Loftslagsbreytingar og hörmungar fyrri tíma

Ný grein bendir til þess að margar meiriháttar mannlegar hörmungar – stríð og plágur – megi rekja til loftslagsbreytinga. Þetta eru svo sem ekki ný sannindi – en beinar rannsóknir á orsakasamhengi hafa reynst erfiðar.

Framfarir í fornloftslagsfræðum hafa nú auðveldað fræðmönnum að horfa lengra aftur til baka en áður. Einn þessara fræðimanna, David Zhang í háskólanum í Hong Kong skoðaði nýlega hvernig heit og köld tímabil hafa áhrif á samfélög manna. Zhang (o.fl. 2011) tóku saman mikið magn tölfræðigagna og notuðu öflug tölfræðitól við að greina gögnin. Notaðir voru 14 mismunandi þættir, líkt og hæð manna, gullverð, trjáhringaþykkt og hitastig frá Evrópu milli áranna 1500 og 1800, auk annarra þátta.   Rannsakað var hvort orsakasamhengi væri á milli þessara þátta. Síðan skiptu þeir tímabilinu niður í styttri tímabil, 40-150 ár hvert, til að sjá hvort stór atburður á þessum tímabilum var í raun vegna hitasmismunar á tímabilinu – en sýndi ekki bara leitni við hitastig.

Sveiflur í loftslagi reyndist vera tölfræðilega marktæk ástæða félagslegs óróa, stríða, fólksflutninga, plága og hungursneiða – auk þess sem loftslag reyndist mun oftar vera ástæða mannlegra hörmunga en aðrir þættir. Helsta ástæðan er sú, segja höfundar,  að breytingar í loftslagi hafa jafnan áhrif á landbúnað, sem veldur minni uppskeru. Það hefur áhrif á gullverð og verðbólgu. Hungursneið af völdum uppskerubrest eykur síðan oft á plágur – og þegar fólki líður illa af öllum fyrrnefndum ástæðum þá eykst reiðin við yfirvöldin og nágrannaríki. Afleiðingin af því er oft á tíðum stríð.

Við að skipta tímanum upp í tímabil ákveðins hita, þá gátu vísindamennirnir einnig útbúið einskonar spálíkan fyrir seinni tímabil, sem sýndu hvenær líklegt væri að farið yrði yfir ákveðna þröskulda í hörmungum.

Vísindamenn úr öðrum fögum eru efins um þessar niðurstöður.

Stjórnmálafræðingur frá Oslo, Halvard Buhaug telur að rannsóknin sé “góð og fullt af nothæfum gögnum”. Honum fannst þó vanta umræðu um það hvað gerðist í framhaldinu – þ.e. með iðnbyltingunni og hvort samfélög manna urðu fyrir vikið ónæmari fyrir loftslagsbreytingum – við auknar tækniframfarir. Einnig virðist óljóst hvort hægt yrði að yfirfæra þetta yfir á framtíðina og þá miklu hlýnun sem búast má við á næstu áratugum og öldum.

Sagnfræðingur frá New York, William Atwell finnst það stór biti að kingja – að telja loftslagsbreytingar orsök flestra sögulegra hörmunga manna. Honum finnst vanta í rannsóknina áhrif frá trúarbrögðum, viðskipta og annarra þátta. Sem dæmi þá urðu frumbyggjar Ameríku fyrir miklum skakkaföllum af völdum sjúkdóma frá “gamla heiminum” – erfitt að tengja það við loftslagsbreytingar.

Fornloftslagsfræðingur frá Þýskalandi, Sebastian Wagner telur að tímaramminn hafi verið of víður af öðrum ástæðum. Teymið byrjaði á því að greina gögnin með því að jafna gögnin (e.smoothing) yfir 40 ára tímabil – sem getur haft áhrif á tölfræðilega marktækni gagnanna. Að auki finnst honum það takmarka niðurstöðuna nokkuð að einungis var litið á hitastig en ekki aðra þætti loftslags sem geta haft mikil áhrif, t.d. úrkoma.

Ljóst er að engin eining er um þessa rannsókn miðað við viðbrögðin, en þrátt fyrir það er þetta áhugavert og skref í rétta átt við að meta áhrif loftslagsbreytinga á hörmungar fyrri tíma.

Heimildir og ítarefni

Unnið upp úr frétt á Science Now: Got war? Blame the weather.

Greinin birtist í PNAS og er eftir Zhang o.fl. 2011: The causality analysis of climate change and large-scale human crisis

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál