Framtíðarhlýnun hærri en áður talið: 4°C möguleg fyrir 2100

skyjasvorunJafnvægissvörun loftslags (e. climate sensitivity) er hugtak sem vísar í þá hnattrænu hlýnun sem verður við tvöföldun á styrk CO2 í andrúmslofti jarðar. Það hefur reynst torsótt að finna rétta tölu fyrir jafnvægissvörunina, líklega mest vegna þess að það kemur betur og betur í ljós að hún er ekki ein eiginleg tala, heldur mismunandi tala eftir því hvert ástand jarðarinnar er hverja stund (Armour o.fl. 2012 og Meraner o.fl. 2013).

Skýrsla IPCC frá 2013 (AR5) birti samantekt ritrýndra greina um jafnvægissvörun loftslags og var niðurstaðan sú að líklegt gildi hennar(með meira en 66% líkum) væri á milli 1,5-4,5°C (fyrir tvöföldun á styrk CO2 í andrúmsloftinu). Það mat var lægra en það sem kom út úr síðustu samantekt IPCC (AR4), vegna þess að sumar rannsóknir sem meta saman loftslagslíkön og mælingar, benda til að jafnvægissvörun loftslags sé lægri (sjá t.d.Otto o.fl. 2013 sem dæmi).

Nú nýverið birtist ný grein, Sherwood (2014), sem bendir til þess að sú jafnvægissvörun loftslags sem skiptir máli í dag, sé meiri en 3°C – eða nær hærri mörkum þess bils sem kom út úr samantekt IPCC. Loftslagslíkön sýna hátt bil jafnvægissvörunar loftslags og felst stærsti munurinn í því hvernig líkönin takast á við skýjamyndun (e. cloud feedback). Í stuttu máli: aukning í skýjahulu vegna hnattrænnar hlýnunnar myndi valda dempandi svörun (e. negative feedback) – þ.e. skýin myndu endurgeisla meira af sólarljósi út í geim og þar með kæla jörðina. Aftur á móti myndi minnkandi skýjahula verka sem magnandi svörun (e. positive feedback) – þ.e. að meira af sólarljósi myndi ná yfirborði jarðar og auka á hlýnunina.

Höfundar fyrrnefndrar greinar (Sherwood o.fl. 2014) skoðuðu hvernig mismunandi loftslagslíkön tókust á við svörun vegna skýja og kom í ljós að líkön með lága jafnvægissvörun loftslags voru í mótsögn við athuganir. Það kom í ljós að í þeim var reiknað með því að vatnsgufa drægist hærra upp í lofthjúpinn við hækkandi hita. Í raun (samkvæmt athugunum), þá hefur hlýnun í neðri hluta lofthjúpsins þau áhrif að vatnsgufa dregst neðar og minna verður um háskýjamyndanir. Minnkandi skýjahula í háloftunum veldur svo aukinni hlýnun (magnandi svörun).

Það skal tekið fram að þetta er aðeins ein grein og fjallar aðeins um einn þátt jafnvægissvörunar og pottþétt ekki síðasta greinin þar um. Þessi grein Sherwood o.fl (2014) er þó í samræmi við aðra nýlega ritrýnda grein (Fasullo & Trenberth 2012), en þeir fundu út að aðeins þau loftslagslíkön með háa jafnvægissvörun náðu að líkja eftir minnkandi vatnsgufu á lykilstöðum lofthjúpsins.

Einn höfunda, Steve Sherwood ræðir þessa grein í myndbandinu hér fyrir neðan. Ef rétt, þá sýnir þessi grein að áframhaldandi losun á jarðefnaeldsneyti getur leitt til þess að hnattrænn hiti geti verið búinn að hækka um 4°C um 2100 – sem myndi svo sannarlega ógna samfélagi manna og lífríki jarðar í heild.

 

Heimildir og ítarefni

Hér er um að ræða þýðingu á færslu sem birtist á Skeptical Science – New Study Suggests Future Global Warming at the Higher End of Estimates: 4°C Possible by 2100

Spread in model climate sensitivity traced to atmospheric convective mixing – Sherwood o.fl. 2014

Time-varying climate sensitivity from regional feedbacks – Armour o.fl. 2012

Robust increase in equilibrium climate sensitivity under global warming – Meraner o.fl.  2013

Energy budget constraints on climate response – Otto o.fl. (2013)

A Less Cloudy Future: The Role of Subtropical Subsidence in Climate Sensitivity – Fasullo og Trenberth 2012,

Myndband frá Peter Sinclair hjá Climate Denial Crock of the Week

Skýrsla IPCC frá 2013: AR5

 

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál