Röksemdir efasemdamanna…
Það sem vísindin segja…
Því hefur lengi verið haldið fram að einhverjir óskilgreindir “þeir” hafi breytt heiti fyrirbærisins “hnattrænni hlýnun” yfir í “loftslagsbreytingar”. Í raun lýsa þessi tvö heiti tveimur mismunandi fyrirbærum og hafa þessi heiti verið notuð jafnhliða í áratugi. Einu aðilarnir sem hafa gert það að markmiði sínu að skipta yfir í heitið loftslagsbreytingar – eru “efasemdamenn” um hnattræna hlýnun.
Hnattræn hlýnun (e. global warming) eða loftslagsbreytingar (e. climate change)
Bæði heitin eru mikið notuð í vísindagreinum, vegna þess að þau vísa í tvö mismunandi eðlisfræðileg fyrirbæri. Eins og við má búast, þá þýðir hnattræn hlýnun að langtíma leitni hitastigs sé að rísa hnattrænt sé, eins og sést á þessari mynd:
Loftslagsbreytingar eru einnig lýsandi heiti og vísar í hnattrænar breytingar í loftslagi sem afleiðing af hækkandi hitastigi Jarðar. Sem dæmi þá eru breytingar í úrkomumunstri, breytingar í tíðni og lengd hitabylgja og þurrka og annarra öfgaveðuratburða. Hér fyrir neðan er dæmi um kort sem sýnir úrkomubreytingar samkvæmt IPCC skýrslunni frá 2007 og er dæmi sem sýnir loftslagsbreytingar.
Þannig að þótt þessi tvö fyrirbæri séu skyld, þá eru þau ekki hið sama. Losun manna á gróðurhúsalofttegundum er að valda hnattrænni hlýnun, sem um leið veldur loftslagsbreytingum. Þess ber þó að geta að vegna skyldleika fyrirbæranna, þá eru heiti þeirra oft notuð jöfnum höndum – sérstaklega í daglegu tali og í fjölmiðlum.
Bæði hafa verið lengi í notkun
Rökin þar sem sagt er að “þeir hafi breytt heitinu” gefa í skyn að hnattræn hlýnun hafi áður verið normið og að menn hafi vísvitandi breytt því yfir í loftslagsbreytingar. Það er aftur á móti ekki rétt. Sem dæmi þá hét grein eins af frumkvöðlunum (Gilbert Plass 1956): ‘The Carbon Dioxide Theory of Climatic Change‘. Þá má benda á að Barrett og Gast gáfu út grein í Science árið 1971 með titlinum ‘Climate Change’. Tímaritið ‘Climatic Change’ var fyrst gefið út árið 1977 (og er enn verið að gefa út). Árið 1988 var IPCC stofnað en í nafni þess stendur CC að sjálfsögðu fyrir Climate Change eða loftslagsbreytingar. Fjölmörg önnur dæmi eru um samskonar notkun á climate change frá því upp úr miðri síðustu öld og því er notkun þess langt í frá að vera eitthvað ný.
Í raun er það svo að ef skoðað er netbókasafnið Google Books, þá kemur í ljós að bæði heitin hafa verið notuð svipað mikið í bókum í Bandaríkjunum og notkun þeirra vaxið á sambærilegan hátt undanfarin 40 ár.
Ef aftur á móti fræðiritasafnið Google Scholar er skoðað þá kemur í ljós að “climate change” var komið í almenna notkun nokkuð á undan “global warming” og hefur í raun verið meira notað af vísindasamfélaginu:
En af hverju að skipta um heiti?
Þeir hinir sömu og nota mýtuna “þeir breyttu heitinu” stinga venjulega upp á ástæðu þess af hverju þessi breyting átti að hafa átt sér stað. Þeirra skýring er annað hvort sú að (i) að Jörðin hætti að hlýna og þar með varð hin “hnattræna hlýnun” ekki lengur nákvæmt mat á ástandinu, eða (ii) að loftslagsbreytingar hljómi ver heldur en hnattræn hlýnun.
Fyrra atriðið er augljóslega rangt, eins og sést á fyrstu myndinni hér fyrir ofan – Jörðin er enn að hlýna og að safna í sig hita. Hin hnattræna hlýnun hefur ekki stoppað.
Seinna atriðið er einnig rangt, þar sem eini einstaklingurinn sem hefur í raun hvatt til þess að breyta heitinu úr hnattrænni hlýnun og yfir í loftslagsbreytingar var ráðgjafi repúblikanaflokksins, Frank Luntz. Það sést í umdeildu minnisblaði þar sem hann ráðlagði hægri mönnum hvernig best væri að ræða umhverfismál við almenning til að gera sem minnst úr þeim (lauslega þýtt):
Það er kominn tími til að fara að tala um loftslagsbreytingar í staðinn fyrir hnattræna hlýnun og vernda í staðinn fyrir að friða.
Loftslagsbreytingar hræða minna heldur en hnattræn hlýnun. Eða eins og einn aðili í viðhorfshóp orðaði það, loftslagsbreytingar “hljóma eins og þú sért að fara frá Pittsburgh og til Fort Lauderdale.” Á meðan hnattræn hlýnun hefur á sér einhvern hamfarakenndan blæ þá hljóma loftslagsbreytingar eins og eitthvað sem hægt er að stjórna og hefur minna tilfinningalengt vægi.
Samantekt
Niðurstaðan er því sú, að þótt að þessi heiti séu notuð jafnhliða vegna orsakasamhengis þeirra á milli, þá vísar hnattræn hlýnun í annað fyrirbæri en loftslagsbreytingar.
Loftslagsbreytingar hafa verið notaðar í vísindagreinum í marga áratugi og notkun beggja hefur vaxið samhliða síðastliðin 40 ár.
Að auki, þar sem Jörðin heldur áfram að hlýna – þá er engin ástæða til að breyta um heiti. Líklega er eini einstaklingurinn sem hvatt hefur til þess að menn breyttu þessu, téður Frank Luntz, en hann var ráðgjafi repúblikanaflokksins og efasemdamaður um hnattræna hlýnun. Hann notaði viðhorfshópa til að ákveða hvernig best væri að ræða hnattræna hlýnun til að hún hljómaði minna hræðileg fyrir almenning.
Það er í raun ekkert sem styður mýtuna: Þeir breyttu því úr hnattrænni hlýnun yfir í loftslagsbreytingar.
Heimildir og ítarefni
Þessi færsla er þýðing á færslu af Skeptical Science, sjá einnig hér.
Tengt efni á loftslag.is
- Loftslagsvísindi árið 1956: Úrdráttur úr fortíðinni
- Sagan
- Áhrif CO2 uppgötvað
- Á tilboði: Sérvalin kirsuber
- Eru jöklar að hopa eða stækka?
Leave a Reply