Fjárlosun, olíuvinnsla og loftslagsmál

Í þessari færslu ætla ég að reyna að svara því hvað fjárlosun (e. divestment) er og hvað það hefur með loftslagsmálin og vinnslu jarðefnaeldsneytis að gera? Fyrst er gott að líta á hvað fjárlosun er og hvernig það hefur verið notað áður?

divestforourfuture

Fjárlosun er í raun andstæða fjárfestinga. Það má segja að fjárlosun sé m.a. það ferli að selja eignir, t.d. hlutabréf, fyrirtæki og/eða tæki til þess m.a. að losa fjármuni. Fjárlosun getur t.d. verið notuð til að ná fjárhagslegum og/eða félagslegum markmiðum sem geta m.a. verið vegna breytinga í því umhverfi sem unnið er í.

Þegar einhver fjárfestir, þá eru settir peningar í viðkomandi fjárfestingu. Sú fjárfesting á helst að skila arði á meðan á fjárfestingunni stendur, þó á því geti verið alls kyns undantekningar. Fyrirtæki hafa stundum notað fjárlosun til að losa sig við einingar innan fyrirtækja sem skila fyrirtækinu ekki tilsettum ávinningi, hvort sem það er vegna breytinga í tekjuflæði eða vegna þess að sú eining er ekki lengur í samræmi við áherslu fyrirtækisins til framtíðar, svo dæmi séu tekin. Áherslubreytingar fyrirtækja geta verið af mörgum toga, m.a. breyttar áherslur í framleiðslu og/eða þjónustu, breyttum áherslum vegna breytinga í þjóðfélaginu sem gæti t.d. verið vegna umhverfismeðvitundar, svo dæmi sé tekið. Fjárlosun gengur því m.a. út á að losa fjármagn með því að hætta fjárfestingum í einingum fyrirtækja, fyrirtækjaheildum, tegundum iðnaðar o.s.frv.

Sjóðir, eins og t.d. lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestingarsjóðir, fjárfesta í allskyns fyrirtækjum og hlutabréfum til að fá framtíðartekjur fyrir viðkomandi sjóð. Fyrirtæki, bankar, lífeyrissjóðir og sumstaðar (t.d. í Bandaríkjunum) háskólar eru með stóra fjárfestingasjóði sem fjárfesta í ólíkum fjárfestingakostum. Fjárfestingarkostirnir eru oft svipaðir á milli sjóða og er oft keypt í mörgum fyrirtækjum og/eða greinum til að draga úr áhættu. Stundum eru fjárfestingaráætlanir á þann veg að keypt er í eignasöfn sjóðanna á fyrirfram ákveðin hátt í ákveðnum hlutföllum á milli greina (yfirleitt er eitthvað svigrúm til að ákveða hlutföllin). Almenningur sem fjárfestir í fjárfestingasjóðum hefur oft ekki nægilega innsýn í það hvernig samsetning eignasafnsins er nákvæmlega. Hitt er þó líklegt að þrýstingur frá almennum fjárfestum gæti hugsanlega haft áhrif á fjárfestingastefnu sjóðanna. En þá þarf hinn almenni fjárfestir að sjálfsögðu að vera meðvitaður um hvað er í boði og þeim markmiðum sem hann vill ná í sinni fjárfestingu – m.a. fjárhagslegum og félagslegum.

Gott dæmi um fjárlosun í sögulegu samhengi var þegar hvatt var til sölu fjárfestingakosta í Suður-Afríku sem var hluti af því að þrýsta á félagslegar breytingar í Suður-Afríku til hafa áhrif til að binda endi á apartheid. Þar var fjárlosun notuð í félagslegum tilgangi til að ýta undir breytingar í suður-afrísku þjóðfélagi. Það má færa fyrir því rök að sú fjárlosun hafi haft jákvæð áhrif á þær félagslegu breytingar sem þar urðu. Einnig hefur fjárlosun verið notuð að einhverju leiti innan t.d. tóbaks- og vopnaiðnaðiðarins – væntanlega einnig í félagslegum tilgangi.

fossilfreeUm þessar mundir er byrjað að þrýsta á fjárfestingasjóði í BNA til að fá þá til að selja í fyrirtækjum sem vinna við vinnslu jarðefnaeldsneytis (olía, kol og gas). Sá þrýstingur er dæmi um félagslegar breytingar og breyttar áherslur vegna umhverfisáhrifa sem eru af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Umhverfisáhrif af auknum gróðurhúsaáhrifum eru m.a. hækkandi hitastig í heiminum og breytingar á loftslagi jarðar af þeim völdum. Það eru margar ólíkar afleiðingar af auknum gróðurhúsaáhrifum, m.a. hækkandi sjávarborð, bráðnun hafíss og jökla, súrnun sjávar og ýmsar ófyrirsjáanlegar breytingar í veðurfari, svo eitthvað sé tiltekið. Það má færa fyrir því rök að fjárfestingarsjóðir, fyrirtæki og einstaklingar geti haft áhrif í þá átt að losa fé úr fyrirtækjum sem stunda framleiðslu sem ekki fer vel með umhverfið almennt enda má segja að almennir hagsmunir hljóti að vera meiri en núverandi hagsmunir fyrirtækja sem fá gríðarlegan arð á því að selja vöru sem hefur svo víðtæk áhrif á umhverfið eins og brennsla jarðefnaeldsneytis er.

En það eru í raun fleiri rök fyrir því að losa fjármuni úr jarðefnaiðnaðinum. Til að mynda þá er það jarðefnaeldsneyti sem er í bókhaldi fyrirtækja í þessari grein miklu meira en talið er öruggt að brenna í framtíðinni. Það er sennilega á bilinu 3svar til 5 sinnum meira jarðefnaeldsneyti í jarðefnabókhaldi fyrirtækja en talið er að hægt sé að vinna og brenna til að halda sig undir 2°C takmarkinu sem þjóðir heims hafa samþykkt (enn sem komið er án skuldbindinga) að halda hlýnun jarðar undir. Þess má einnig geta að tveggja gráðu markmiðið er pólitískt markmið og það hefur i raun ekki verið sýnt fram á að það sé “örrugt” að setja það svo hátt. Út frá þessum vangaveltum, má því færa fyrir því rök að það sé bóla í bókhald olíufyrirtækja sem ekki sér fyrir endann á. En hvernig lýsir sú bóla sér?

Bólunni má lýsa þannig að virði fyrirtækja í olíu-, gas- og kolaiðnaðinum sé metið út frá mögulegum framtíðarvæntingum um tekjur og arð fyrirtækjanna, miðað við þá framleiðslu sem gert er ráð fyrir að fyrirtækin muni hafa í framtíðinni af því jarðefnaeldsneyti sem er í bókhaldi fyrirtækjanna í dag. Ef þjóðir heims taka loftslagsvandann alvarlega, þá verður ekki hægt að  vinna allt það jarðefnaeldsneyti sem er í bókhaldi fyrirtækjanna úr jörðu, sem getur haft veruleg áhrif á framtíðartekjur þeirra. Ef framtíðar framleiðsla þessara fyrirtækja er einungis fimmtungur til þriðjungur af því sem gert er ráð fyrir í dag (jafnvel þó hlutfallið væri hærra), þá hefur það væntanlega áhrif á tekjur þeirra og þar með virði til lengri tíma. Af þessum völdum einum saman ættu fjárfestar í raun að íhuga alvarlega fjárfestingar sínar í þessum iðnaði til framtíðar. Það er þó alls óvíst að arðurinn minnki til skemmri tíma, en þó er líklegt að sú staðreynd að ekki er hægt að selja þær birgðir sem eru í bókhaldinu (enn í jörðu) muni hafa áhrif á virði fyrirtækjana til lengri tíma litið. Verð vörunnar hefur að sjálfsögðu áhrif á virði fyrirtækjanna, en í heimi þar sem sjálfbær orka, eins og t.d. vind- og sólarorka fara lækkandi frá ári til árs, þá er erfitt að færa rök fyrir því að olíuverð haldist nægjanlega hátt til lengri tíma til að það bæti upp skerta möguleika til vinnslu jarðefnaeldsneytis.

bubble

Hversu langur tími kann að líða þar til bólan springur er erfitt að segja til um, en væntanlega þurfa fjárfestar að átta sig á þessu á næsta áratug eða svo. En hversu langur sem tíminn verður, mun væntanlega koma að þeim tímapunkti að markaðurinn mun átta sig á bólunni. Þegar þar að kemur, þá er hugsanlegt að fjárfestar færi fjármagn sitt í aðra geira orkuiðnaðarins sem eru meira sjálfbærir til framtíðar – það er af nógu að taka og væntanlega vöxtur framundan til handa þeim sem koma snemma inn í þann geira.

En hvað sem líður fjárlosun í dag, þá er verður að teljast líklegt að fjárfestar framtíðarinnar muni á einhverjum tímapunkti átta sig á þeirri bólu sem virðist vera í virði fyrirtækja í jarðefnageiranum. Því fyrr sem það gerist, því betra fyrir umhverfið. Hvort að þetta muni hafa áhrif á olíuvinnslu á Íslandsmiðum skal látið ósagt, en ekki er þó ólíklegt að breytingar verði í umhverfi þessa iðnaðar sem gæti haft áhrif á virði og arð fyrirtækja í geiranum. Allt er breytingum háð og breytingar geta orðið á skömmum tíma, t.d. fjárlosun vegna bólumyndunar og/eða vegna þrýsings af félagslegum ástæðum vegna umhverfisáhrifa. Gott er fyrir fjárfesta og stjórnmálamenn að hafa þetta í huga áður en stórkostlegar fjárfestingar verða gerðar í geira sem framleiðir vöru sem ekki er sjálfbær, né umhverfisvæn. Það er ekki víst að aðeins erlendir fjárfestar taki áhættu ef gerðar verðar miklar fjárfestingar á innviðum í landinu vegna hugsanlegrar olíuvinnslu á Íslandsmiðum. Olíuvinnsla er iðnaður sem er í anda 19. aldar hugsunar og ekki rökrétt að fara í stórkostlegar fjárfestingar á innviðum landsins til að styðja við þess háttar iðnað til lengri tíma.

Helstu heimildir:

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.