Taktur loftslagsbreytinga síðastliðin 20 þúsund ár, á norður- og suðurhveli jarðar

Ein af rökum “efasemdamanna” um þátt manna í hinni hnattrænu hlýnun er að loftslagsbreytingar hafi alltaf orðið – og að hitasveiflur eins og nú eru, séu tíðar þegar skoðuð eru gögn um fornloftslag.

Ný rannsókn sem loftslagsfræðingur í háskólanum í Lundi – Svante Björck – birti fyrir skömmu, bendir til þess að miklar hitasveiflur gerist yfirleitt ekki á sama tíma á norður- og suðurhveli jarðar. Þettta á við um síðastliðin 20 þúsund ár, en það er eins langt aftur og nægilega nákvæm loftslagsgögn beggja hvela jarðar ná aftur. Þessi greining Svante nær því um 14 þúsund árum lengur aftur í tíman en fyrri sambærilegar greiningar.

Margskonar gögn eru notuð sem vísar að fornloftslagi – t.d. kjarnar úr botnseti úthafa og stöðuvatna, úr jöklum og fleira. Í þeim gögnum má lesa hvernig breytingar verða í hitastigi, úrkomu og samsetningu lofthjúpsins.

Ýmsar hitaraðir sem sýna hitastig jarðar á nútíma (holocene - af wikipedia.org).

Höfundur telur að sú hitaaukning sem nú er að gerast, sé harla óvenjuleg í jarðfræðilegu tilliti. Með því að grandskoða greinar og gögn um fornloftslag reyndi hann að finna atburði sem hefðu svipuð áhrif samtímis á norður- og suðurhveli jarðar – síðastliðin 20 þúsund ár. Ekkert slíkt kom í ljós í gögnunum. Þess í stað fann hann tilfelli þar sem hitastig rís á öðru hvelinu en lækkar eða stendur í stað á hinu.

Samkvæmt greiningu höfundar, þá gerast vissulega breytingar samtímis á báðum hvelum – líkt og breytingin yfir í hlýskeið ísaldar. Þær breytingar eru þá af völdum svokallaðra Milankovich sveifla (breytingar í möndulhalla, fjarlægð frá sólu og möndulsnúningssveiflu – sjá fyrri loftslagsbreytingar). Stuttar sveiflur sem eru sambærilegar á báðum hvelum eru síðan tengd sérstökum atburðum – t.d. loftsteinaárekstrum eða eldvirkni sem þá nær að dreifa ösku um allan hnöttin sem dæmi.

En annað kemur í ljós þegar skoðaðar eru stærri skammtímasveiflur eins og t.d. svokallaða Litla-ísöldin – sem stóð yfirf rá um 1600-1900 – en það var óvenjukalt tímabil í Evrópu. Mikill uppskerubrestur varð og efnahagskerfi Evrópu bar afhroð. Hér á landi stækkuðu jöklar og hafísár urðu tíðari. Þann kulda er hins vegar ekki að finna á suðurhveli jarðar á sama tíma.

Nú, aftur á móti, eru að verða hnattrænar breytingar, samkvæmt höfundi. Styrkur gróðurhúsalofttegunda er að aukast gríðarlega og á sama tíma er hnattrænn hiti að aukast – bæði á norður- og suðurhveli jarðar. Sambærileg tímabil hitabreytinga af óútskýrðum völdum finnast ekki síðastliðin 20 þúsund ár. Því verður að líta svo á að núverandi loftslagsbreytingar séu óvenjulegar og vegna breytinga í kolefnishringrás jarðar, sem er af mannavöldum.

Það má því segja – að sambærilegar loftslagsbreytingar og eru að verða nú, eru óþekktar síðastliðin 20 þúsund ár.

Heimildir og ítarefni

Unnið upp úr efni af heimasíðu Lund háskólans, sjá New study shows no simultaneous warming of northern and southern hemispheres as a result of climate change for 20.000 years

Greinin birtist í tímaritinu Climate Research, Svante Björck 2011: Current global warming appears anomalous in relation to the climate of the last 20 000 years

Tengt efni af loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál