Röksemdir efasemdamanna…
Hlýnunin er af völdum Kyrrahafssveiflunnar (Pacific Decadal Oscillation-PDO). Það fer eftir því í hvaða fasa PDO er hvert hitastig jarðar er, á 20-30 ára tímabilum er PDO í kuldafasa og svipaðan tíma í hlýjum fasa.
Það sem vísindin segja…
Það er engin leitni í PDO og þar með getur PDO ekki verið orsök leitninnar í hinni hnattrænu hlýnun.
Kyrrahafssveiflan (The Pacific Decadal Oscillation – PDO) er loftslagsfyrirbæri í Norður Kyrrahafi. Sveiflan er á milli heitari fasa (jákvæð gildi) og kaldari fasa (neikvæð gildi) sem hvor um sig stendur yfir í 10-40 ár. Fasarnir eru í tengslum við yfirborðshita sjávar (sea surface temperatures – SST). Þótt óvíst sé með orsakir PDO sveiflunnar, þá eru afleiðingar einna helst breytingar á sjó í norðaustanverðu Kyrrahafi og breytingar á brautum skotvinda (e. jet stream) í háloftunum.
Athyglisvert er þó að þessar fasabreytingar eru ekki fastur punktur í tilverunni við Kyrrahafið; oft á tíðum koma styttri tímabil hlýrra ára (1-5) inn í köldu fasana og köld ár þegar sveiflan er í hlýjum fasa. Auk þess er skiptingin í “kaldan” og “hlýjan” fasa ekki eins lýsandi og virðist við fyrstu sýn. Kaldi fasinn tengist t.d. mjög háum sjávarhita í Norður-Kyrrahafi (sjá mynd hér fyrir neðan).
Mynd 1: PDO hlýr fasi (vinstri) og kaldur fasi (hægri). Mynd frá JISAO.
Ein leið til að kanna fullyrðingar um að PDO valdi hlýnun, er að teikna upp hnattræna hitabreytingu samhliða PDO gildinu (sjá hér að neðan). Það sem kemur í ljós er að þrátt fyrir að PDO gildið hafi skammtíma áhrif á hitastig, þá hefur hinn hnattræni hiti ákveðna leitni upp á við, en PDO sýnir enga slíka leitni.
Mynd 2: PDO gildi Kyrrahafssveiflunnar (blá lína, Háskólinn í Washington) teiknað til samanburðar við hnattrænt hitafrávik Jarðar (rauð lína – GISS Hiti). Mýktar línur og leitni teiknuð að auki.
Náttúrulegar sveiflur, líkt og PDO, færa til hita milli sjávar og andrúmslofts. Þannig sveiflur hvorki mynda hita, né halda honum til lengdar – þar með geta náttúrulegar sveiflur ekki valdið langíma leitni í hita, aðeins skammtíma sveiflur. Í raun eru þær dæmi um innri breytileika en ekki utanaðkomandi geislunarálag. Ef PDO væri valdur að hlýnun lofthjúpsins, þá væru úthöfin að kólna, sem er ekki að gerast.
Þetta kemur í raun ekki á óvart. Langtíma leitni hlýnunar er afleiðing orkuójafnvægis orsakað að mestu af aukningu á gróðurhúsalofttegundum í lofthjúpnum. Á hinn bóginn er PDO sem er náttúruleg sveifla og hvorki eykur né minnkar heildarorku loftslagskerfisins.
Ítarefni
Þessi færsla er þýðing á færslu af Skeptical Science.
Tengt efni á loftslag.is
- 10 vísar hnattrænnar hlýnunar
- Hnattræn hlýnun eða loftslagsbreytingar?
- Þeir breyttu úr hnattrænni hlýnun yfir í loftslagsbreytingar
- Áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi sjávar
- Fingrafar mannkynsins á hnattrænu hlýnunina
Ég má til að bæta við að hugmyndir eru uppi um að PDO fasarnir hafi áhrif á ENSO sveiflurnar á þann hátt að þegar kaldur PDO er ríkjandi eins og núna þá ýti það undir myndanir á La Nina og þegar hlýr PDO er ríkjandi þá eykst tíðni hinna hlýju El Nino og að það sé ekki síst þetta samband sem ræður því hvernig hitasveiflur jarðar hegða sér á áratugaskala. Þetta átti allavega vel við á 20. öld, t.d. miðjan 8. áratuginn þegar EL Nino-árum tók greinilega að fjölga á sama tíma og PDO fór í hlýjan fasa og hlýnun jarðar fór í gang á ný.
Í framhaldi af þessi má því velta fyrir sér hvort hinum kaldari La Nina árum, eins og er núna, fari fjölgandi ef PDO heldur áfram að vera í sínum neikvaða kalda fasa. Svo má líka velta fyrir sér hvað hefur áhrif á hvað og öfugt en þetta breytir samt ekki því að hvorki PDO eða ENSO geta skýrt langtímahlýnun jarðar.
Emil, skemmtilegar pælingar. Við fölumst kannski eftir gestapistil frá þér um þessi tengsl 🙂
Athugið að PDO er skilgeind sem breytileiki hitafars á umræddu svæði eftir að búið er aö nema alla langtímaleitni á brott. Að ræða um leitni PDO og bera saman vi hnattræna hlýnun er því merkingarlaust. Þetta er endalaus og þreytandi misskilningur á “fyrirbrigðinu”.
Takk fyrir það Trausti. Efasemdamenn um hnattræna hlýnun af mannavöldum eiga það stundum til að grípa til PDO rakanna (reyndar ekki algengt að sjá það í umræðu hér á Íslandi). Því er vert að skrifa lítillega um það, þó ekki sé það annað en að þýða þessa ágætu færslu af skeptical science eins og hér er gert.
Við hér erum auðvitað allir sammála því að að merkingalaust er að tengja PDO við hnattræna hlýnun. Hinsvegar hefur hlýnunin verið skrykkjótt og í sæmilegu samhengi við PDO-indexinn á áratugaskala.
Mig langar að undirstrika það sem Trausti kemur inn á, enda eru það í raun ágætis lokaorð fyrir færslu sem fjallar um þennan misskilning sem Trausti nefnir. Þessi misskilningur kemur þó upp stöku sinnum í umræðunni (sérstaklega erlendis) þannig að vert er að skrifa um það nokkur orð eins og Höski bendir réttilega á.