Frétt: Jarðvísindamenn senda hvatningu til Kaupmannahafnar

Ráðstefna um bindingu koldíoxíðs í jarðlögum

Jarðvísindamenn sem voru á 2ja daga ráðstefnu hér á landi um bindingu koldíoxíðs í jarðlögum, sendu hvatningu á ráðstefnu um loftslagsmál í Kaupmannahöfn. Ráðstefnuna munu helstu leiðtogar heims sitja og ræða loftslagsmál og lausnir þar að lútandi. Jarðvísindamennirnir sem sátu ráðstefnuna hér á landi vilja að lagt verði meiri áhersla á að fjarlægja og binda kolefni í jarðlögum, sem mótvægisaðgerð við hlýnun jarðar. Vísindamennirnir telja að þetta eigi að vera ein þeirra leiða sem farin verður til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar.

„Við erum í vandræðum með CO2,“ sagði Wallace Broecker, sérfræðingur í loftslagsmálum við Columbia Háskóla í Bandaríkjunum. „Það er mun ódýrara að mæta þeim vandræðum nú en láta þau reka á reiðanum og mæta afleiðingum hlýnunar jarðar síðar“.

CarbFix

Rannsóknarverkefni sem miða að því að fanga kolefni voru kynnt á ráðstefnunni. CarbFix verkefnið sem er íslenskt rannsóknarverkefni sem OR hefur tekið þátt í var kynnt sérstaklega. CarbFix verkefnið kannar möguleika á því að binda CO2 sem karbónasteind í basalti. Talið er að möguleikar CarbFix felist m.a. í þvi að hraða náttúrulegu ferli kolefnisbindingar með því að binda kolefnið sem steind í jarðlögum.

Nú þegar hafa verið þróðar nokkrar leiðir til að geyma kolefni. M.a. hefur olíurisinn Statoil Hydro gert tilraunir og dælt meira en 11 milljón tonnum af CO2 djúpt undir Norðursjó síðan 1996. Tore Torp sérfræðingu Statoil Hydro kynnti m.a. þessar aðferðir á ráðstefnunni.

Ein af þeim aðferðum sem mikið hefur verið litið til, er sú að fanga útblástur CO2 t.d. beint frá orkuverum sem brenna jarðefnaeldsneyti. Á ráðstefnunni voru ræddir fleiri möguleikar. M.a. notkun gervi trjáa sem draga í  sig kolefni úr andrúmsloftinu. Það má því segja að það séu margar aðferðir í skoðun varðandi það að fanga CO2 úr andrúmsloftinu.

Talið er að kostnaðurinn sem hlýst af hlýnun jarðar muni verða meiri eftir því sem lengra líður án aðgerða. Það þarf því að hvetja ráðamenn til að auka fjárveitingar í kolefnisbindingar. Þetta er m.a. það sem fram kom í máli Wallace Broecker í erindi á ráðstefnunni.

hellisheidi

Frá Hellisheiðarvirkjun

CarbFix verkefnið er að kanna hvort hægt sé að draga úr losun CO2 beint frá uppsprettum CO2, eins og t.d. frá Hellisheiðarvirkjun. Kolefninu væri því dælt niður í jarðlögin sem kolsýrðu vatni, t.d. niður í hraunlögin á Hellisheiði. Efnahvörf við málmjónir í basaltberginu mun eiga sér stað sem með tímanum myndast karbónasteindir. Þetta er náttúrulegt ferli sem með aðferðum þeim sem notaðar eru í CarbFix verkefninu verður hraðað. Grannt er fylgst með þessum tilraunum hér á landi víða um heim, þar sem hún miðar að því að binda CO2 með varanlegri hætti en gerlegt hefur verið hingað til.

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.