Það er yfirleitt ánægjulegt þegar stjórnmálamenn taka upp umræðu um loftslagsmál. Á síðasta ári, rétt fyrir kosningar, sendi Sigríður Á. Andersen okkur í París 1,5 hópnum skilaboð á FB. Undirritaður, með hjálp nokkurra úr París 1,5, svaraði þeim skilaboðum hér á loftslag.is, sjá Svar til Sigríðar Á. Andersen. Hún virðist enn eiga eitthvað ósagt um algjört fall Sjálfstæðisflokksins í loftslagsrýni stjórnmálaflokkanna fyrir síðustu kosningar. Hún hefur því valið enn og aftur að segja skoðun sína á “óvandaðri” umfjöllun okkar á vefsíðu sinni hér ári síðar, sjá Ánægjulegur snúningur í loftslagsmálum. Best að byrja bara á smá endurtekningu frá síðasta ári þar sem að þessi einfalda skilgreining virðist þvælast fyrir henni:
“Því má halda til haga að eini tilgangur hópsins Paris 1,5 er að ýta undir umræðu og aðgerðir í loftslagsmálum á Íslandi. Við ítrekum að hópurinn starfar EKKI í pólitískum tilgangi. Rýnin er á byggð á samþykktum stefnum flokkanna í loftslagsmálum ásamt því hvernig flokkarnir hafa dregið málið inn í aðdragandi kosninga. Afar ósanngjarnt væri að leggja mat fyrri aðgerðir sem yrði að byggja á huglægu mati á aðgerðum flokka sem hafa setið í ríkisstjórn síðustu árum og jafnvel áratugum.“
S.s. við gerðum rýni á loftslagsstefnur flokkanna út frá samþykktum stefnum flokkanna og því sem hægt var að finna á vefsíðum þeirra um þær stefnur, ásamt því hvernig flokkarnir drógu málið inn í umræðuna í aðdraganda kosninganna. Stefna Sjálfstæðisflokksins, eða kannski það ætti að kalla það stefnuleysi í þessum málum olli því að flokkurinn varð neðstur í rýninu. Eitthvað virðist þetta hafa farið fyrir brjóstið á Sigríði sem er enn að velta sér uppúr niðurstöðunni. Það er reyndar bara mjög gott mál, enda viljum við umræðu og vonandi enn frekari og betri loftslagsstefnur flokkanna. Nú hefur Sigríður s.s. svarað aftur ári síðar í aðdraganda kosninga. Það væri náttúrulega frábært ef það hefði komið eitthvað nýtt fram, t.d. augljós stefna eða einhver stefnubreyting (í stað stefnuleysis), en það er nú ekki það sem er uppá teningunum.
Hún er enn í einhverju stríði við hópinn sem hún sakar um “óvandaða[n] málflutning” og segir einkunngjöfina “fjarstæðukennd[a]”. Út frá þeim forsendum sem við gáfum okkur um það sem fram þyrfti að koma í opinberum stefnum flokkanna, þá varð niðurstaðan fall Sjálfstæðisflokksins. Þetta var ekki eitthvað pólitískt plott (sem virðist henni ofarlega í huga), heldur einfaldlega niðurstaða okkar eftir að hafa grannskoðað loftslagsstefnur flokkanna, eftir að hafa sett okkur leikreglurnar fyrir einkunnagjöfina fyrirfram. Aðalvandamál Sjálfstæðisflokksins að okkar mati var að hann vildi (og vill sennilega enn) fara í olíuvinnslu og svo var mjög fátt á vefsíðu flokksins um loftslagsmál sem gat dregið þau upp í einkunnagjöfinni. Meira að segja fannst ekkert í stefnu flokksins um hjartansmál Sigríðar um votlendið! Eins sendum við út tölvupósta á stjórnmálaflokkana, en fengum ekki svar frá Sjálfstæðisflokknum, sem þá hefði kannski getað bent okkur á áhuga Sigríðar á endurheimt votlendis, sem hefði kannski dregið flokkinn upp um 2-3 stig, eins og nefnt er í svarinu til hennar.
Það var því fróðlegt að lesa svar Sigríðar, nú ári seinna, og vonast til að sjá eitthvað nýtt um loftslagsmálin. Persónulega var ég fullur eftirvæntingar þegar ég las pistilinn, en varð því miður fyrir miklum vonbrigðum. Ekkert nýtt kemur þar fram, en hún heldur áfram flokkpólitískum skotgrafarhernaði um vinstri á móti hægri, sem við höfðum svarað fyrir í svarinu til hennar. Í þessum nýja pistli Sigríðar lætur hún eins og að við í París 1,5 hópnum höfum ekki haft nokkurn áhuga á endurheimt votlendis af því að við svöruðum henni svona:
“Þessi einhliða nálgun [Sigríðar] varðandi votlendið er í raun bara útúrsnúningur sem á lítið skylt við lausnir til framtíðar – það þarf að taka á þessu máli frá mörgum hliðum og vissulega líka framræstingu mýra sem átti sér stað fyrir 1990.” (áherslu bætt við – SAG)
Hún tekur þessari setningu í svarinu til hennar á síðasta ári sem tákn um að við höfum ekki haft áhuga á endurheimt votlendis sem lausnar, sem var þó einn af þáttunum í einkunagjöfinni! Mann grunar að þetta sé viljandi útúrsnúningur, enda þarf að taka setninguna úr samhengi við það sem verið var að svara til að geta mögulega skilið það eins og hún velur að gera. Hér var verið að benda á að frekar einhliða nálgun Sigríðar á endurheimt votlendis sem lausn hafi lítið með alsherjar lausnir til framtíðar að gera. Það þarf s.s. að skoða málin frá fleiri hliðum, vissulega líka endurheimt framræstra mýra (sem að mestu átti sér stað fyrir 1990). París 1,5 vill að allar lausnir komi fram og hefur endurheimt votlendis alltaf verið hluti af þeirri umræðu, samanber einkunagjöfina. Það mætti meira að segja færa rök fyrir því að endurheimt votlendis mætti hafa meira vægi hjá okkur, rýnið er alveg opið fyrir sanngjarnri gagnrýni á þáttunum, kannski breytum við því fyrir komandi rýni.
“Það sem upp úr stendur er hins vegar þetta: Umhverfissamtökin París 1,5 sem fyrir ári reyndu að gera lítið úr endurheimt votlendis og kölluðu hana „bara útúrsnúning“ og eiga „lítið skylt við lausnir til framtíðar“ segja nú að „áróður hagsmunaaðila um gagnsleysi endurheimtar“ hafi þvælst fyrir málinu.”
Svona orðaði hún m.a. svar sitt til okkar núna. Þarna fullyrðir hún að París 1,5 höfum talað um endurheimt votlendis sem einhvern útúrsnúning sem ekki væri lausn til framtíðar, en eins og fram hefur komið, þá var verið að svara fyrir nálgun Sigríðar á málinu, en ekki þætti endurheimt votlendis sem hluta af lausninni.
Annars bara fínt að Sigríður vill umræðu um málin, þó að mér persónulega finnist þetta frekar einhliða nálgun hjá henni sem ber keim af gömlum pólitískum skotgrafarhernaði sem á ekkert skylt við lausnir til framtíðar. En kannski þessi áhugi hennar á málinu og umræða hækki Sjálfstæðisflokkinn um einhver stig fyrir kosningarnar núna, það er ekki nema sanngjarnt að hafa alla umræðu um málefnið með.
Leave a Reply