Frétt: Vegur niðursveifla í virkni sólar upp á móti hlýnun jarðar af mannavöldum?

Í nýlegri grein sem birtist í Geophysical Research Letters segir, að frá árinu 2002-2008 hafi minni útgeislun í sólinni haft áhrif til kólnunar á móti hlýnun jarðar af mannavöldum. Höfundar greinararinnar skoða fjóra meginþætti sem stjórna loftslagsbreytingum: Sólvirkni, Eldvirkni, ENSO (El Nino/La Nina) og aukningu í gróðurhúsalofttegundum. Eftirfarandi línurit sýnir hversu mikið hver þessara þátta hefur haft áhrif á hitastig jarðar frá 1980 (auk mögulegra áhrifa á næstu tveimur áratugum):

a) Mælt mánaðarlegt hnattrænt hitastig (svört lína), niðurstaða loftslagslíka (appelsínugul). b) mismunandi þættir sem hafa áhrif á hitastig jarðar, Enso - El Nino/La Nina (fjólublá), örður (e. aerosols) vegna eldvirkni (blá), útgeislun sólar (græn) og hlýnun af mannavöldum (rauð). Samtals útskýra þessir þættir 72% af breytileika í mældum hnattrænum hita. Framtíðarsviðsmyndir eru sýndar með brotinni línu.

a) Mælt mánaðarlegt hnattrænt hitastig (svört lína), niðurstaða loftslagslíka (appelsínugul). b) mismunandi þættir sem hafa áhrif á hitastig jarðar, Enso - El Nino/La Nina (fjólublá), örður (e. aerosols) vegna eldvirkni (blá), útgeislun sólar (græn) og hlýnun af mannavöldum (rauð). Samtals útskýra þessir þættir 72% af breytileika í mældum hnattrænum hita. Framtíðarsviðsmyndir eru sýndar með brotinni línu.

Örður frá eldvirkni hafa aðallega áhrif til kólnunar, ENSO hefur áhrif til hlýnunar (El Nino) og kólnunar (La Nina), sólin hefur áhrif til kólnunar og hlýnunar, á meðan gróðurhúsalofttegundir hafa áhrif til hlýnunar. Þegar allir þessir þættir eru teknir saman, þá ráða þeir 76% af hitastigi jarðar síðastliðin 30 ár, samkvæmt greininni.

Fátt kemur á óvart í líkaninu þeirra, t.d. er árið 1998 sem var lengi vel opinbert hitamet á jörðinni á sama tíma og sterkur El Nino atburður var – en ENSO hefur töluverð áhrif á tímabundnar sveiflur í hitastigi. Þar kemur einnig í ljós að frá árinu 2002-2008 hefur virkni sólar minnkað töluvert og náði það að vega upp á móti áhrif hlýnunar af völdum gróðurhúsalofttegunda, það vel að lítil sem engin hlýnun varð á því tímabili.

Höfundar settu einnig fram hugsanlegar sviðsmyndir sem sýna mögulegar sveiflur í hitastigi næstu tvo áratugi, miðað við áframhaldandi aukningu gróðurhúsalofttegunda og líklega sveiflu í virkni sólarinnar. Einnig settu höfundar inn öflugt eldgos og sveiflu í ENSO til að sýna fram á hvaða áhrif slíkir atburðir myndu hafa – en það er þó ómögulegt að spá fyrir um hvenær slíkir atburðir verða.

Það má sjá af þessu að líklegast er að hlýnunin haldi áfram af völdum gróðurhúsalofttegunda, en aðalóvissuþátturinn eru hvernig þessir náttúrulegu þættir munu haga sér og hvernig þeir munu ná að hafa áhrif tímabundið til kólnunar og hlýnunar.

Að vísu er greinilegt að höfundar eru ekki að reikna með að niðursveiflan í sólinni haldi áfram, en virkni sólar síðustu tvö ár er minni nú en hún hefur verið í næstum öld. Það á eflaust eftir að vega enn meira upp á móti hlýnuninni sem er af völdum gróðurhúsalofttegunda, jafnvel það mikið að það kólni tímabundið  – um það er þó erfitt að spá.  

Heimildir

Greinina má finna hér (pdf skjal): Lean, J. L., and D. H. Rind (2009), How will Earth’s surface temperature change in future decades?, Geophys. Res. Lett., 36, L15708

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál