úthöfunum . Það tók Jörðina um 100 þúsund ár að jafna sig á þeirri innspýtingu, sem sýnir að losun á CO2 út í andrúmsloftið í svipuðu magni getur haft áhrif á loftslag á Jörðinni í hundrað þúsund ár.

Sveiflur í djúpsjó jarðar. Mynd a sýnir sveiflur í magni súrefnis18 samsætunni og hvenær jöklar á Suður- og Norðurhveli jarðar byrja að myndast. Mynd b sýnir túlkun á hitastigi djúpsjávar miðað við magn súrefnissamsæta í setlögum (Hansen o.fl. 2008). Rauð ör á efri myndinni sýnir PETM atburðinn fyrir 55 milljónum ára, þegar mikill útdauði sjávarlífvera varð (smella á myndina til að stækka).

En hvenær var styrkur CO2 í andrúmsloftinu sambærilegt og það er orðið í dag? Nýjustu rannsóknir benda til þess að það sé orðið nú, svipað og það var fyrir um 5,2-2,6 milljónum ára – en þá var það talið vera á bilinu 330-400 ppm. Á þeim tíma var hnattrænn hiti Jarðar 2-3°C hærri en hann er í dag og sjávarstaða um 10-25 m hærri, sem bendir til þess að vatn bundið í jöklum hafi verið mun minna en í dag og að Norðurskautið hafi allavega verið árstíðabundið hafíslaus.

Athafnir manna hafa losað um 500 milljarða tonna af kolefni út í andrúmsloftið frá árinu 1750. Á næstu öldum, ef áfram heldur sem horfir, þá gæti losun manna orðið samtals á bilinu 1500-2000 milljarða tonna – svipað og varð fyrir um 55 milljónum ára. Jarðfræðileg gögn frá þeim atburði og fyrri sambærilegum atburðum benda til þess að slík viðbót af kolefni út í andrúmsloftið gæti hækkað hitastig Jarðar um allavega 5-6°C. Sá tími sem það gæti tekið Jörðina að jafna sig á slíku gæti orðið 100 þúsund ár eða meira. Ef eingöngu er miðað út frá jarðfræðilegum gögnum þá er óhætt að álykta að losun á CO2 út í andrúmsloftið af svipuðum og auknum ákafa og nú er, getur ekki verið skynsamlegt, eins óþægileg og sú tilhugsun er.

Heimildir og ítarefni

Þessi færsla er að mestu þýðing á umfjöllun Skeptical Science: Geological Society discuss climate change evidence from the geological record

Yfirlýsing Breska jarðfræðafélagið (e. Geological Society of London) má finna hér:  Climate change: evidence from the geological record (sjá einnig pdf skjal með yfirlýsingunni).

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál