Við aukna öfga í veðri, þá er eðlilegt að almenningur spyrji sig hvort þessir öfgar geti verið vegna loftslagsbreytinga og hlýnunar jarðar. Hingað til hafa vísindamenn ekki treyst sér til að segja annað en, á þann veg, að líkur á öfgum aukist með aukinni hlýnun – vegna aukinnar orku í veðrakerfum, aukinni uppgufun og vatnsgufu í lofthjúpnum o.sv.frv.
Undanfarin misseri hafa vísindamenn farið að hugsa þetta upp á nýtt, sérstaklega í ljósi rannsókna sem sýna að hægt er að tengja saman öfga í veðri og loftslagsbreytingar (sjá Min o.fl. 2011 og Pall o.fl. 2011 – en áður var fjallað um þær rannsóknir hér – Aukin flóðahætta af völdum hnattrænnar hlýnunar). Með framförum í tölfræðitólum, loftslagslíkönum og sterkari tölvum, þá hefur þessi tenging færst frá því að vera nánast útilokuð og yfir í vera vel möguleg.
Bandarískir og breskir vísindamenn hafa stofnað hálfgert vísindabandalag, sem kallað er ‘ACE’ (Attribution of Climate-related Events), en þar vinna þeir náið saman við að finna út aðferðir við að sundurgreina áhrifaþætti öfgaveðurs. Vonir standa til að með þessu verði hægt að tilkynna fyrirfram um hættu á öfgaveðri, fyrir yfirvöld og almenning.
Öfgaveður valda miklu tjóni, hvort heldur á mannvirkjum eða manntjón. Sem dæmi þá dóu um 40 þúsund Evrópubúar í hitabylgju sem reið yfir álfuna árið 2003. Með því að kortleggja hvað veldur þessum öfgum og með því að skoða líkön sem sýna hvernig breytingar í þáttum sem valda öfgunum geta breyst í framtíðinni, þá er hægt að styrkja t.d. flóðvarnir á þeim svæðum þar sem flóð geta orðið og byggja upp áætlun til að bregðast við t.d. þurrkum og hitabylgjum á svæðum sem hætt er við slíku.
Farið er kerfisbundið í gegnum mæligögn og þau keyrð í veðurspálíkönum og loftslagslíkönum. Tengingin milli öfgaveðurs og loftslagsbreytinga er þó ekki auðveld, því margir þættir ráða einstökum veðurfyrirbrigðum. Vitað er að hlýnandi loftslag breytir eðlisfræðinni þannig að heitara andrúmsloft heldur vatnsgufu betur, sem dæmi og eykur því á myndun storma. En náttúrulegar sveiflur hafa líka áhrif, líkt og El Nino – en öfgaveður hafa orðið náttúrulega í gegnum tíðina og það löngu áður en menn fóru að brenna jarðefnaeldsneyti.
Markmið ACE hópsins er því að skoða þá þætti sem hafa áhrif á öfgaveður og hvernig loftslagsbreyting af mannavöldum hefur áhrif á tíðni öfga og hversu stór hluti er af völdum náttúrulegra sveifla (sjá myndina hér fyrir ofan – Öfgar í veðri – sem sýnir skematískt hvernig öfgar aukast með auknum meðalhita). Fyrrnefndar rannsóknir eru ólíkar (Min o.fl. 2011 og Pall o.fl. 2011) en niðurstaðan er þó skyld – þ.e. að nú þegar má segja að öfgaveður, vegna hnattrænnar hlýnunar, sé farið að hafa alvarleg áhrif á milljónir manna víða um heim. Önnur rannsóknin bendir til þess að aukin úrkoma (regn og snjór) á norðurhveli Jarðar sé vegna hnattrænnar hlýnunar og hin rannsóknin bendir til þess að aukin flóðahætta á Bretlandseyjum sé af sömu völdum. Talið er að atburðir sem líklegir hafi verið einu sinni á hundrað ára fresti geti orðið á fimmtíu ára fresti eða oftar.
Í sumum tilfellum hafa samskonar rannsóknir bent til þess að öfgar, líkt og hitabylgjan í Rússlandi árið 2010, hafi verið að miklu leiti vegna náttúrulegra ástæðna (Dole o.fl. 2o11).
Auðveldast virðist vera að tengja saman öfga í hitastigi við loftslagsbreytingar, en úrkomubreytingar virðast erfiðari í meðförum, auk þess sem upplausn loftslagslíkana ráða illa við úrkomu. ACE hópurinn vinnur nú hörðum höndum að því að bæta upplausnina og aðferðir við að meta slíkt. Því fyrr því betra.
Heimildir og ítarefni
Þessi umfjöllun byggir mikið til á umfjöllun Nature News: Climate and weather: Extreme measures
Sjá einnig ritstjórnargrein í Nature: Heavy Weather
Heimasíða ACE – Attribution of Climate Events
Grein Min o.fl. 2011 má lesa hér (ágrip): Human contribution to more-intense precipitation extremes
Grein Pall o.fl. 2011 má lesa hér (ágrip): Anthropogenic greenhouse gas contribution to flood risk in England and Wales in autumn 2000
Grein Dole o.fl. 2011 má lesa hér (ágrip): Was there a basis for anticipating the 2010 Russian heat wave?
Sjá einnig eldri umfjöllun á Nature News: Increased flood risk linked to global warming
Tengt efni á loftslag.is
- Aukin flóðahætta af völdum hnattrænnar hlýnunar
- Eru tengsl loftslagsbreytinga og öfga í veðri ?
- Er að verða hnattræn veðurfarsbreyting?
- Óvenjulegt veður árið 2010
- Árið 2010, heitt og öfgafullt
- Tengsl milli öfgaveðurs og loftslagsbreytinga?
Leave a Reply