Ræða á Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar 2018

Loftslagsfundur_2017

Vegna þess að loftslag.is fékk Loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar 2017, þá var okkur boðið að halda ræðu við afhendingu Loftslagsviðurkenningarinnar 2018, sem var afhent á Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar þann 29. nóvember 2018. Sveinn hélt ræðuna og hana má lesa hér:

Fundarstjóri, góðir fundargestir

Mig langar að byrja á því að þakka fyrir að fá að ræða loftslagsmálin hér, þau eru sannarlega eitt mikilvægasta málefni samtímans. Ég held hér tölu fyrir hönd loftslag.is sem fékk Loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar á síðasta ári.

Síðan við félagarnir byrjuðum með loftslag.is fyrir 9 árum þá hefur sitthvað breyst og t.a.m. ýmislegt jákvætt gerst í umfjöllunum fjölmiðla um loftslagsbreytingar svo eitthvað sé nefnt. Það er t.d. mun sjaldgæfara í dag að sjá fréttir um loftslagsmálin sem byggja á afneitun og/eða útúrsnúningum sem ekki standast skoðun, en það var tiltölulega algengt þegar við byrjuðum með loftslag.is. Ég ætla svo sem ekki að fullyrða um okkar rullu í því að breyta þessu, en allavega virðist hafa orðið einhver viðhorfsbreyting og fólk flest orðið tiltölulega meðvitað um loftslagsvandann, sem er jákvæð þróun.

Nú er rætt um loftslagsmál í aðdraganda kosninga, og ekki nóg með það, heldur í kjölfar þeirra líka! Aðgerðaráætlanir eru gerðar, nefndir settar á fót og málin jafnvel rædd í fermingarveislum og öðrum mannamótum. Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að langflestir telji að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu staðreynd, en hin hliðin á málinu er þó að meirihlutinn telur samt að þau persónulega beri ekki ábyrgð, s.s. að lífsstíll þeirra sé einhvern vegin undanskilin ábyrgð!

Auðvitað er ábyrgð sterkt orð, en það er þó merkilegt að flestir telji sig stikkfrí þegar kemur að loftslagsvandanum, þar sem samfélagið í heild ber ábyrgð á einhvern hátt. Ég myndi t.d. ekki telja að minn lífsstíll geri mig stikkfrían á nokkurn hátt og tek ég gjarnan minn hluta af ábyrgðinni og skorast ekki undan henni, en vissulega er skömmin stærri en það sem ég persónulega get gert í málinu upp á mitt einsdæmi. Þetta er sameiginlegt átak samfélagsins og helmingur samfélagsins ætti ekki að neita þeirri ábyrgð. En allavega hefur skilningur þjóðarinnar á vandanum tekið stakkaskiptum, sem er kannski það mikilvægasta til að hafa áhrif á samtakamátt þjóðarinnar til framtíðar.

Eins og staðan er núna í losun heimsins á gróðurhúsalofttegundum, þ.e. miðað við loforð ríkja, þ.e. sjálfviljugar skuldbingar um samdrátt í losun á næstu áratugum í anda Parísarsamkomulagsins, þá stefnum við á u.þ.b. þriggja gráðu hækkun hitastigs og ef ekki er staðið við loforðin þá gæti fimm gráðu hækkun hitastigs fyrir næstu aldamót orðið staðreynd. Markmið Parísarsamkomulagsins er að komast vel undir 2°C hækkun hitastigs, helst að takmarka hlýnunina við 1,5°C fram að aldamótum. Auðvitað á eftir að fara yfir stöðuna, endurmeta loforð þjóða um minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda og halda áfram að búa til aðgerðaráætlanir og setja á stofn enn fleiri nefndir og halda röð funda á næstu árum og áratugum til að komast nær og vonandi ná markmiðum samkomulagsins, en eins og staðan er núna þá eigum við verulega langt í land. Núverandi markmið um að minnka losun Íslands um 40% fyrir 2030 er t.a.m. ekki nægjanlegt ( þar fyrir utan þá hef ég enn ekki séð sannfærandi áætlun um hvernig á að ná þeim markmiðum ), það þarf s.s. að gera enn betur. Þess má geta að þessi loforð þjóða eru eitt af mörgum skrefum sem er verið að taka um þessar mundir og skrefin eiga eftir að verða fleiri, en það þarf líka að standa við þau loforð og framkvæma, t.d. með nýsköpun í loftslagsmálum.

Nú eru viðsjárverðir tímar í alþjóðlegri pólitík og það eru pólitísk öfl víða um heim sem telja að loftslagsvísindi séu gabb og vilja því hlaupa frá gerðum samningum. Þ.a.l. er raunverulegt að hafa áhyggjur af stöðu mála og hvort staðið verður við gefin loforð í anda Parísarsamkomulagsins. Við þurfum að vera á tánnum og með einbeittum vilja eigum við að krefjast lausna til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hratt og örugglega. Það má ekki leggja árar í bát í þeim efnum. Fyrir utan tækninýjungar, betri orkunýtingu samgöngutækja og allskyns aðra nauðsynlega nýsköpun (eins og t.d. hefur verið rætt um í dag), þá þarf einnig að notast við aðrar tiltækar lausnir, t.d. skógrækt og landgræðslu til að binda CO2 í jarðvegi og gróðri, svo og að koma í veg fyrir losun frá framræstum mýrum með endurheimt votlendis, sem og að minnka aðra losun vegna landnotkunar. Svo er líka hægt að ná verulegum árangri með bættri matarmenningu (bæði val á fæðu og nýtingu matar almennt), svo fátt eitt sé nefnt. Það þarf að ráðast á vandann frá öllum hliðum og það þarf að ganga hratt fyrir sig, tíminn er að hlaupa frá okkur.

Einhverjir kynnu að spyrja sig hvort það sé kannski of seint að gera eitthvað í málunum, hvort að það sé of langt milli loforða þjóða og markmiðanna? Þetta er gild spurning, enda erfitt að koma auga á framkvæmdina á þessum tímapunkti, en ég tel að tíminn sé enn nægur til að taka á málum, þó vissulega hefði verið betra að byrja fyrr, enda hefur loftslagsvandinn legið fyrir áratugum saman. Ég hef þó trú á því að við getum náð árangri, en við erum að falla á tíma og aðgerðir þurfa að verða enn sjáanlegri og fyrirferðarmeiri. Við getum ekki sagt “þetta reddast”, það virkar ekki á loftslagsvandann, það þarf nýsköpun, skipulag og einbeittan vilja til að ná árangri til framtíðar. Ef við tökum vandann ekki alvarlega þá er líklegast að niðurstaðan verði slæm, en með skipulagi og einbeittum vilja, allt frá einstaklingum til þjóðfélagsins í heild, þá verður þetta mögulegt. Það er það sem ég óska eftir, flestir geta vonandi tekið undir það.

Takk fyrir.

Athugasemdir

ummæli

Tags:

About Ritstjórn Loftslag.is

Ritstjórn Loftslag.is