Eftir því sem losun manna á gróðurhúsalofttegundum eykst og styrkur þess vex í lofthjúpnum, því meir hlýnar jörðin. Vissulega eru sveiflur í hlýnuninni sérstaklega staðbundið, en almennt séð þá hlýnar til lengri tíma litið.
Hlýnunin er mæld með því að mæla hitastig á mælistöðum víða um heim, en nákvæm mæling á hitastigi jarðar er ekki einföld. Hitastig breytist eftir árstíðum, staðsetningu auk náttúrulegs breytileika, bæði tímabundið og staðbundið. Það höfum við á Íslandi til dæmis orðið vitni að undanfarið. Af því leiðir að vísindamenn búast ekki við að hitastig rísi alls staðar jafnt og þétt eða alltaf. Vísindamenn búast samt við því að til lengri tíma litið sé leitnin upp á við og sú er einmitt raunin.
Þrátt fyrir það, þá virðist umræðan um hina hnattrænu hlýnun snúast að nokkru leyti um pásu eða minnkandi hnattræna hlýnun. Við á loftslag.is höfum ekki tekið undir það, en þó bent á ýmsa þætti í loftslagi jarðar sem geta valdið því að hlýnunin virðist hulin.
Ný grein í Science
Nú nýverið kom út grein eftir nokkra vísindamenn innan hinnar virtu stofnunar NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration), Karl o.fl. 2015, þar sem skoðaðar eru mælingar við yfirborð jarðar og spurt hvort hlýnunin hafi hægt á sér. Í greininni segja vísindamennirnir frá leiðréttingum sínum á yfirborðshita sjávar, en tvenns konar villur hafa komið fram í gegnum tíðina við mælingar skipa á hita – annars vegar vegna hita sem kemur frá skipum sjálfum þegar þau taka inn sjóinn til mælinga og hins vegar breytingar á því hvernig hiti var mældur fyrir og eftir heimsstyrjöldina síðari. Einnig eru notuð ný gögn fyrir landhita, þar sem sameinaðir eru nokkrir gagnagrunnar í einn.
Niðurstaðan er helst sú að leitni hitastigs, síðastliðin 17 ár eða svo, hefur haldið áfram að aukast og engin sýnileg pása. Í raun hefur leitnin aukist á sama hraða og síðastliðna fimm áratugi. Þeir sem afneita hnattrænni hlýnun af mannavöldum sérvelja (e. cherry pick) oft þau tímabil sem líklegust eru til að sýna litla leitni í hlýnun – með það að leiðarljósi prófuðu höfundar að sérvelja hið heita El Nino ár, 1998 sem upphaf tímabils og árið 2012 sem var kaldara en árin í kring sem enda tímabils. Þrátt fyrir það þá sýndi það tímabil afgerandi hlýnun.
Vitað er að ýmsir þættir hafa undanfarna 1-2 áratugi haft kælandi áhrif á hnattrænan hita þ.e. aukin eldvirkni, ýmsar sveiflur úthafanna, minnkandi sólvirkni og aukning á kælandi örðum frá iðnaði í Asíu. Það vekur því vissan ugg að þrátt fyrir þessi kælandi áhrif hafi hnattræn hlýnun haldið áfram.
Líklegt er að árið 2015 verði enn heitara en síðasta ár, 2014, en það var það heitasta í sögu mælinga. Eitt er víst að ein algengasta mýta undanfarinna ára um að hlýnun jarðar sé í pásu og að allt stefni í kólnun á ekki við rök að styðjast.
Sæmsæriskenningar
Í kjölfar þess að búið var að afskrifa eina af aðalmýtu þeirra sem afneita hnattrænni hlýnun, þá mátti búast við að þeir myndu reyna að finna nýjan vinkil á afneitunina. Sú hefur strax orðið raunin og ber mest á algengu tóli þeirra sem eiga erfitt með að sætta sig við afgerandi gögn og rannsóknir: samsæriskenningar. Því hafa strax komið upp samsæriskenningar um að vísindamenn NOAA hafi hér átt við gögnin til að fela pásuna. Það skal tekið fram að allt er upp á borðum: greinin er mjög skýr, ásamt því að gögn og aðferðir eru aðgengilegar með greininni.
Einn áhugaverður punktur blasir við þeim sem lesa greinina og setur samsæriskenningar þeirra sem afneita hnattrænni hlýnun í nýtt samhengi: Ef hér er um að ræða samsæri vísindamanna til að auka hnattræna hlýnun, þá er einn frekar áberandi galli við þá samsæriskenningu. Í raun þá draga leiðréttingarnar úr hlýnuninni í heild. Þetta sést vel ef skoðuð er mynd úr greininni, sjá neðri myndina:
Óleiðrétt gögnin sýna hlýnun um 0,9°C frá 1880-2014 – en samkvæmt nýju greiningunni þá hefur hlýnað um 0,8°C á þeim tíma. Leiðréttingin sýnir því minni hlýnun í heildina, þó vissulega sýni nákvæmari gögn að enn sé hlýnunin hröð. Að leiðrétta gögnin til að gefa sem réttasta mynd af þeim breytingum sem eru í gangi, eru hrein og klár vísindi og hefur það ekkert að gera með samsæri. En samsæriskenningar lúta reyndar ekki lögmálum heilbrigðrar skynsemi.
Heimildir og ítarefni
Greinin í Science: Karl o.fl. 2015: Possible artifacts of data biases in the recent global surface warming hiatus
Tvær góðar umfjallanir í The Guardian: New research suggests global warming is accelerating og What you need to know about the NOAA global warming faux pause paper
Um samsæriskenningar: Scientific conspiracies are impossible
Tengt efni á loftslag.is
- Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar
- Loftslagsbreytingar og samsæriskenningar
- Fingrafar mannkynsins á hnattrænu hlýnunina
- Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun
- Athugasemd varðandi meintar falsanir NASA
- Hafísinn ekki að jafna sig
- Muller: Ég hafði rangt fyrir mér
Leave a Reply