Skörum fram úr – höfum þor

Hagvöxturinn, olían og loftslagið

Nú, þegar uppi eru stór áform varðandi leit og hugsanlega vinnslu jarðefnaeldsneytis (olía og gas) á Drekasvæðinu, þá er vert að spyrja nokkura spurninga og velta hlutunum fyrir sér í ljósi vísindalegra upplýsinga um loftslagsvánna sem við búum yfir í dag. Áhrif brennslu jarðefnaeldsneytis á loftslag jarðar núna og í framtíðinni er vandamál sem við þurfum að takast á við – en það virðist viðtekin hugmynd að minnast helst ekki á þann vanda þegar rætt er um mögulegan hagvöxt og framtíðarhorfur með vinnslu jarðefnaeldsneytis úr jörðu. Ráðamenn gefa sér væntanlega, eins og margir aðrir, að framkvæmdir og vinnsla á jarðefnaeldsneyti sem hugsanlega leiða til hagvaxtar til skemmri tíma hljóti í hlutarins eðli að vera eðlilegar. Þ.a.l. hljóti sú vinnsla að verða eitt af því sem mun leiða hagvöxt til framtíðar – alveg sama hver kostnaðurinn er til lengri tíma fyrir mannkynið í heild. Úræðaleysi og úrelt sjónarmið “hagvaxtar” virðast því miður vera útbreidd skoðun varðandi þessi mál. Við sjáum núna að umræðan snýst m.a. um að reyna að greiða veg olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu, þannig að sem flestum hindrunum verði rudd úr vegi og búið verði svo um hnútana að ekki verði hægt að snúa þeim ákvörðunum við síðar. En á það að vera svo – viljum við virkilega greiða þá leið?

Fyrsta spurningin sem kemur í hugann nú, er náttúrulega hversu miklu af jafðefnaeldsneyti má brenna til að við höldum okkur undir 2°C markinu sem þjóðir heims stefna að í dag samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum og hversu langan tíma mun taka að ná því marki? Í stuttu og frekar einfölduðu máli, þá er það talið vera um það bil 1/5 af því jarðefnaeldsneyti sem nú þegar er í bókhaldi olíu-, kola- og gasfyrirtækja heimsins og það mun væntanlega taka innan við 20 ár að brenna því magni [Global Warming’s Terrifying New Math]. 4/5 af jarðefnaeldsneytinu þarf því að vera í jörðinni áfram ef við eigum að hafa raunhæfan möguleika á árangri. Eins og staðan er í dag, bendir s.s. allt til þess að það verði strembið að halda okkur innan tveggja gráðanna sem almennt er talið að þurfi til að hnattræn hlýnun verði ekki of mikil. Núverandi spár gera flestar ráð fyrir um 2-4°C (jafnvel meira) fyrir næstu aldamót (svo ekki sé litið lengra fram í tímann eða aðrir þættir skoðaðir, eins og t.a.m. súrnun sjávar sem ekki bætir stöðuna). Hækkun hitastigs um 2-4°C myndi valda töluverðum vandræðum fyrir komandi kynslóðir og það má halda því fram að sú Jörð sem komandi kynslóðir erfa sé ekki lík þeirri sem við tókum við. Það má kannski líta svo á að við fremjum mannréttindabrot við ókomnar kynslóðir með því að skilja Jörðina þannig eftir okkur að við rýrum lífskjör og gerum lífið erfiðara í framtíðinni. Þá kemur náttúrulega að samviskuspurningunni hvort að við viljum hafa það á samviskunni?

olia_heimurNæsta spurning sem gæti kviknað er hvaða áhættu erum við að taka með því að bæta í brennanlegan forða jarðaefnaeldsneytis? Það er talið nokkuð ljóst að hitastig mun hækka um margar gráður ef ekkert verður að gert og þó svo aðeins sá forði sem nú er í bókum olíu-, gas- og kolafélaga yrði brennt, þá er áhættan á talsverðum loftslagsbreytingum talsverð – svo ekki sé talað um hugsanlega ófundnar lindir, sem við Íslendingar virðumst vilja taka þátt í að nýta til fulls. Áhættan er því veruleg og það er óðs manns æði að ætla sér að kreista jörðina um allt það jarðefnaeldsneyti sem til er – sérstaklega í ljósi þess að við höfum þegar 400% meira í bókhaldinu en þykir rétt að brenna – samkvæmt alþjóðlegum samþykktum þjóða heims!

Hvað ætlar litla Ísland sér í loftslagsmálunum? Ætlum við að taka þátt í að kreista síðasta dropa jarðefnaeldsneytis úr jörðu eða viljum við sýna þor og dug? Það virðist vera útbreidd skoðun að nýting jarðefnaeldsneytisforðans sem hugsanlega leynist á Drekasvæðinu sé hið besta mál – þrátt fyrir að viðvörunarljós blikki og öll rök hnígi að því að við þurfum að leita annarra leiða en gjörnýtingu jarðefnaeldsneytis í framtíðinni. Erum við upplýst þjóð? Höfum við vilja til að sýna dug og þor eða ætlum við að vera ofurseld úreltu hugarfari skyndi „hagvaxtar”?

Höfum þor – skörum fram úr – veljum einu réttu leiðina og hættum við allar hugmyndir um olíu- og gasvinnslu á Íslandi í dag – þó svo það sé veik von margra að með henni getum við viðhaldið hagvexti til framtíðar eftir hinar efnahagslegu hamfarir sem við höfum upplifað. Reyndar ber að geta þess að litla Ísland er í dag (eftir hrunið) númer 28 í heiminum ef tekið er tillit til vergrar landsframleiðslu á mann (heimild: CIA Factbook). Ekki er sjálfgefið að hagvöxtur verði að aukast umfram aðra til að Ísland standi á eigin fótum eða að það muni þýða eymd og volæði fyrir landann ef þessi „auðlind“ jarðefnaeldsneytis verði ekki nýtt (“auðlind” sem ekki er enn í hendi).

Sendum merki um áræðni og þor – hættum að ásælast jörðina sem afkomendur okkar eiga að erfa. Það yrði mikilvægt merki til allra þjóða ef hið litla Ísland, sem nýlega er búið að upplifa hrun fjármálakerfisins, hefði þor og dug til að sýna fordæmi í þessum málum. Segjum því nei við gas- og olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Persónulega er ég á engan hátt á móti heilbrigðum hagvexti eða alvöru framförum – þvert á móti. En brennsla á gasi og olíu er vart merki um heilbrigða þróun mála eða til merkis um framfarir eins og mál standa. Þar af leiðandi er eina vitið fyrir framtíð okkar að við geymum jarðefnaeldsneytið þar sem það er, enn um sinn. Brennsla jarðefnaeldsneytir er að verða gamaldags og er eitthvað sem við ættum ekki að ýta undir í framþróuðum, upplýstum nútíma samfélögum, sérstaklega í ljósi þess að afleiðingar brennslu jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda eru vel kunnar. Það virðist ekki vera til hið pólitíska afl hér á landi sem hefur þor og/eða vilja til að taka beina afstöðu á móti vinnslu jarðefnaeldsneytis á íslenska landgrunninu eða hvað þá að telja þá hugmynd vafasama – samanber núverandi hugmyndir stjórnvald varðandi olíuleit á Drekasvæðinu. Það þarf hugrekki til að spyrna við slíkum hugmyndum og taka ákvarðanir sem gætu jafnvel (þótt slíkt sé ekki sjálfgefið) hægt á hagvexti til skamms tíma. Það eigum við þó að sýna og segja nei við gamaldags hagvaxtarhugmyndum um vinnslu jarðefnaeldsneytis.

Í ljósi þess að það er ekki í samræmi við niðurstöður vísindamanna um loftslagsvánna að halda áfram að brenna eldsneyti hugsunarlaust, þá eigum við Íslendingar að hafa þor til að skara fram úr á alþjóða vettvangi með því að segja nei við olíu- og gasvinnslu á Íslandsmiðum og þá um leið já við sjálfbærri nýtingu sjálfbærrar orku. Sjálfbær vinnsla orku hefur sína kosti og galla, en brennsla á olíu og gasi hafa nánast bara galla fyrir jarðarbúa í heild – það er því versti kostur sem við getum nýtt okkur – þó svo það ýti hugsanlega undir hagvöxt til skamms tíma. Hitt er svo annað mál að það gæti verið að seinni kynslóðir geti séð kosti við að hafa aðgang að ónýttum olíu- og gaslindum – þegar þar að kemur að við nýtum það ekki til brennslu, heldur sem dýra og eftirsótta afurð í allskyns framleiðsluvörur.

Horfum fram á veginn og sýnum það þor og þann dug að hafa aðra skoðun en þá viðteknu. Sem upplýst þjóð eigum við að vera í forsvari breytinga, en ekki fylgja í blindni gamaldags hugmyndum um „hagvöxt“ til skamms tíma – hagvöxt sem verður væntanlega þeim dýrkeyptur sem erfa munu jörðina eftir okkar dag – Segjum því nei við vinnslu jarðefnaeldsneytis á Íslandsmiðum.

[Edit 9:42, 19.9.2013 – smávægileg orðalagsbreyting]

Tengt efni á loftslag.is:

Annað tengt efni:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.