Öfgar í veðri – líkurnar aukast

Undanfarinn áratugur hefur þótt óvenjulegur hvað varðar öfga í veðri. Vísindamenn við Potsdam stofnunina í loftslagsrannsóknum, sem staðsett er í Þýskalandi, telja að þessi háa tíðni öfga í veðri sé ekki tilviljun – sérstaklega hvað varðar úrkomu og hitabylgjur (sjá Coumou og  Rahmstorf 2012). Tengslin milli hlýnunar og vindstyrks er ekki eins augljós – þó ákveðið munstur hafi sést í aukningu á styrk fellibylja.
Ef tekið er eingöngu árið 2011 í Bandaríkjunum, þá ollu 14  veður tjóni sem var meira en milljarður dollara hvert (yfir 120 milljarðar íslenskra króna). Óvenjumikil úrkoma var í Japan á sama tíma og vatnasvið Yangtze fljótsins í Kína varð fyrir áhrifum óvenjulegs þurrkatímabils. 2010 var öfgafyllra ef eitthvað er, en margir muna eftir hitabylgjunni í Rússlandi og úrhellinu í Pakistan og Ástralíu.

Spurning um líkur

Samkvæmt höfundum þá snýst spurningin um hvort þessir öfgar tengjast loftslagsbreytingum meira um það hvort þær auki líkurnar frekar en að hægt sé að segja til um að þær valdi beinlínis öfgaatburði. Því fleiri slíkir atburðir sem verða, því auðveldara er að sjá hvernig loftslagsbreytingar auka líkurnar. Höfundar telja enn fremur að nú þegar sé fjöldi öfgaveðra kominn fram úr því sem telst eðlilegt.

Annar höfunda líkir þessu við teninga sem búið er að breyta (lauslega þýtt):

Sexan getur komið hvenær sem er og þú veist ekki hvenær hún kemur. Eftir breytinguna mun hún aftur á móti koma oftar en áður.

Undanfarin vika sýnir þetta greinilega, en þá féllu hitamet á yfir þúsund stöðum í Bandaríkjunum.

Þrjár stoðir: Eðlisfræði, tölfræði og líkön

Vísindamennirnir notuðu þrjár grunnstoðir við að greina áhrif loftslagbreytinga á öfgaveður: Hefðbundna eðlisfræði, tölfræðigreiningu og keyrslur tölvulíkana.

Hefðbundin eðlisfræði segir okkur að aukinn hiti lofthjúpsins muni valda meiri öfgum. Sem dæmi þá inniheldur heitt loft mun meiri raka og lengur áður en það byrjar að rigna – þar með má búast við meiri öfgum í úrkomu. Hefðbundnar tölfræðilegar leitnilínur sýna síðan greinilega aukningu, sérstaklega í hita og úrkomu. Keyrslur tölvulíkana staðfesta síðan tengsl aukins hita og setningu hita- og úrkomumeta.

Öfgar í veðri - í þessu tilfelli mjög heitt eða kalt veður - eru sjaldgæfir. En lítil hækkun í meðalhita jarðar vegna gróðurhúsaáhrifa getur aukið tíðni öfga í hitastigi.

Samkvæmt nýjustu rannsóknum, þá ættu fellibylir að aukast í styrk en ekki fjölda, þegar úthöfin hlýna. Nokkrir fellibylir hafa slegið met undanfarin ár en ástæður þess er ekki að fullu ljósar, en einnig gæti þar verið um að ræða ónákvæmni í gögnum um fyrri storma. Öfgaköldum atburðum mun, samkvæmt rannsókninni, fækka við áframhaldandi hnattræna hlýnun – en þó ekki jafnhratt og öfgaheitum atburðum fjölgar.

Öfgaveður tengist oft staðbundnum aðstæðum, líkt og fyrirstöðuhæðum eða náttúrulegum sveiflum líkt og El Nino. Nú bætist við undirliggjandi hnattræn hlýnun sem breytir óvenjulegu veðri í öfgaveður.

Heimildir og ítarefni

Coumou og  Rahmstorf (2012): A Decade of Weather Extremes. Nature Climate Change [DOI: 10.1038/NCLIMATE1452]

Fréttatilkynningin á ensku: Weather records due to climate change: a game with loaded dice

Umfjöllun á RealClimate: Extreme Climate

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál