Haparanda – Áskoranir

Borpallar í Norðursjó

Við komuna til Íslands er gott að líta til baka og skoða hvaða áskoranir þarf að athuga í sambandi við olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum í framtíðinni. Þess ber að geta að sjálfsögðu eru þetta mínar persónulegu nótur, en ekki niðurstaða málþingsins sem slík.

Það má segja sem svo að öll hinna frjálsu félagasamtaka (NGO’s) á málþinginu í Haparanda setji einhverskonar spurningamerki við olíu- og gasvinnslu á norðurskautinu. M.a. eru rök um hnattræna hlýnun af mannavöldum nefnd, þar sem að aukin vinnsla olíu og gass á norðurslóðum geti mögulega framlengt þann tíma sem við værum háð kolefniseldsneyti og hugsanlega dregið úr áhuga á rannsóknum á öðrum orkugjöfum sem eru nauðsynlegir til að draga úr hnattrænni hlýnun í framtíðinni. Mengunarhætta var líka ofarlega í huga þátttakenda. Flest félagasamtökin gera ráð fyrir að vinnsla auðlinda á norðurskautinu sé veruleiki sem sé óumflýjanlegur (ekki öll þó) og velja því að reyna að vera með í ráðum varðandi það hvernig vinnslan ætti að fara fram, svo hún verði eins farsæl og hægt er. Það samstarf er því bæði við iðnaðinn og stjórnvöld. Það virðist vera sem ýmsum spurningum sé ósvarað þegar kemur að olíu- og gasvinnslu – til að mynda olíuvinnslu á borpöllum út af ströndum ríkja við norðurskautið. Áður en að vinnslu kemur (ef það er í raun hinn óumflýjanlegi veruleiki), þá þarf að mati margra að takast á við ýmis atriði sem skipta máli.

Hér eru atriði sem ég tel mig geta dregið fram eftir málþingið – Ath. – aðeins er stiklað á stóru hér.

  • Það virðist þurfa að styrkja regluverk í kringum olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum, þannig að hagsmunaaðilar viti betur til hvers er ætlast til af þeim og hvaða rammar gilda um vinnsluna. Eitt af því sem var nefnt varðandi þetta atriði var að mismunandi regluverk eru í gildi og það er t.d. munur á regluverkinu í t.a.m. Noregi og Rússlandi, sem hugsanlega þyrfti að samræma.
  • Það virðist þurfa að koma á öflugu kerfi og áætlunum til að takast á við mengunarslys í sjó, þar sem að aðstæður til björgunar í Norðurhöfum eru ekki góðar í mörgum tilfellum og ekki sjálfgefið að það sé létt að þrífa upp eftir olíuslys langt frá helstu samgönguæðum til hafs og jafnvel á hafsvæði með hafís stóran hluta ársins. Þetta atriði virðist mjög mikilvægt, þar sem að vistkerfi norðurslóða geta verið mjög viðkvæm fyrir mengun. Samræming á milli landa varðandi mengunarslys var líka talið mikilvægt atriði.
  • Loftmengun var nefnd, bæði svokölluð “black carbon” mengun frá bruna á borpöllum og svo losun metans í sambandi við vinnslu, t.d. vegna vinnslu á gasi.
  • Almennt var líka talið að upplýsingar varðandi vistkerfi í norðurhöfum væri ábótavant. Til að mynda þurfi enn meiri upplýsingar um vistkerfin áður en hægt sé að taka ákvörðun um vinnslu og þá hvar. Jafnvel þarf að skilgreina einhver svæði sem lokuð svæði, þ.e. að vinnsla sé ekki leyfileg á skilgreindum svæðum vegna þess að svæðin væru skilgreind sem mikilvæg fyrir vistkerfið og þ.a.l. viðkvæm – m.a. vegna þess hvernig hafstraumar séu.
  • Talið er að stjórnsýslu sé að einhverju marki ábótavant. Til að mynda þyrfti að styrkja stjórnsýslu á milli landa – það er væntanlega einhver munur á stjórnsýslu í Noregi og Rússlandi.

Hitt er svo annað mál að það er væntanlega töluverð gjá á milli frjálsra félagasamtaka og iðnaðarins varðandi hugmyndir um það hversu langt í ferlinu málið er komið og hversu langt sé í að hægt sé að hefja framleiðslu. Þar af leiðandi er væntanlega mögulegt að iðnaðurinn og félagasamtök séu ekki samstíga í því í hvaða takti ber að stíga í þessum málum, jafnvel þó svo að allir væru fullir vilja til samstarfs til að hefja ferlið.

Norðurskautsráðið er vettvangur þar sem svona mál eru tekin upp og það er þar sem frjáls félagasamtök munu m.a. rétta athugasemdum sínum til varðandi hugsanlega olíu- og gasvinnslu á norðslóðum í framtíðinni. Norðurskautsráðið hefur þessi mál væntanlega á dagskrá sinni og munu væntanlega taka á móti ábendingum frá hinum ýmsu hagsmunaaðilum. Hagsmunaaðilar geta verið ólíkir, svo sem frá iðnaðnum, íbúum á norðusskautssvæðinu (sem geta haft ýmsa hagsmuni fyrir brjósti), frjáls félagasamtök, stjórnvöld landanna ásamt fleirum. Það eru því margir ólíkir hagsmunir sem þarf að hafa í huga varðandi vinnslu auðlinda á norðuslóðum og ekki alveg sjálfgefið að takist að samræma þá.

Nýjung, núna er einnig hægt að bæta við ummælum á loftslag.is í gegnum Facebook, sjá hér undir.

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.