Hvert er hlutverk stjórnmálamanna? Hvernig viljum við að stjórnmálamenn meti upplýsingar varðandi vandamál sem eru til staðar og þá t.d. hvers má ætlast til af þeim þegar kemur að loftslagsvandanum? Loftslagsvandinn er vel skjalfestur og það virðist ljóst að það þurfi að taka á honum af mikilli festu á næstu árum og áratugum – hvað sem líður flokkspólitík og persónulegum skoðunum. Ríki heims hafa m.a. skrifað undir yfirlýsingar þess efnis að það þurfi að halda hlýnun jarðar innan 2°C.
Það er því umhugsunarvert þegar hlýnun jarðar er nefnd í ræðustól Alþingis, að þá er talað um að breytingar á loftslagi muni væntanlega hafa í för með sér mjög jákvæð tækifæri fyrir Íslendinga. Það er líka umhugsunarvert að þegar hlýnun jarðar er nefnd, þá eru stundum látnar fylgja óljósar tilvísanir í vafasamar fréttir sem virðast t.d. koma frá Pressunni (og eiga uppruna sinn í enn vafasamari heimildir af Daily Mail) um að ekki sé allt sem sýnist í loftslagsvísindunum (“en það er önnur saga” – Haraldur Einarsson, tilvísun í myndbandið). Þessi tækifæri virðast svo mikil að það tekur því ekki að nefna neikvæðar hliðar þess eða lausnir á vandanum sem er þó vel skjalfestur. Það er talað um nýja fiskistofna eins og þeir séu nú þegar í hendi og valdi litlum sem engum vandkvæðum fyrir núverandi vistkerfi og fiskistofna. Það má sjálfsagt búast við því að það séu tækifæri í stöðunni þegar hlýnun jarðar heldur áfram, en að hundsa vandann með tali um langsótt tækifæri er ekki rétta leiðin fram á við. Það þarf að ræða afleiðingar súrnunar sjávar fyrir sjávarútveg á Íslandi og það þarf að ræða lausnir á þeim vanda – svo eitthvað sé nefnt.
Það sem við ættum að heyra frá stjórnmálamönnum er hvernig við getum tekið á vandanum og verið leiðandi í þeim efnum, t.d. með aukinni notkun sjálfbærar orku (og það skiptir líka máli í hvað orkan er notuð – svo því sé haldið til haga) ásamt setningu markmiða um að minnka notkun jarðefnaeldsneytis hér og nú (vinnsla olíu og gass heyrir ekki undir þann hatt). Það eru tækifæri í stöðunni, t.a.m. að vera leiðandi á vettvangi lausna og sýna þar með gott fordæmi meðal þjóða heims. Tal um nýja fiskistofna og óljós tækifæri minnir helst á álfasögur – tækifærin liggja í að vera leiðandi í að finna lausnir og þar með setja lausnirnar á dagsskrá til framtíðar. Kannski er það ekki líklegt til vinsælda að vilja nefna þessi mál eða kannski skortir stjórnmálamenn almennt þor til að taka á vandamálum sem ná yfir lengri tíma en einstök kjörtímabil og velja því að setja fram valkvæma óskhyggju, í stað raunverulegra lausna miðaðrar umræðu! Hér má sjá dæmi um umræðu um hlýnun jarðar á Alþingi – gefum Haraldi Einarssyni, þingmanni Framsóknarflokksins á Suðurlandi orðið þar sem hann ræðir um tækifærin og loftslagsmálin (með innskoti um að ekki sé allt sem sýnist í þessum efnum – ætli heimildin sé Pressufréttin?):
Hér undir má sjá fróðlegt myndband frá Greenman3610 (Peter Sinclair) sem hæfir hugsanlega líka þessari umræðu. Myndbandið nefnist; “Welcome to the Rest of Our Lives” – þarna er m.a. komið inn á þær breytingar sem þegar eru komnar fram og hvað gæti búið í framtíðinni:
Tengt efni á loftslag.is:
- Skörum fram úr – höfum þor
- Útbreiðsla fiskitegunda breytist við hlýnun sjávar
- Mælingar staðfesta kenninguna
- Afleiðingar
- Loftslag framtíðar
- Súrnun sjávar og lífríki hafsins I
Og litla Ísland á að fórna sér fyrir fjöldann og bjarga heiminum frá loftslagsvá?
Þess í stað eigum við að taka á okkur kaldara loftslag með löngum, köldum og snjóþungum vetrum, og stuttum svölum, vætusömum og sólarlitlum sumrum.
Mér sýnist þetta nú þegar vera að fara að ganga eftir.
Það er engin tilviljum að þrír síðustu mánuðir (ágúst, september og október) hafa verið töluvert undir meðallagi í hita.
Og nóvember ætlar einnig að verða undir meðallagi hvað hitafar snertir.
Á sama tíma hefur ýmsir aðilar úti í heimi verið að benda á, að loftslag hafi einungis hlýnað um 0,2 gráður síðan 1950, þannig að engin ógnvekjandi hlýnun virðist hafa átt sér stað þrátt fyrir dómsdagsspár um annað.
Sæll Eggert
Það er ekkert skeptískt við það að halda fram rangfærslum Eggert – hið rétta er að síðustu mánuðir hafa verið rétt undir meðallagi í Reykjavik – fyrstu tíu mánuðir ársins eru að meðaltali rétt undir meðallagi áranna 1961-1990 á landsvísu. Það er ekkert athugavert við það í sjálfu sér að hitastig hér á Fróni sveiflist staðbundið. Það segir okkur ekkert um hitafar á heimsvísu.
Það hefur engin haldið því fram að litla Ísland eigi að fórna sér fyrir fjöldann – það er líka rangfærsla hjá þér Eggert. En við erum að sjálfsögðu hluti af þjóðum í heiminum og þ.a.l. ekki laus mála varðandi vandamál sem ná út fyrir landamæri ríkja í heiminum.