Frétt: Súrnun sjávar – áhrif á lífverur

Auk hlýnunar jarðar, þá veldur losun CO2 (koldíoxíðs) út í andrúmsloftið önnur og minna þekkt áhrif, svokallaða súrnun sjávar (e. ocean acidification). Frá aldamótunum 1800 hefur sjórinn gleypt einn þriðja af losun manna á CO2 og hefur sjórinn því verið eins konar sía sem minnkað hefur áhrif CO2 á hlýnun jarðar – en um leið hefur það haft áhrif á efnafræði sjávar. Áætlað hefur verið að ef losun heldur fram sem horfir, þá muni pH gildi sjávar falla um 0,4 til ársins 2100, þannig að sýrustig sjávar yrði hærra en síðastliðin 20 milljón ár.

Sýnishorn af lifandi bertálkna (limacina helicina) (a) við pH gildi 8,09 og (b) við pH gildi 7,8 (mynd úr grein Comeau ofl)

Sýnishorn af lifandi bertálkna (limacina helicina) (a) við pH gildi 8,09 (b) og við pH gildi 7,8 (c) (mynd úr grein Comeau ofl)

Vísindamenn hjá Laboratoire d’Océanographie í Frakklandi hafa nú sýnt fram á að lykil lífverur, líkt og djúpsjávarkórallar (Lophelia pertusa) og skeldýr af ætt bertálkna (Limacina helicina), eigi eftir að verða fyrir töluverðum neikvæðum áhrifum í framtíðinni vegna áætlaðar súrnunar sjávar. Þeir rannsökuðu fyrrnefndar lífverur og áhrif breytingar á pH-gildi á skeljamyndun, en þessar lífverur mynda skel úr kalki. Þessar tegundir gegna mikilvægu hlutverki í sínu vistkerfi og lifa á svæðum sem verða fyrst fyrir barðinu á súrnun sjávar.

Fyrrnefndur bertálkni er mikilvægur fyrir vistkerfi sjávar á norðurslóðum en kalkskel hans er honum nauðsynleg vörn. Höfundar komust að því að við það að breyta pH gildi sjávar í áætluð gildi fyrir árið 2100 þá óx skel bertálknanna 30% hægar en við eðlilegt gildi.

Djúpsávarkórallinn sýndi enn minni vaxtarhraða eða um 50% hægari vöxt við fyrrnefndar breytingar og en hann þykir mikilvægur við að skapa búsvæði fyrir aðrar lífverur. Hægari vöxtur myndi því hafa neikvæð áhrif á þau vistkerfi.

Höfundar lýsa áhyggjum sýnum af framtíð bertálknanna, djúpsjávarkóralla og þeirra lífvera sem eru háðar þeim til lífsafkomu ef súrnun sjávar verður líkt og spár segja til um. Þeir telja að til að koma í veg fyrir að súrnun sjávar verði vandamál viðlíka sem þessi rannsókn bendir til, þá verði að draga töluvert úr losun CO2 út í andrúmsloftið.

Heimildir:

Greinin um bertálknana: Impact of ocean acidification on a key Arctic pelagic mollusc (Limacina helicina) – Comeau ofl. 2009
Greinin um djúpsjávarkórallana: Calcification of the cold-water coral Lophelia pertusa under ambient and reduced pH – Maier ofl. 2009

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál