Blogg: Í tilefni opnunar Loftslag.is

LógóHugmyndin að þessum vettvangi fyrir umræður um loftslagsmál kviknaði eitthvert skiptið þegar ég var að skoða ýmsar bloggsíður hér á landi sem oft fjalla um loftslagsmál. Það eru ýmsar upplýsingar til staðar hér og þar á íslensku er varða loftslagsmál, bæði á blogginu og á vefsíðum eins og t.d. hjá Veðurstofunni, á vef Kolviðarverkefnisins og hjá Umhverfisstofnun svo einhver dæmi séu nefnd til sögunnar. Vefsvæðin sem taka þessi mál fyrir eru þó ekki mjög lifandi vefsvæði um það er varðar loftslagsmál, heldur er um að ræða upplýsingar sem liggja á undirsíðum þeirra. Mér fannst vanta meira lifandi vef varðandi þessi mál, einhverskonar síða sem samtvinna kosti bloggsins og heimasíðunnar. Ég áttaði mig á að þeir sérfræðingar sem vinna á opinberum stofnunum geta ekki, nema að litlu leiti, staðið í því að standa í opinberum umræðum á vefsíðum og annars staðar. Þar af leiðandi datt mér í hug að það færi betur á því að áhugamenn um efnið tækju sig saman um að standa í þessari vinnu og þeirri umræðu sem því fylgir. Ég vil samt sem áður hvetja sérfræðinga sem og aðra til að leggja orð í belg hér á þessum síðum.

Í gegnum skrif mín og með því að fylgjast með umræðu um loftslagsmál á Moggablogginu, tók ég eftir því að einn aðili var ansi duglegur að skoða ýmsar mýtur varðandi loftslagsmál. Hann skrifaði af þekkingu og af miklum áhuga um efnið. Einnig tók hann líkt og ég sjálfur þátt í ýmiskonar umræðu á ýmsum bloggsíðum og reyndumst við vera sammála um margt í þessum efnum. Þ.a.l. þegar hugmyndinni skaut niður í kollinum á mér, um einhverskonar umræðu- og upplýsingavettvang fyrir loftslagsmál, þá setti ég mig í samband við þann aðila. Hann er nú með mér í ritstjórn á þessu ágæta vefsetri og heitir Höskuldur Búi Jónsson. Höskuldur er áhugamaður um málefnið eins og ég sjálfur, en býr þó að jarðfræðimenntun sem gerir hann ágætlega hæfan til að setja fram ýmis hugtök og skoða kenninguna með augum þess sem þekkir til. Mín eigin þekking er aðeins takmarkaðari, en ég hef lagt á mig að skoða ýmislegt varðandi loftslagsmál á undanförnum árum. Tel ég nú að þekking mín sé orðin ágæt, sérstaklega eftir því sem ég hef kynnt mér málin betur.

Um leið og ég hafði samband við Höskuld, sýndi hann þessu mikinn áhuga. Við ákváðum því að hittast og sjá hvort að við hefðum möguleika á því að vinna saman. Það reyndist okkur tiltölulega auðvelt að taka ákvörðunina um að leggjast í þessa vinnu og hefur samstarfið gengið með miklum ágætum. Hugmyndir hafa flogið á milli, 29. júlí til opnunarinnar eru tölvupóstarnir okkar á milli orðnir á 3ja hundrað og nú er síðan svo orðin að veruleika. Vonast ég til að við getum unnið farsællega að uppbyggingu og þróun þessarar vefsíðu í framtíðinni. Ég vil þakka Höskuldi sérstaklega fyrir þægileg viðkynni og einnig þeim sem hafa lagt hönd á plóginn ásamt þeim gestapistlahöfundum þeim sem hafa samþykkt að skrifa pistla á þessar síður, það munu vafalaust bætast aðeins fleiri við í framtíðinni.

Ég sé það fyrir mér að þessi vefur getið orðið miðpunktur upplýsinga um loftslagsmál, þar sem umræður fara fram. Þetta á að vera vettvangur þar sem lesendur þvert á fagsvið geta tekið þátt í umræðum um þessi mál á opin og málefnalegan hátt.

Athugasemdir

ummæli

Tags:

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.