Loftslagsrýni flokkanna 2017

paris_1_5Hópurinn París 1,5 gerði eftirfarandi úttekt á stefnu stjórnmálaflokkanna í loftslagsmálum fyrir kosningarnar sem verða þann 28. október 2017.

Hér verður aðferðafræðin rakin, þ.e. farið yfir þá þætti sem voru notaðir við loftslagsrýni flokkanna, fjallað um einkunnagjöfina og það hvernig við völdum stjórnmálaflokkana sem eru í úttektinni. Neðst er svo niðurstaða þessa mats og umræða.

Aðferðafræðin

Öllum flokkum sem eru með lista í kjöri fyrir kosningarnar 2017 var sendur tölvupóstur með spurningum í 6 liðum sem við báðum flokkana um að svara. Einkunnir eru gefnar á forsendum stefnu flokkanna til framtíðar, út frá þeim svörum sem bárust. Í síðasta kosningarýni takmörkuðum við okkur við þá flokka sem höfðu möguleika (samkvæmt könnunum) til að komast á þing, en núna fengu allir flokkar jafna möguleika á að svara. Flokkarnir fengu s.s. möguleika á að svara þessum 6 liðum, þar sem þeir túlka sína stefnu út frá loftslagsmálunum. Við lítum svo á að þessi svör séu í takt við opinberar stefnur flokkanna. Loftslagsstefnur eftirfarandi flokka voru rýndar:

  • Björt Framtíð
  • Framsókn
  • Píratar
  • Samfylkingin
  • Sjálfstæðisflokkurinn
  • Viðreisn
  • Vinstri Græn
  • Alþýðufylkingin
  • Dögun

Miðflokkurinn og Flokkur Fólksins svöruðu ekki og hljóta því einkunina 0 í rýninu.

Hér má lesa öll svör flokkanna (í einni belg og biðu og óreglulegri röð).

Til að gefa flokkunum einkunn þá notuðum við kerfi þar sem við mátum þessa 6 mismunandi þætti og gáfum þeim einkunn á bilinu 0-10, en misjafnt vægi er á milli þátta. Tveir þættir fá einfalt vægi (mest 10 stig hver þáttur) og fjórir þættir fá tvöfalt vægi (mest 20 stig hver þáttur) – 100 stig í allt. Í fyrra höfðum við einn þáttinn mögulega sem mínus, en við slepptum því núna – sem mögulega hækkar einkunnagjöfina um 2 fyrir þá flokka sem fengu mínus síðast (Sjálfstæðisflokkur og Framsókn). Nánar er fjallað  um hvern þátt hér á eftir.

Þegar svörin lágu fyrir lögðum við svo okkar mat á hvern þátt og hvað kom fram hjá hverjum flokki og gáfum einkunnir út frá því – sem endaði svo í þeirri einkunn sem hver flokkur fékk varðandi loftslagsmálin í einkunnagjöfinni hér fyrir neðan. Það var mjög ánægjulegt að flestir flokkar svöruðu og lögðu greinilega hugsun og vinnu í svörin. Auðvitað verður matið að einhverju leyti huglægt, en við teljum að þessi nálgun gefi nokkuð gott viðmið varðandi loftslagsstefnur flokkanna og hvernig þeir standa innbyrðis, þó kannski sé lítill munur á flokkunum í efstu sætunum almennt og flestir flokkar þurfa ekki að gera mikið til að skora hærra. Að okkar mati hafa flestir flokkarnir tekið málið fastari tökum fyrir þessar kosningar en áður og við munum fylgjast vel með efndum í framtíðinni, í takt við þau svör sem okkur bárust.

Þættirnir 6 eru eftirfarandi:

  1. Er flokkurinn með eða á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu.
    • Þeir flokkar sem taka einarða stefnu með olíuvinnslu fá núll stig – þeir sem ekkert nefna um málið fá 0 og þeir sem taka einarða afstöðu gegn olíuvinnslu fá mest 10 í einkunn og svo allt þar á milli (það var hægt að fá mínus í þessum flokki í rýninu fyrir kosningarnar 2016)
    • Tvöfalt vægi – mest 20 stig
  2. Eru tölu- og/eða tímasett markmið varðandi samdrátt í losun CO2
    • Því nánari markmið, því betra
    • Tvöfalt vægi – mest 20 stig
  3. Er gert ráð fyrir kolefnisgjaldi eða hagrænum hvötum á losun gróðurhúsalofttegunda
    • Því nánari útfærsla því betra
    • Tvöfalt vægi – mest 20 stig
  4. Tillögur um breytingu innviða til að taka á vandanum
    • Til að mynda er hér verið að skoða tillögur til að flýta rafbílavæðingu og öðrum breytingum innviða til að taka fyrr á vandanum
    • Einfalt vægi – mest 10 stig
  5. Tillögur varðandi endurheimt votlendis og skógrækt
    • Almennar tillögur varðandi þessa þætti
    • Tvöfalt vægi – mest 20 stig
  6. Annað almennt um loftslagsmál
    • Skoðuðum aðra þætti sem flokkarnir töldu vert að nefna varðandi loftslagsmálin og reyndum að meta það á hlutlægan hátt
    • Einfalt vægi – mest 10 stig

Niðurstaða

Loftslagsstefnur flokkanna voru rýndar og einkunnir gefnar samkvæmt fyrrgreindum forsendum. Flokkarnir fengur eftirfarandi einkunnir (einkunn innan sviga):

  • Alþýðufylkingin (5,9)
  • Björt Framtíð (8,1)
  • Dögun (6,4)
  • Framsókn (5,5)
  • Píratar (8,5)
  • Samfylkingin (7,8)
  • Sjálfstæðisflokkurinn (4,7)
  • Viðreisn (6,3)
  • Vinstri Græn (7,6)
  • Miðflokkurinn (0,0)
  • Flokkur Fólksins (0,0)

Mat_loftslagsryni

 

Átta flokkar standast prófið eins og staðan er í dag og eru Píratar með metnaðarfyllstu stefnuna miðað við þetta rýni. Lítið vantar uppá að Sjálfstæðisflokkurinn standist matið og virðist bara lítillega vanta uppá metnaðinn við að setja skýrari markmið og aðeins ítarlegri stefnu, en það þarf ekki mikið til og það virðist vera áhugi fyrir hendi þannig að þau geta vonandi gert enn betur í framtíðinni. Alþýðufylkingin, Dögun, Framsókn og Viðreisn ná öll rétt rúmlega lágmarkseinkunn, en það má segja að þeirra stefnur séu ekki nægjanlega góðar til að teljast í toppflokknum. Í toppi rýnisins eru svo VG, Samfylkingin, Björt Framtíð og Píratar sem teljast sigurvegarar rýnisins. Á milli þessara fjögurra efstu flokka er vart hægt að tala um marktækan mun út frá aðferðafræðinni og eru þeir á svipuðum nótum en með misjafnlega útfærð svör og stefnur sem veldur muninum á flokkunum. Píratar teljast sigurvegarar rýnisins, en hinir flokkarnir þrír fylgja fast á eftir.

Miðflokkurinn og Flokkur Fólksins sendu ekki svör og fá því falleinkunina núll.

Umræður

13412890_549635985216164_2118920633963755112_nVið í París 1,5 hópnum viljum gjarnan hvetja stjórnmálaflokka og frambjóðendur til að taka þetta mikilvæga mál á dagskrá og ekki bara sem atriði í stefnuskrám flokkanna, heldur sem eitt af aðalatriðum hjá öllum flokkunum þegar unnið er að pólitískum markmiðum frá degi til dags, enda skipta loftslagsmálin miklu máli. Ef við göngum ekki vel til verks í þessum efnum í dag, þá skipta öll hin málin miklu minna máli (þó svo vissulega geti önnur mál fyllt mikið til skemmri tíma). Við erum hluti af borgurum jarðarinnar og við þurfum öll að gera okkar til að minnka kolefnisfótspor af mannavöldum, því fyrr sem við byrjum þá mikilvægu vinnu, því betra.

Loftslagsstefnur flokkanna miðað við þau svör og stefnur sem flokkarnir leggja fram fyrir kosningarnar 2017 virðast betri en var fyrir ári síðan, sem er mjög jákvætt. Við í París 1,5 munum fylgjast vel með framvindu mála og halda flokkunum við efnið á næstu misserum, eitt er að setja fram stefnur og svara spurningum, annað mál er að fara eftir þeim.

Athugasemdir

ummæli

About Ritstjórn Loftslag.is

Ritstjórn Loftslag.is