Óæskilegt met, styrkur yfir 400 ppm á Norðurskautinu

VÍ © NOAA. Styrkur koltvísýrings í andrúmslofti á Stórhöfða í Vestmannaeyjum: mæliröð bandarísku loftrannsókna-stofnunarinnar NOAA frá 1992 í samvinnu við Veðurstofu Íslands. Staðan á sama tíma í fyrra.

Í fyrsta skipti í sögu mannkyns* hefur styrkur CO2 í andrúmsloftinu mælst yfir 400 ppm á Norðurskautinu í heild, en í fyrra fóru mælingar á styrk CO2 við Stórhöfða yfir það mark.  Hnattrænt er styrkurinn nú um 395 ppm, en mikil árstíðasveifla er milli norður- og suðurhvels.  Talið er að hnattrænt muni styrkurinn ná 400 ppm í kringum árið 2016.

Árstíðasveiflan stafar af því að þegar plöntur vaxa að sumarlagi draga þær CO2 úr loftinu en þegar þær falla á haustin og rotna skila þær CO2 til baka. Ástæða þess að árstíðasveifla CO2 er meiri eftir því sem norðar dregur er einfaldlega sú, að á norðurhveli eru stærri landsvæði með gróðurþekju. Styrkur CO2 á Norðurskatuinu nær því venjulega hámarki á vorin, áður en gróður fer að taka við sér, en er svo í lágmarki á haustin áður en rotnun hefst.

Fyrir iðnbyltinguna var CO2 í kringum 280 ppm og því hefur styrkurinn aukist um sirka 40 %.

*Reyndar er alltaf miðað við síðastliðin 800 þúsund ár eða eins langt aftur og hægt er að mæla CO2 í ískjörnum. Enn lengra er síðan talið að styrkur hafi verið jafn hár og hann er orðinn nú.

Heimildir og ítarefni

NOAA: Carbon dioxide levels reach milestone at Arctic sites

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál