Í skugga hörfandi jökuls

Í Colonia í Patagoniu, Chile má nú sífellt búast við skyndilegum jökulhlaupum úr jökullóni við jökuljaðar í fjöllunum ofan við, en svæðið hefur orðið fyrir sjö slíkum frá því í apríl 2008.  Colonia jökullinn stíflar af þrjá dali og einn þeirra myndar svokallað Cachetlón 2 (Lake Cachet 2).

Rúmmál vatns sem hleypur úr lóninu er um 200 milljón rúmmetrar og hleypur það úr lóninu á nokkrum klukkustundum og ofan í Colonia vatn, hækkar vatnsyfirborð þess og eykur rennsli í Baker fljótinu þar neðan við.

Cachet 2 jökullónið í Chile hefur hlaupið og fyllst aftur sjö sinnum á síðastliðnum þremur árum (mynd dga.cl).

Jökulhlaup úr jökullónum eru þekkt víða um heim, í Himalajafjöllum, Ölpunum og hér á Íslandi – en tíðnin er hvergi eins mikil og úr Cachetlóninu nú um stundir.  Fjórða mars síðastliðin kom síðasta hlaupið og jókst þá yfirborð Coloniavatnsins um 3,5 m á 28 klukkustundum. Á sama tíma tvöfaldaðist rennsli í Baker fljótinu sem rennur úr vatninu.

Jöklafræðingar með Gino Casassa í fararbroddi hafa fundið göng í jöklinum sem liggur um 8 kílómetra leið um jökulinn, frá Cachetlóni og niður í Coloniavatnið neðan við (Casassa o.fl. 2010). Um ástæður þess að jökulhlaupum á svæðinu hefur fjölgað undanfarin ár segir Casassa að það sé vegna loftslagsbreytinga.

Jöklar í Patagoníu í heild hafa hörfað og þynnst töluvert undanfarna áratugi. Lónin vaxa á kostnað jökuls og skapa aukna hættu á hlaupum. Í tilfelli Colonia jökuls þá hefur þynning hans veikt hina náttúrulegu stíflu sem jökullinn myndar.

Við bráðnun jökulsins þá myndast að auki göng milli Cachetlóns og Coloniavatnsins – sem verður til þess að lónið tæmist hratt, en síðan falla göngin saman og lónið tekur að fyllast á ný. Reyndar var síðasta hlaup öðruvísi – en þá mynduðust göngin ekki við botn jökulsins heldur nær yfirborði.

Vísindamenn telja að hlaup muni halda áfram, þar til að jökullinn verði búinn að hörfa eða þynnast það mikið að náttúrulegt síflæði myndast úr lóninu. Fylgst er áfram með þróuninni með vatnshæðamælum, myndavélum sem skrá lónahæð og reynt verður að vara fólk við tímanlega – meðal annars með SMS skilaboðakerfi, en hingað til hefur enginn farist í þessum hlaupum.

Við látum fylgja með hér fyrir neðan nokkra tengla þar sem fjallað er um Grænalón og hlaup úr því, við Skeiðarárjökul – en þar er um sambærilegt fyrirbæri að ræða, sem þó hefur dregið nokkuð úr undanfarin ár, vegna hörfunar jökuls.

Heimildir og ítarefni

Unnið upp úr umfjöllun á heimasíðu Nature: In the shadow of a melting glacier

Casassa o.fl. 2010 (ágrip): Outburst floods of glacial lakes in Patagonia: is there an increasing trend?

Um Grænalón:

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál