Í tilefni af Degi jarðar í dag buðu Náttúruverndarsamtök Íslands og Vísindafélag Íslands, í samstarfi við Breska sendiráðið, til frumsýningar á kvikmyndinni “Thin Ice”. Sýnt var í Bíó Paradís og var myndin heimsfrumsýnd sama dag víða um heim.
Thin Ice er heimildamynd um loftslagsrannsóknir þar sem vísindamönnum sem starfa að slíkum rannsóknum víða um heim – þar á meðal á báðum heimskautum, í Suður-Íshafi, Nýja Sjálandi, Evrópu og Bandaríkjunum – er fylgt eftir við störf þeirra um þriggja ára skeið. Þeir tala af hreinskilni um vinnu sína, vonir og ótta. Þessi nálgun höfunda myndarinnar, sem sjálfir eru vísindamenn, veitir nána innsýn í alþjóðlegt samfélag vísindamanna sem helga sig rannsóknum á loftslagi jarðarinnar. Um leið og veitt er innsýn í heim vísindamanna og fylgst er með þeim brennandi áhuga sem skín úr hverju andliti, þá rekur myndin í raun hversu góð þekkingin er – hvernig við vitum að CO2 er að hækka, hækka af mannavöldum, áhrif þess á hitastig og rakið hvernig hitastig er mælt. Þá er farið yfir framtíðarsýnina og hvernig sveiflur í hitastigi fortíðar benda því miður til hárrar jafnvægissvörunar loftslags (e. climate sensitivity).
Þrátt fyrir slæmar horfur virðast vísindamenn almennt jákvæðir og bjartsýnir á að hægt verði að snúa þessari þróun við. En sjón er sögu ríkari:
Lesa má meira um heimildarmyndina á vefsíðunni Thin Ice
Leave a Reply