Um svipað leiti í fyrra gerðumst við nokkrir svo kræfir að spá fyrir um hvert hitastig ársins 2011 yrði samkvæmt tölum frá NASA GISS. Færslan hét Náttúrulegur breytileiki og horfur fyrir árið 2011, sjá einnig athugasemdir.
Undirritaður var í forsvari og þær pælingar voru svona:
Þegar skoðaðar eru horfur hvað varðar hitastig ársins 2011, þá kemur fljótt í ljós að ákveðið náttúrulegt bakslag er líklegt. Hitafrávikið árið 2010 var um 0,63°C samkvæmt GISS og munaði miklu um að El Nino hitti vel á árið (samanber hina 3-5 mánuða tregðu í að áhrif hitastigs komi fram hnattrænt). Að sama skapi mun La Nina hitta vel á þetta ár og er þar um að ræða sterka niðursveiflu í hitastigi, en nú er eitt sterkasta La Nina í nokkra áratugi í gangi og mun það halda áfram allavega fram á vor. Náttúruleg niðursveifla upp á hátt í -0,15°C (jafnvel meira) er því allt eins líkleg í ár af völdum La Nina.
Sólvirkni er ólíkleg til að hafa mikil áhrif á hitastig, en núverandi niðursveifla sólar heldur áfram. Ef einhver áhrif verða, þá verða þau í átt til lítils háttar hlýnunar (mögulega +0,01°C).
Óvíst er um eldvirkni, en líklega er best að reikna með því að áhrif eldgosa verði hverfandi á árinu, þá sérstaklega á hitaröð NASA GISS – en til þess að hafa teljandi áhrif, þá þyrfti á næstu vikum (eða mánuðum) að verða stórt sprengigos nálægt miðbaug Jarðar. Það verður að teljast ólíklegt en getur þó alveg gerst.
Áframhaldandi hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda er talin verða +0,02°C.
Ef lagt er saman hitastig ársins 2010 (0,63°C), hlýnun jarðar vegna gróðurhúsalofttegunda (um það bil +0,02°C), sólvirkni (mögulega +0,01°C) og La Nina (allt að -0,15°C) – þá fæst um 0,51°C, en það yrði þá níunda heitasta árið samkvæmt hitaröð NASA GISS.
Hér fyrir neðan má sjá spádóma þeirra sem höfðu kjark til að setja tölur niður á blað og sammældust menn um að sigurvegarinn myndi hljóta titilinn Hnatthitaspámeistarinn árið 2011 – ekki lítill titill það.
Spádómarnir voru svona og miðað við hitafrávik samkvæmt NASA GISS:
Höskuldur Búi: 0,51°C +/- 0,02
Jón Erlingur: 0,46°C +/- 0,02
Sveinn Atli: 0,41°C +/- 0,02
Emil Hannes: 0,38°C +/- 0,02
Hitastig síðasta árs og hnatthitaspámeistarinn
Hið hnattræna hitastig varð á síðasta ári níunda heitasta frá árinu 1880, samkvæmt tölum frá NASA. Þessi öld heldur því áfram í hæstu hæðum, þar sem níu af tíu heitustu árunum hafa orðið á þessari öld. Síðasta ár, var eins og búist var við nokkuð litað af sterkri La Nina sveiflu – en hitafrávikið endaði í 0,51°C.
Talnaglöggir sjá að Hnatthitaspámeistari síðasta árs er enginn annar en undirritaður (Höskuldur Búi) með nákvæmlega sömu tölu og lokaniðurstaðan varð. Óvenjulega heitt La Nina ár hefur að öllum líkindum haft nokkur áhrif á það hver varð sigurvegari, en menn spyrja sig nú hvort hin undirliggjandi hlýnun sé að aukast.
Horfur með hitastig ársins 2012
Eins og áður munum við miða við GISS hitaröðina – en athugið að þetta eru bara pælingar til skemmtunar og umræðu.
Líklegt er að hitastig 2012 verði hærra en ársins 2011. Hitafrávikið árið 2011 var um 0,51°C en kæliáhrif La Nina komu vel í ljós. Alltaf er nokkur óvissa um hvernig ENSO sveiflan hagar sér (kælandi La Nina eða hitandi El Nino). Nú er La Nina í gangi og ef reiknað er með að það gangi að einhverju leiti til baka og árið verði að mestu leiti hlutlaust í lok árs, þá má búast við að ENSO sveiflan auki hitastigið nokkuð – ég ætla hér að reikna með að það nemi um +0,05°C miðað við síðasta ár.
Sólvirkni er eitthvað á uppleið eftir mikla niðursveiflu, þó ekki í mikilli uppsveiflu. Áhrif sólvirkni er því mögulega lítil en þó einhver – kannski um +0,02°C.
Eins er með eldvirkni eins og í fyrra:
Óvíst er um eldvirkni, en líklega er best að reikna með því að áhrif eldgosa verði hverfandi á árinu, þá sérstaklega á hitaröð NASA GISS – en til þess að hafa teljandi áhrif, þá þyrfti á næstu vikum (eða mánuðum) að verða stórt sprengigos nálægt miðbaug Jarðar. Það verður að teljast ólíklegt en getur þó alveg gerst.
Ég ætla að gerast svo kræfur að bæta í hlýnunina af völdum gróðurhúsalofttegunda og veðja á að hún verði um +0,03°C.
Ef lagt er saman hitafrávik ársins 2011 (0,51°C), hlýnun jarðar vegna gróðurhúsalofttegunda (um það bil +0,03°C), sólvirkni (mögulega +0,02°C) og ENSO (kannski +0,05°C að þessu sinni), þá fæst um 0,61°C, en það yrði þá þriðja heitasta árið samkvæmt hitaröð NASA GISS. Það skal tekið fram að ef ENSO sveiflan fer á árinu upp í sterkan El Nino fasa, þá má búast heitasta árinu frá upphafi mælinga – en hér er því samt ekki spáð.
Við hvetjum hér með lesendur loftslag.is að spreyta sig í þessari skemmtilegu keppni – hver verður Hnatthitaspámeistari árið 2012
Heimildir og ítarefni
NASA Finds 2011 Ninth Warmest Year on Record
NASA Sees Repeating La Niña Hitting its Peak
Tengt efni á loftslag.is
- Hitastig í desember og árið í heild á heimsvísu
- Leysing Grænlandsjökuls árið 2011
- Hin manngerða loftslagsbreyting samanborin við hina náttúrulegu
- Náttúrulegur breytileiki og horfur fyrir árið 2011
- Hnatthitastig fyrsta ársfjórðungs og “Hnatthitaspámeistari Íslands 2011″
Þetta er skemmtilegt tiltæki og glæsilegur árangur hjá þér Höskuldur.
Allt til gamans gert Tommi – má ekki bjóða þér að koma með tölu 😉
Nei ætli ég leggi í það en ég fylgist spenntur með 🙂
Mig langar að byrja á því að óska Höskuldi til hamingju með titilinn Hnatthitaspámeistari ársins 2011, einstaklega vel ígrunduð og góð spá hjá honum.
Ég ætla að koma með mína spá fyrir árið 2012, sem hljómar á þann veg að ég hef trú á því að helmingur ársins verði undir áhrifum La Nina (eins og Höskuldur kemur inná), en ég tel þó ekki að árið verði eins hlýtt og Höskuldur gerir í skónna. Ég ætla því aðeins að bæta örlitlu við hitastig síðasta árs, og segja hitafrávik upp á 0,53°C – eða mjög svipað og fyrir árið 2011.
Mig langar að hvetja lesendur til að koma með sína spá. Þetta er þó aðallega til gamans gert, þó titillinn Hnatthitaspámeistarinn 2012 sé að “veði”.
Höski hitti vel á það í sinni spá í fyrra og má óska honum til hamingju með meistaratitilinn. Mér var orðið ljóst á miðju síðasta ári að mín spá upp á +0,38° myndi ekki rætast enda fjaraði La Nina síðasta vetrar fljótt út hitinn náði sér vel á strik um sumarið.
Ég ætla samt að freista þess aftur að spá dálítilli kólnun á þessu ári og segi að árið 2012 endi í +0,48°. Tek þó fram að það kæmi mér ekkert á óvart þótt árið verði hlýrra.
Nú vantar bara Jón Erling til að spá – þá eru komnir þeir sömu og í fyrra 🙂
Höskuldur Búi: 0,61°C +/- 0,02
Sveinn Atli: 0,53°C +/- 0,02
Emil Hannes: 0,48°C +/- 0,02
Við viljum fleiri, endilega takið þátt 🙂