Blogg: Opnist gáttir allar

global-jan-dec-error-bar-pgÉg tók upp á því fyrir nokkrum mánuðum, að skipta mér af umræðu um loftslagsbreytingar og þá sérstaklega hlýnun jarðar af mannavöldum, ekki af því að ég hafði svo mikið vit á því heldur meira af því að ég tók eftir svo mörgum rangfærslum þegar ég var að skoða ýmislegt sem skrifað var um loftslagsbreytingar – bæði í fréttum og bloggum.

Því tók ég mig til og opnaði blogg um málið (sem er dálítið 2007 eitthvað). Ég dundaði mig við það að skrifa svör við ýmsum rökum og fór yfir það, af hverju þessi rök voru röng. Einhver afrakstur af þeim skrifum má sjá á síðunni Mýtur.

Það var því ekki spurning þegar Sveinn Atli hafði samband við mig, um að við ættum að gera heimasíðu tileinkaða loftslagsmálum og undanfarnar vikur hafa öll kvöld og helgar verið undirlögð í að skrifa og endurskrifa hitt og þetta um loftslagsmál, það má eiginlega segja að við séum sífellt að læra eitthvað nýtt – bæði í vefsíðugerð og varðandi loftslagsmál og við viljum endilega að síðan verði sem best og forvitnilegust fyrir lesendur. Því er um að gera að koma með athugasemdir þar sem það á við, um hvað megi betur fara og sérstaklega ef að staðreyndir og ályktanir okkar stangast á við ykkar skilning.Afleidingar copy

Mér persónulega finnst þetta málefni langmikilvægast allra þeirra málefna sem maðurinn hefur staðið frammi fyrir (eða allt frá því forverar mannsins ákváðu að nú væri ráð að stökkva niður úr trénu). Loftslagsbreytingar hafa og munu alla tíð skipta manninn gríðarlega miklu máli, sem og aðrar dýrategundir – því er það ljóst að ef spár ganga eftir um þær gríðarlegu loftslagsbreytingar sem eru í farvatninu og áhrif sem verða af þeim, að allflest sem við þekkjum í dag mun umbyltast. Það er varla hægt að sjá fyrir hversu slæmt það getur orðið fyrir mannkynið og sérstaklega næstu kynslóðir sem koma á eftir okkar.

Athugasemdir

ummæli

Tags:

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál