Eldgos og losun gróðurhúsalofttegunda

Nú er staðan sú á Íslandi að eldgos gæti hafist hvenær sem er á Reykjanesi (er jafnvel byrjað, ef af verður, þegar þú lest þetta lesandi góður). Af því tilefni er rétt að rifja upp ýmislegt varðandi eldgos og losun gróðurhúsalofttegunda almennt. Við höfum skrifað sitthvað um þetta hér á loftslag.is í gegnum tíðina þannig að þetta verður létt upprifjun á því efni.

Við höfum áður fjallað um áhrif eldgosa á loftslagbreytingar til forna, en þar segir meðal annars:

,,Stór eldgos geta valdið snöggum breytingum í stuttan tíma og þá til kólnunar (ár eða nokkur ár), t.d. eldgosið í Mount Pinatubo árið 1991 sem lækkaði hitastig jarðar tímabundið um sirka 0,4°C . Þau tímabil í jarðsögunni þar sem eldvirkni hefur verið mun meiri en nú, hafa þó getað valdið töluverðri kólnun þann tíma. Þess lags eldvirkni verður þó einungis nokkrum sinnum á hverjum hundrað milljón árum og veldur gríðarlegum loftslagsbreytingum í milljónir ára með tilheyrandi útdauða lífvera. Eldfjöll gefa frá sér CO2 í nokkuð miklu magni en það er þó einungis 1/130 af því sem menn losa á ári eins og staðan er í dag.

Það er því ljóst að losun eldfjalla í meðalári er miklu minni en sú losun sem er af mannavöldum á ári hverju, þó vissulega geti einstök eldgos verið mjög öflug. Það er fátt sem bendir til að hugsanlegt eldgos á Reykjanesi verði stórt í samanburði við önnur gos og ekki ætti að verða gosstrókur að ráði, þó það segi ekki beint til um magn koldíoxíðs sem kemur frá gosinu. Að meðaltali þá ná gos ekki að valda ójafnvægi í styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu frá ári til árs, enda losun af völdum eldgosa smávægilegur í samanburði við manngerða losun eins og áður segir. Stærri gos, eins og t.d. Pinatubo 1991, geta þó valdið skammtíma kólnun sem gengur svo til baka á 2-3 árum.

Oft er það þrennt sem nefnt er sem ráðandi um áhrif eldvirkni á loftslag til skemmri tíma:

  • Eðli eldgossins. Því öflugra eldgos og því meiri sprengivirkni sem er því meiri kólnun. Það er þá sérstaklega ef það er ísúr eða súr gosefni sem hafa mest áhrif – en þá getur sprengivirknin valdið því að hin fínu gosefni nái hærra upp í lofthjúpinn og þá frekar upp í heiðhvolfið, en þar hafa þau langmest áhrif.
  • Framleiðsla brennisteinsdíoxíðs: Magn þess skiptir miklu máli til kólnunar, en áhrif til kólnunar er mest vegna endurkasts sólarljóss af völdum þess.
  • Staðsetning: Eldgos á hærri breiddargráðum dreifa öskunni og brennisteinsdíoxíðinu ekki eins vel og eldgos staðsett á lægri breiddargráðum. Því þarf gosið að verða því meira til að það hafi áhrif. Við miðbauginn þá dreifast þessi gosefni um um mun stærra svæði vegna háloftavinda til suðurs og norðurs og því meiri endurgeislun sólarljóss.

Svo eru auðvitað mörg önnur efni í gosstróknum sem geta valdið staðbundnum áhrifum og verið hættuleg fólki og húsdýrum, en það er svo önnur saga.

Samanburður við aðra þætti loftslags

En getur minnkandi eldvirkni að einhverju leiti verið völd að þeirri hnattrænu hlýnun sem verið hefur undanfarna öld og áratugi?

Eins og komið hefur fram, þá getur mikil eldvirkni í langan tíma, haft viðvarandi kólnun í för með sér og því réttmætt að velta þeim fleti upp. Ef skoðaðar eru rannsóknir þar sem metnir eru helstu áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar, þá kemur í ljós að breyting í eldvirkni skýrir alls ekki þá hitaukningu sem orðið hefur síðastliðna öld.

Mynd: Prósentuhluti áhrifaþátta á hnattræna hlýnun síðastliðin 100-150 ár, samkvæmt Tett o.fl. 2000 (T00, dökk blár), Meehl o.fl. 2004 (M04, rauður), Stone o.fl. 2007 (S07, grænn), Lean og Rind 2008 (LR08, fjólublár), Stott o.fl. 2010 (S10, grár), Huber og Knutti 2011 (HK11, ljósblár) og svo Gillett o.fl. 2012 (G12, appelsínugulur).

Hlýnun jarðar undanfarna öld er hvorki hægt að tengja við minnkandi eldvirkni, né aukningu á CO2 af völdum eldvirkni. Mannlegi þátturinn er ríkjandi og þá sérstaklega losun manna á CO2 út í andrúmsloftið við bruna jarðefnaeldsneytis. Það er þó ljóst að eldvirkni hefur áhrif á loftslag og geta mikil eldgos með mikilli eldvirkni kælt jörðina tímabundið – hvort slíkt eldgos kemur í dag eða eftir 50 eða 500 ár er óljóst, en yfirgnæfandi líkur eru þá á því að sú kólnun verði skammvinn.

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.