Byrjum þessa færslu á algerri endurtekningu frá síðasta ári.
“Enn og aftur er komið að því að skoða árið sem var að líða með fókus á hitastig í heiminum. Það virðist vera orðið venja að það ár sem er nýliðið í hvert og eitt skiptið sé meðal 10 heitustu ára frá upphafi og á því varð engin breyting í ár” [2013 – enn eitt hlýtt ár og hnatthitaspámeistari ársins]. 2014 var hlýjasta ár frá upphafi mælinga í gagnasafni NASA GISS og endaði árið með hitafráviki upp á +0,68°C og einnig í gagnasafni NOAA, en þar endaði árið með hitafráviki upp á +0,69°C.
Janúar 2015
Nýjustu tölur um hitafrávik í byrjun árs 2015 eru komnar í hús og er hitafrávikið 0,75°C í gagnaröð NASA GISS og 0,77°C hjá NOAA. Í báðum tilfellum var mánuðurinn í öðru sæti yfir hlýjustu janúarmánuði frá upphafi mælinga.
Hnatthitaspámeistarinn 2014
Undanfarin ár höfum við á loftslag.is verið með smá leik á upphafi árs þar sem er spáð fyrir um komandi ár. Spáð er í hitafrávik ársins sem er nýhafið og höfum við notað NASA GISS sem viðmið. Á síðasta ári voru fjórir sem treystu sér í að spá fyrir um 2014 og var spáin eftirfarandi:
Spá 2014 | Spá |
---|---|
Höskuldur Búi | +0,63°C |
Sveinn Atli | +0,64°C |
Jón Erlingur | +0,66°C |
Emil Hannes | +0,68°C |
Þar sem árið 2014 endaði í +0,68°C þá er augljóst að Emil Hannes negldi þetta og er því hér með krýndur Hnatthitaspámeistari 2014. Hann var einnig meistari ársins 2013 og hefur því endurtekið leikinn frá síðasta ári og óskum við á loftslag.is honum hjartanlega til hamingju.
Það væri gaman að fá enn fleiri hnatthitaspámenn þetta árið, líka þeir sem telja að kólnun sé í nánd og jafnvel byrjuð – það væri spennandi að sjá þeirra spár til samanburðar.
Árið 2015 – vangaveltur og spá
Þá er komið að því að setja sig í spámannsstellingar á ný eins og undanfarin ár. Með hættu á því að endurtaka mig, þá ætla ég að byrja á því að ræða um El Nino ástandið í Kyrrahafinu sem gæti haft áhrif í ár, það hefur yfirleitt þau áhrif að hitastig á heimsvísu hækkar. Þar sem talið er líklegt að El Nino verði í gangi fyrri hluta ársins, þá ætla ég að spá því að það ástand fari í gang í ár og að það muni hafa áhrif til hækkunar frá árinu 2014. Það er svo spurning hversu langan tíma af árinu það ástand gæti varað. Til að gera langa sögu stutta, þá ætla ég að spá lítilsháttar hækkun hitastigs árið 2015, frá því sem var 2014, eða um +0,02°C hærra en 2014 endaði í, sem er þá hitafrávik upp á +0,70°C fyrir árið 2015. Sem yrði þá heitasta ár frá upphafi mælinga árið 1880 ef litið er á gögn NASA GISS. Miðað við byrjun ársins, hitafrávik janúarmánaðar var +0,75°C, þá er þetta kannski ekki svo fjarstæðukennd spá, en það getur allt gerst.
Við hvetjum hér með lesendur loftslag.is að spreyta sig í þessari skemmtilegu keppni – hver verður Hnatthitaspámeistari fyrir árið 2015? Spár má setja inn í athugasemdir við færsluna og mun það gilda sem skráning. Það væri líka fróðlegt að fá spár frá kólnunarsinnum.
Heimildir:
NASA – http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt
NOAA – Global Analysis – Annual 2014
Tengt efni á loftslag.is:
Þetta kom mér á óvart – til hamingju Emil.
Ég ætla að gerast svo grófur að skjóta heldur hærra en síðast.
Ég segi að hin hnattræna hlýnun sé að aukast og að hún sé um +0,03 á ári og að El Nino muni bæta við +0,05 í ár þannig að í lok þessa árs verði hitafrávikið um 0,76°C.
Já, ég var búinn að taka eftir því að ég hafði hitt á rétt hitastig og varið titillinn góða. Menn virðast almennt vera á því að 2015 verði enn hlýrra en 2014 og ég get tekið undir það. Mín spá fyrir 2015 hljóðar upp á +0,74°C og væri það afgerandi hlýjasta árið frá upphafi mælinga. Ég geri þó ekki ráð fyrir sterkum áhrifum af El Nino, en einhverjum þó.
Það var vel gert hjá Emil að hitta á hnatthitann 2014 upp á tvo aukastafi. Gerist ekki betra.
Líkt og aðrir hér sé ég litið annað en metár í spilunum fyrir 2015. Sveiflur í Kyrrahafi hafa mikil áhrif á niðurstöðuna eins og Sveinn Atli tekur fram í innganginum. Eins og útlitið er núna verður ekki neinn kulda að hafa þaðan næstu mánuði, en heldur ekki dúndurhita líkt og gerðist 1998. Meira svona eins og hálfvelgju sem með aðstoð aukinna gróðurhúsaáhrifa gæti þokað metinu upp um nokkra hundraðshluta. Frávik upp á +0,72 C er mín spá.
Nú hefur verið fimbulkuldi á stórum hluta norðurhluta Ameríku í janúar og febrúar í ár.
Við hér á Íslandi höfum fengið sýnishorn af þessum kuldum hér yfir til okkar með viðvarandi mínusgráðum, sífelldri snjókomu og stormum.
Munu svona miklir kuldar á stórum svæðum ekki draga úr alheims meðaltalshita fyrir þetta ár, sérstaklega ef þetta verður viðvarandi ástand langt fram á vor?
Halldór. Það eru alltaf svæði á jörðinni með mínusfrávik, en hvar þau eru stödd hverju sinni breytir engu um hnattrænt hitastig. Í janúar var mikið rétt mínusfrávik á austurhluta N-Ameríku og suðvestur af Íslandi. Þessi svæði með mínusfrávikum færast venjulega til, en ef við ímyndum okkur að mínus- og plúsfrávik janúarmánaðar myndu festast í sama fari, ekki bara fram á vor, heldur út allt árið, þá yrði árið 2015 hlýasta ár sögunnar (Emil og Höski myndu hampa hnatthitaspámeistaratitlinum í sameiningu).
N-Ameríka er víðáttumikil, helmingur hennar er með mínusfrávik, en hinn helmingurinn plúsfrávik. Evrasía er langstærsta landsvæðið, þar er óvenju hlýtt í janúar, sömuleiðis í S-Ameriku.
En svo eru það heimshöfin sem þekja 70% af yfirborði jarðar. Kyrrahafið er stærsti hitageymir jarðarinnar. Hitageymir er þeirrar náttúru að hann getur tekið til sín varma í mismiklum mæli (sem þá “hverfur” úr því kerfi sem við erum að fjalla hér um, en það er yfirborð jarðarinnar), eða jafnvel gefið frá sér varma, sem þýðir aukinn yfirborðshita. Þess vegna skiptir dýnamíkin í höfunum miklu um tímabundar sveiflur í hnattrænu hitastigi.
Þær sveiflur (og fleiri reyndar, eldgos og sólvirkni t.d) leggjast ofan á hlýnun vegna gróðurhúsaáhrifa, fela hana stundum eða magna upp.
Jón Erlingur, takk fyrir svarið.
En getur verið að við séum á okkar svæði að upplifa svæðisbundna kólnum?
Ástæðan fyrir þessari spurningu minni er að undanfarin 2-3 ár hafa verið í kaldara lagi á okkar slóðum, þó svo að meðalhitinn í fyrra segi annað. Nefni nokkur dæmi:
– Tveir óvenjukaldir vetur í N-Ameríku, og reyndar hér á landi, sérstaklega nú í ár.
– Þó svo að sumrin 2013 og 2014 hafi ekki verið sérlega köld, þá voru heldur ekki sérlega hlý.
– Jöklar hættir að hopa hér á landi að sögn kunnugra
– Sumrin 2013 og 2014 voru talin í styttra lagi en venjulega
– Vetrarveður byrjuðu fyrr síðsutu 2-3 haust en venjulega og það sumraði seinna
Nú eru þetta ekki vísindalega sannaðar niðurstöður, en ýmsri telja sig sjá vísbendingar um ofangreint hér á landi.
Hvað segir þú/þið?
Halldór. Ég myndi í sjálfu sér ekki draga neinar ályktanir af staðbundnu veðurfari síðustu 2-3 ár. Held að reynslan sýni að það verða staðbundar sveiflur í veðurfari sem eru mjög svo tilviljunarkenndar.
Aukið fannfergi er nokkuð sem sums staðar má búast við með hlýnandi veðurfari. Það er vegna þess að raki í andrúmsloftinu eykst og þar með úrhelli á sumrum en snjókoma á vetum.
Afkoma jökla sveiflast milli ára, en til lengri tíma hefur aukinn sumarhiti mun meiri áhrif en aukin vetrarúrkoma.
Ég er nokkuð hrifinn af tilgátum Jennifer Francis um áhrif örrar hlýnunar N-heimskautasvæða á háloftavinda (http://en.wikipedia.org/wiki/Jennifer_Francis). Í stuttu máli er tilgátan þessi: Band háloftavinda hlykkjast kring um heimskautasvæðið og er drifið áfram af hitamismuninum. Vegna þess að hraðar hlýnar á heimskautinu en sunnan við það slaknar á þessu bandi. Ef við slökum á gítarstreng verður tónninn dýpri, sveiflurnar í strengnum verða lengri, hægari og með stærra útslagi. svipað gerist með háloftavindinn. Hann hefur áhrif hvar mörk heimskautalofts og hlýrra lofts liggja og þar með brautir lægða. Breytingar á þessu kerfi, sem eru nú þegar í gangi, valda ýmsum óvæntum uppákomum í staðbundnu veðurfari.
Það verður að hafa í huga að þetta er tilgáta sem eftir er að staðfesta eða hrekja eftir því sem ég best veit.
Fyrir Ísland er annað sem getur skipt miklu máli til lengri tíma, en það er hvernig Golfstrauminum reiðir af. En sú umræða á ekki heima í samhengi við 2-3 ára sveiflur.