2014 var hlýjasta ár í sögu mælinga og hnatthitaspámeistari ársins

Byrjum þessa færslu á algerri endurtekningu frá síðasta ári.

“Enn og aftur er komið að því að skoða árið sem var að líða með fókus á hitastig í heiminum. Það virðist vera orðið venja að það ár sem er nýliðið í hvert og eitt skiptið sé meðal 10 heitustu ára frá upphafi og á því varð engin breyting í ár” [2013 – enn eitt hlýtt ár og hnatthitaspámeistari ársins]. 2014 var hlýjasta ár frá upphafi mælinga í gagnasafni NASA GISS og endaði árið með hitafráviki upp á +0,68°C og einnig í gagnasafni NOAA, en þar endaði árið með hitafráviki upp á +0,69°C.

Hitafrávik 1880 - 2014 blá lína. Appelsínugul lína er 5 ára hlaupandi meðaltal. [Heimild http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt]

Hitafrávik 1880 – 2014 blá lína. Appelsínugul lína er 5 ára hlaupandi meðaltal.
[Heimild http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt]

Janúar 2015

Nýjustu tölur um hitafrávik í byrjun árs 2015 eru komnar í hús og er hitafrávikið 0,75°C í gagnaröð NASA GISS og 0,77°C hjá NOAA. Í báðum tilfellum var mánuðurinn í öðru sæti yfir hlýjustu janúarmánuði frá upphafi mælinga.

Hnatthitaspámeistarinn 2014

Undanfarin ár höfum við á loftslag.is verið með smá leik á upphafi árs þar sem er spáð fyrir um komandi ár. Spáð er í hitafrávik ársins sem er nýhafið og höfum við notað NASA GISS sem viðmið. Á síðasta ári voru fjórir sem treystu sér í að spá fyrir um 2014 og var spáin eftirfarandi:

 Spá 2014 Spá
Höskuldur Búi +0,63°C
Sveinn Atli +0,64°C
Jón Erlingur +0,66°C
Emil Hannes +0,68°C

Þar sem árið 2014 endaði í +0,68°C þá er augljóst að Emil Hannes negldi þetta og er því hér með krýndur Hnatthitaspámeistari 2014. Hann var einnig meistari ársins 2013 og hefur því endurtekið leikinn frá síðasta ári og óskum við á loftslag.is honum hjartanlega til hamingju.

Það væri gaman að fá enn fleiri hnatthitaspámenn þetta árið, líka þeir sem telja að kólnun sé í nánd og jafnvel byrjuð – það væri spennandi að sjá þeirra spár til samanburðar.

Árið 2015 – vangaveltur og spá

Þá er komið að því að setja sig í spámannsstellingar á ný eins og undanfarin ár. Með hættu á því að endurtaka mig, þá ætla ég að byrja á því að ræða um El Nino ástandið í Kyrrahafinu sem gæti haft áhrif í ár, það hefur yfirleitt þau áhrif að hitastig á heimsvísu hækkar. Þar sem talið er líklegt að El Nino verði í gangi fyrri hluta ársins, þá ætla ég að spá því að það ástand fari í gang í ár og að það muni hafa áhrif til hækkunar frá árinu 2014. Það er svo spurning hversu langan tíma af árinu það ástand gæti varað. Til að gera langa sögu stutta, þá ætla ég að spá lítilsháttar hækkun hitastigs árið 2015, frá því sem var 2014, eða um +0,02°C hærra en 2014 endaði í, sem er þá hitafrávik upp á +0,70°C fyrir árið 2015. Sem yrði þá heitasta ár frá upphafi mælinga árið 1880 ef litið er á gögn NASA GISS. Miðað við byrjun ársins, hitafrávik janúarmánaðar var +0,75°C, þá er þetta kannski ekki svo fjarstæðukennd spá, en það getur allt gerst.

Við hvetjum hér með lesendur loftslag.is að spreyta sig í þessari skemmtilegu keppni – hver verður Hnatthitaspámeistari fyrir árið 2015? Spár má setja inn í athugasemdir við færsluna og mun það gilda sem skráning. Það væri líka fróðlegt að fá spár frá kólnunarsinnum.

Heimildir:

NASA – http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt

NOAA – Global Analysis – Annual 2014

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.