Molar um sjávarstöðu

Sjávarstöðubreytingar til forna

Hér fyrir neðan er línurit sem sýnir sjávarstöðubreytingar frá því á síðasta kuldaskeiði Ísaldar og fram til dagisns í dag.

Þegar ís síðasta kuldaskeið bráðnaði, þá hækkaði sjávarstaða um hátt í 120 metra á um það bil 8 þúsund árum, eða þar til það hægði skarplega á hækkun sjávarstöðu fyrir um það bil 6 þúsund árum síðan. Á myndina hér fyrir ofan er að auki dregin hallalína núverandi sjávarstöðubreytinga – þ.e. 3 mm á ári, sem er sú sjávarstöðuhækkun sem mæld hefur verið undanfarna tvo áratugi. Þetta er mun meiri sjávarstöðuhækkun en síðustu 6 þúsund ár, en mun minni sjávarstöðuhækkun en var í gangi við lok síðasta kuldaskeiðs.

Ef skoðuð eru síðustu 9 þúsund ár, þá sést þetta betur:

Þarna sést ennþá hin hraða sjávarstöðuhækkun sem að varð í lok síðasta kuldaskeið, sem hægir á sér fyrir um 7 þúsund árum og svo enn meir fyrir um það bil 4 þúsund árum. Í framtíðinni er búist við hraðari hækkun sjávarstöðu – t.d. bendir margt til að hækkun sjávarstöðu verði á bilinu 0,5-1,5 m hækkun til ársins 21oo. Það þykir nokkuð víst að sú hækkun sjávarstöðu sem þá verður komin af stað mun halda áfram, vegna tregðu í loftslagskerfum Jarðar og að þennsla sjávar haldi áfram, sem og bráðnun jökla.

Tengsl sjávarstöðu og hita

Það segir sig eflaust sjálft að hitastig Jarðar hefur áhrif á sjávarstöðu (vatn þenst út við hita og svo bráðnun jökla). Þetta samband hitastigs og sjávarstöðu hefur verið skoðað í gegnum jarðsöguna, líkt og sjá má í mynd frá David Archer (sjá t.d. Archer 2008):

Eins og sést á þessari mynd, þá hefur sjávarstaða síðustu nokkra tugi milljónir ára verið í nokkuð beinu sambandi við hitastig – en áætlanir um hækkun sjávarstöðu um 0,5-1,5 m fyrir árið 2100 er nokkuð fjarri þeirri línu. Það eru nokkrar ástæður fyrir því.

Gildin í fortíðinni sína að mestu leiti jafnvægi í nokkurn tíma miðað við þáverandi hitastig, en jafnvægi verður varla náð hér á Jörðu á næstu áratugum eða öldum, miðað við áframhaldandi losun CO2 út í andrúmsloftið. Einnig er óvissa um það hvort hægt sé að nota sjávarstöðu fyrir 40 milljónum ára til samanburðar, þar sem lega landa og landgrunna hefur breyst nokkuð frá þeim tíma.

Samanburður við síðasta hlýskeið Ísaldar (fyrir 125 þúsund árum) er vænlegur til árangurs. Þá var hnattrænt hitastig Jarðar um 2°C hærra en nú og sjávarstaða um 4-6 m hærri  að auki (sjá Rohling o.fl. 2008).  Það gefur því nokkuð góða vísbendingu um hver sjávarstaða gæti orðið ef jafnvægi yrði náð við 2°C hækkun hitastigs.  Þótt ekki sé það fullkominn samanburður, vegna öðruvísi aðstæðna (nú er hnattræn hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda, þá var það vegna breytinga í afstöðu Jarðar og Sólar), þá sýnir jarðsagan glögg tengsl milli hitastigs og sjávarstöðubreytinga.

Grinsted nokkur útbjó annað línurit þar sem borið er saman hitastig og sjávarstöðubreytingar út frá Rohling o.fl. (2009):

Greining Rohlings og félaga byggist á gögnum síðustu 5 hringrása hlý og kuldaskeiða og tengsl sjávarstöðu og hitastigs miðað við að jafnvægi hafi verið náð.  Sökum þess hversu mismunandi mikið magn af jökli bráðnar, er viðbragð sjávarstöðu við hlýnun ekki línuleg. Inn á myndina er sýnt hitastig árið 1850, 2000 og áætlun fyrir 2100. Eins og sést þá er búist við nokkurri hækkun sjávarstöðu á næstu öldum og fer það eftir því við hvaða hitastig jafnvægi kemst á hver endanleg sjávarstaða verður. Það má því ljóst vera að eftir nokkrar aldir verða útlínur meginlanda Jarðar allt aðrar en í dag.

Ýmsar heimildir og ítarefni

Þessi færsla er að nokkru leiti byggð á tveimur færslum af heimasíðunni My view on climate: Past, current and future sea level rise og Sea level versus temperature

Archer 2008: The millennial atmospheric lifetime of anthropogenic CO2

Rohling o.fl. 2008: High rates of sea-level rise during the last interglacial period

Rohling o.fl. 2009: Antarctic temperature and global sea level closely coupled over the past five glacial cycles

Góð yfirlitsgrein úr Nature Geoscience, Milne o.fl. 2010: Identifying the causes of sea-level change

Royal Society ályktaði um sjávarstöðubreytingar síðastliðið haust:  Sea Level Rise. Emerging Issues

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál