Vægi loftslagsmála við mismunandi stjórnarmynstur

Við hjá París 1,5 gerðum loftslagsrýni flokkanna fyrir kosningarnar 2017. Út frá því rýni má reikna út hugsanlegar loftslagseinkunnir mismunandi ríkisstjórnarmynstra og velta fyrir okkur hvaða möguleikar eru í stöðunni út frá svoleiðis vangaveltum varðandi loftslagsmálin.

Til að skoða þetta þá reiknaði ég vægi hvers flokks miðað við einkunnir flokkanna í loftslagsrýninu og hlutfall í hugsanlegri ríkisstjórn og lagði svo saman vægi þeirra flokka sem mynda hvern meirihluta til að fá heildareinkunn mismunandi stjórnarmynstra. Ég skoða nokkur stjórnarmynstur, en þau eru vissulega fleiri en uppgefnir eru hér. Þetta ætti þó að gefa einhverja mynd á því hvaða möguleikar eru í stöðunni, bæði á toppnum og einnig þá sem slakari eru miðað við rýnið fyrir kosningarnar. Þessu ber vissulega að taka með einhverjum fyrirvara, en það má þó sjá einhverja mynd miðað við þetta mat.

Aðferðafræði

Eftirfarandi formúla var notuð til úteiknings á einkunn hvers meirihluta. Fyrir hvern flokk í meirihluta var eftirfarandi formúla notuð; [Vægi flokks í meirihluta] = [Einkunn flokks í loftslagsrýni] * [Þingmannafjöldi flokks] / [Fjöldi þingmanna í meirihluta]. Til að fá fram heildareinkunn mögulegs stjórnarmynsturs þá er vægi flokka í viðkomandi meirihluta lagt saman. Til að gefa viðmið þá reiknuðum við einn meirihluta þar sem allir flokkar eru saman í meirihluta og fengum við þá út einkunnina 5,3 – s.s. allir saman í einum meirihluta með 63 þingmenn (rauða súlan í grafinu).

Dæmi: DVB = 4,7 * 16/34 + 7,6 * 11/34 + 5,5 * 8/34 = 5,8

Niðurstöður

Í eftirfarandi töflu má sjá niðurstöður okkar miðað við þessar vangaveltur. Einkunnin dreifist frá 3,4 hjá DBFM uppí 7,3 hjá VSPB. Þetta getur því gefið einhverja hugmynd um hvaða meirihlutar séu líklegri en aðrir til að taka á loftslagsmálunum.

einkunn_graf

Umræður

Samkvæmt þessu má lesa út loftslagseinkunnir fyrir hina ýmsu mögulega meirihluta. Hæstu einkunn fær meirihluti VSPB (7,3) og næst hæstu einkunn fær VSPBC (7,2) – sem er vart marktækur munur. Þessir tveir möguleikar virðast því bestir fyrir loftslagspólitíkina á Íslandi miðað við forsendurnar. Sá möguleiki sem mest er fjallað um þessa dagana, DVB, fær einkunnina 5,8 samkvæmt þessu, sem er marktækt lægra en tveggja hæstu möguleikanna. Orsakavaldur lágrar einkunnar DVB er fyrst og fremst slakar einkunnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í loftslagsrýninu. Þeir möguleikar (hér að ofan) þar sem Miðflokkurinn og Flokkur Fólksins eru með í för, fá báðir falleinkunn samkvæmt okkar mati, en það liggur mest í því að þeir flokkar sendu ekki svör (Miðflokkurinn sendi svar of seint og var því ekki með, svarið hefði hvort sem er ekki hækkað einkunn þeirra að neinu ráði og Flokkur Fólksins sendi ekkert) og fengu því báðir flokkar núll í matinu og eru þessir flokkar því óþekktar stærðir í þessu mati. Það er þó fátt frá þessum tveimur flokkum sem að bendir til áhuga þeirra á loftslagsmálum almennt.

Í matinu er ekki gerð tilraun til að meta hugsanlegar efndir og/eða framkvæmd í framtíðinni. Hér er verið að reyna að leggja mat á hugsanlegan áhuga mismundandi stjórnarmynstra á loftslagsmálum í framtíðinni, sem hefur í sjálfu sér ekki forspárgildi. Svo má líka hugsa sér að loftslagseinkunn meirihlutanna sé ekki lýsandi ef flokkur með hærri einkunn hefur loftslagsmálin á sinni könnu og myndi halda því málefni meira á lofti í ríkisstjórn (eða öfugt), þannig að þessi einkunn gefur okkur hugmynd en segir ekki alla söguna.

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.