Einn af þeim vísindamönnum sem hefur verið hávær í umræðunni um loftslagsvísindi og kalla má efasemdamann, er prófessor í háskólanum í Berkleley í Bandaríkjunum og heitir Richard Muller. Hann og samstarfsmenn hans settu af stað verkefni á síðasta ári, þar sem ætlunin er að kanna hvort gögn um yfirborðshita sýni raunverulega hlýnun eða hvort eitthvað sé til í því sem efasemdamenn segja að um sé að ræða kerfisbundna bjögun, í mælingum og leiðréttingum sem myndi falska hlýnun.
Verkefnið gengur út á að greina mun stærra gagnasafn yfir hitastig en aðrir hafa gert, athuga hvort skekkja sé vegna þéttbýlismyndunar við þær veðurstöðvar sem notaðar eru o.sv.fr.v.
Eftir að í ljós kom að olíumilljarðamæringarnir Charles og David Koch voru að styrkja rannsóknina og að þekktir efasemdamenn voru að vinna í nánu samstarfi við Muller og félaga, þá vöknuðu vonir efasemdamanna um að hér myndi kenningin um hnattræna hlýnun bíða afhroð.
Því kom það á óvart fyrir stuttu þegar Muller staðfesti eiðsvarinn fyrir framan þingnefnd Bandaríkjaþings að bráðabirgðaniðurstöður rannsókna hans bendi til þess að leitni hitastigs sé nánast sú sama og hjá öðrum stofnunum.
Þess ber að geta að þetta eru bráðabirgðaniðurstöður, byggt á litlu magni gagna – en þetta er vissulega góð vísbending.
Sérstaklega er þetta áhugavert í ljósi þess að Muller hefur talið að staðsetning veðurstöðva ráði miklu um núverandi hlýnun, þ.e. svokölluð þéttbýlishlýnun (e. urban heat island). Rannsókn Mullers og félaga virðist staðfesta að leiðréttingar vísindamanna annarra stofnana séu nærri lagi.
Það skal tekið fram að fjölmargt annað en hitaraðir benda til þess að jörðin sé að hlýna (hörfun jökla, færsla lífvera o.fl.) og því vekur þetta helst athygli vegna þess hvaðan þessi niðurstaða kemur – en niðurstaðan í sjálfu sér vekur ekki athygli.
Heimildir og ítarefni
Heimasíða rannsóknarinnar í Berkeley: The Berkeley Earth Surface Temperature Project
Umfjöllun Paul Krugman um þetta má sjá hér: The Truth, Still Inconvenient
Áhugaverðar umfjallanir Skeptical Science um vitnisburð fyrir þingnefndinni:
Tengt efni á loftslag.is
- Náttúrulegur breytileiki og horfur fyrir árið 2011
- Fingrafar mannkynsins á hnattrænu hlýnunina
- 10 vísar hnattrænnar hlýnunar
- Hnattræn hlýnun eða loftslagsbreytingar?
Leave a Reply