Frétt: Myndun íshellunnar á Suðurskautinu og styrkur koldíoxíðs í andrúmslofti

Samkvæmt frétt frá Reuters hefur teymi vísindamanna, sem athugað hefur steinsýni í Afríku, fundið gögn, sem benda til þess að tenging sé á milli fallandi koldíoxíðs styrk í andrúmsloftinu fyrir um 34 milljónum ára og þess að íshellan á Suðurskautinu byrjaði að myndast. Þetta eru fyrstu niðurstöðurnar sem benda á þessa tengingu og þar með styrkir það gögn úr tölvumódelum sem sýnt hafa fram á að ísinn á heimskautasvæðunum vex þegar koldíoxíð er lítið í andrúmsloftinu en minnkar þegar magn koldíoxíðs er mikið í andrúmsloftinu.

lion-prideTeymið sem kemur frá Cardiff, Bristol og Texas, varði mörgum vikum á búsksvæðum Afríku nánar tiltekið í Tansaníu, ásamt vopnuðum vörðum sem vörðu teymið fyrir árásum ljóna. Hópurinn safnaði gögnum úr örsmáum steingervingum sem gáfu til kynna hvernig magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu var fyrir um 34 milljónum ára. Styrkur koldíoxíðs, aðal gróðurhúsalofttegundarinnar, féll með dularfullum hætti á þessum tíma í atburðarrás sem kölluð er Eocene-Oligocene loftslags umbreytingin. “Þetta voru stærstu umskipti í loftslagi, frá útdauða risaeðlanna fyrir 65 milljónum ára síðan,” segir Bridget Wade frá A&M Háskólanum í Texas.

Í rannsókninni var líkt eftir koldíoxíðs styrknum á þessu tímabili, sem sýndi fall í styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu á svipuðum tíma og íshellur Suðurskautsins tóku að myndast. Koldíoxíðs innihaldið í andrúmsloftinu var um 750 ppm (parts per million) á þessu tímabili. Þar sem ekki er hægt að finna sýnishorn af andrúmslofti frá þessum tíma þarf að notast við óbeinar mælingar. Í rannsókninni þurfti því að finna eitthvað sem hafði verið í efnafræðilegu sambandi við andrúmsloftið á þessum tíma. Gögnunum var safnaði nærri þorpinu Stakishari í Tansaníu, þar er að finna vel varðveitta örsmáa steingervinga sem sýnt geta fram á styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu á fyrri tímum.

Rannsóknin er sú fyrsta sem sýnir fram á það sem margir vísindamenn bjuggust við að finna varðandi koldíoxíð innihald tímabilsins að styrkur koldíoxíðs hafi minnkað á tímabilinu. Þessi niðurstaða styður það sem flest loftslagsmódel, sem notuð hafa verið á þetta tímabil, hafa sýnt fram á. Sömu módel gera ráð fyrir því að bráðnun íshellunnar sé við u.þ.b. 900 ppm.

Sjá frétt Reuters.

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.