Inngangur
Til skamms tíma hafa loftslagsmál verið næsta lítið í almennri umræðu á Íslandi. Sú umræða sem þó hefur átt sér stað, hefur lengst af einkennst annars vegar af fáum en vönduðum greinum sérfræðinga sem hafa útskýrt áhrif mannlegra athafna á loftslag á jörðinni og hvatt til markvissra aðgerða til að sporna gegn hættulegri hlýnun og hins vegar af fyrirferðarmiklum svörum svonefndra efasemdarmanna, sem telja sig vita betur en 90-100% vísindamanna þessa heims og halda því enn fram að allt tal um loftslagsbreytingar af mannavöldum sé kjaftæði, hræðsluáróður og samsæri.
Nú bendir hins vegar flest til að umræðan sé að breytast, eða öllu heldur að verða að almenningseign. Almenningur er með öðrum orðum að vakna til vitundar um að framtíð þeirra sjálfra og afkomenda þeirra sé í hættu vegna loftslagsbreytinga ef ekkert verður að gert, og að loftslagsmál séu eitthvað annað og meira en flókinn og kerfislægur málaflokkur sem embættismenn þrefa um á alþjóðlegum fundum og leiðindaskarfar skrifa um í leiðinleg blöð. Fólk er sem sagt að átta sig á því að loftslagsmál varða það sjálft, og að það sjálft sé bæði mikilvægur hluti af vandamálinu og lausninni.
Þegar litið er út fyrir landsteinana er augljóst að almenningur í nágrannalöndunum er löngu vaknaður til vitundar um loftslagsvandann. Þessa dagana eru loftslagsmálin reyndar meira til umræðu í grasrótinni en nokkru sinni fyrr, enda stendur nú fyrir dyrum ein mikilvægasta loftslagsráðstefnan til þessa, þ.e.a.s. 15. aðildarþing loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna, COP-15, sem haldið verður í Kaupmannahöfn 7.-18. desember nk. Þar þurfa þjóðir heims að ná saman um skjal sem leysir Kyoto-bókunina af hólmi þegar hún rennur sitt skeið á enda árið 2012.
Víða um heim hefur fólk bundist samtökum um að láta loftslagsmálin virkilega til sín taka og senda leiðtogum þjóða heims skýr skilaboð um vilja grasrótarinnar til að ná fram raunverulegum úrbótum á þessu sviði. Upp úr þessu hafa sprottið þó nokkur verkefni sem íslenskur almenningur gæti sem best kynnt sér og tekið þátt í. Í þessum pistli verður minnst á fáein þeirra.
350.org
Grasrótarhreyfingin 350 er ein þeirra hreyfinga sem orðnar eru áberandi í loftslagsumræðunni. Hreyfingin rekur uppruna sinn til bandaríska rithöfundarins Bill McKibben og hreyfingar sem hann og félagar hans hleyptu af stokkunum árið 2007 undir yfirskriftinni „Step It Up“. Sú hreyfing skipulagði rúmlega 2.000 viðburði í öllum ríkjum Bandaríkjanna til að vekja athygli á loftslagsvandanum og setja hann í samhengi við daglegt líf fólks. Þessi hreyfing mun hafa átt sinn þátt í að sannfæra Barack Obama, núverandi forseta Bandaríkjanna um mikilvægi þess að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Hreyfingin 350 er alþjóðlegt átak sem ætlað er að byggja upp samstöðu um loftslagsmál um víða veröld og stuðla að lausnum sem byggja á vísindalegum grunni og eru jafnframt sanngjarnar fyrir jarðarbúa, hvar sem þeir eru búsettir. Nafnið 350 er engin tilviljun, því að nú er almennt talið að styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu megi ekki fara yfir 350 milljónustuhluta (ppm) ef takast eigi að afstýra verulegum loftslagsbreytingum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Reyndar er styrkurinn þegar kominn hátt í 390 ppm, þannig að viðfangsefnið er að ná honum aftur niður í 350!
Hreyfingin 350 ætlar sér að fylkja almenningi, fjölmiðlum og stjórnmálaforingjum á bak við 350-markmiðið. Í þeim tilgangi verður efnt til alþjóðlegs loftslagsaðgerðadags 24. október nk. Skipulagðar hafa verið uppákomur á fjölmörgum áberandi stöðum um heim allan, þar sem leiðtogar heimsins verða minntir á að lausnir á loftslagsvandanum þoli enga bið. Um miðjan dag 15. október var vitað um samtals 2.496 uppákomur í 157 löndum af þessu tilefni.
Nokkrir heimsþekktir einstaklingar hafa gerst sérstakir sendiherrar 350. Í þeim hópi eru m.a. Desmond Tutu erkibiskup, baráttukonurnar Vandana Shiva og Sheila Watt-Cloutier, Mohamed Naseed forseti Maldíveyja, Bianca Jagger og þáttastjórnandinn David Suzuki.
Hægt er að fræðast meira um 350 og ganga í lið með hreyfingunni á www.350.org. Hreyfingin er einnig með Facebooksíðu, www.facebook.com/350.org. Þá er tilgangi hreyfingarinnar lýst á myndrænan hátt í myndbandi á Youtube; http://www.youtube.com/watch?v=s5kg1oOq9tY&feature=player_embedded.
Hopenhagen
Önnur grasrótarhreyfing sem er áberandi í loftslagsumræðunni um þessar mundir er Hopenhagen. Eins og sést rímar nafnið við Copenhagen, enda gengur hreyfingin út á að breyta Kaupmannahöfn í Vonmannahöfn, eða með öðrum orðum að stuðla að því að mannkynið eignist nýja von á fundinum í Kaupmannahöfn í desember. Vonin er í raun sú, að í Kaupmannahöfn takist að leggja grunn að betri framtíð með sjálfbærari lífsháttum. Aflið til að koma þessu í kring er heimssamfélag sem leiðir leiðtoga sína inn á braut réttra ákvarðana.
Á heimasíðu Hopenhagen er m.a. hægt að undirrita sérstakt bænaskjal. Þar með gerist maður íbúi í Vonmannahöfn og segir um leið öðrum frá því hvað það er sem fyllir mann von. Um miðjan dag 15. október höfðu 77.388 manns víða um heim gerst íbúar í Vonmannahöfn.
Meiri upplýsingar um Hopenhagen er m.a. að finna á www.hopenhagen.org og á Facebooksíðu samtakanna; www.facebook.com/hopenhagen.
Seal the Deal
Undirskriftasöfnun Hopenhagen-hreyfingarinnar er hluti af stærra átaki undir forystu Sameinuðu þjóðanna, sem gengur undir nafninu „Seal the Deal“. Samtals höfðu 321.399 manns undirritað skjalið um miðjan dag 15. október, þar af 40 Íslendingar. Þeir sem undirrita skjalið á heimasíðu Hopenhagen (sjá framar) komast sjálfkrafa á þennan lista. Bænaskjalið með undirritunum verður afhent leiðtogum heimsins á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn í desember.
Meiri upplýsingar um „Seal the Deal“ er að finna á www.sealthedeal2009.org. Og að sjálfsögðu hefur einnig verið stofnaður „Seal the Deal“-hópur á Facebook.
Avaaz
Auk þess sem hér hefur verið nefnt hafa Avaaz-samtökin beitt sér mjög í loftslagsmálum á síðustu vikum og mánuðum. Skemmst er að minnast alþjóðlegrar bylgju sem reis hátt 21. september sl., þegar gríðarlegur fjöldi fólks í meira en 130 löndum tók upp símann og hringdi til eigin þjóðarleiðtoga til að hvetja þá til dáða í loftslagsmálum. Átakið, sem nefnt var „Global Wake-up Call“, virðist hafa skilað miklum árangri. Í framhaldinu ákváðu m.a. Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Luiz Inácio Lula da Silva, forseti Brasilíu, að mæta sjálfir á Kaupmannahafnarfundinn í desember. Hægt er að fræðast meira um þetta átak á https://secure.avaaz.org/en/sept21_hub. Nú undirbýr Avaaz í samvinnu við tcktcktck (sjá neðar) alþjóðlegan loftslagsdag 12. desember nk., en þar er ætlunin að láta raddir fólksins heyrast þannig að þær fari ekki fram hjá leiðtogunum sem þá sitja á fundi í Kaupmannahöfn.
Tcktcktck
Enn má nefna hreyfinguna tcktcktck, en þar er um að ræða gríðarstóra alþjóðlega fjöldahreyfingu einstaklinga og samtaka. Tcktcktck hefur í aðalatriðum sömu markmið og hreyfingarnar sem nefndar eru hér að framan. Þessar hreyfingar eiga ekki í innbyrðis samkeppni, heldur tengjast þær og styðja hver við aðra. Um miðjan dag 15. október höfðu rúmlega 2,2 milljónir einstaklinga og samtaka gerst aðilar að tcktcktck. Nánari upplýsingar um hreyfinguna er að finna á www.tcktcktck.org.
Lokaorð
Hér hefur aðeins fátt eitt verið nefnt. Ljóst er að nú er vaxin úr grasi alþjóðleg fjöldahreyfing, hvaða nafni sem hún nefnist, sem gerir ákveðið og einlægt tilkall til leiðtoga heimsins um að þeir nái samkomulagi um aðgerðir í loftslagsmálum, sem nægja til að þess að börnin okkar, barnabörnin og börnin þeirra geti lifað góðu lífi á jörðinni, rétt eins og við. Einstaklingarnir geta vissulega haft áhrif, og verkefnin sem nefnd hafa verið í þessum pistli bjóða einmitt upp á tækifæri til þess.
Í fyrirsögn þessa pistils var spurt hvort almenningi væri sama um loftslagsmál. Svarið er augljóslega NEI. Sameiginlegt átak nógu margra getur leitt til breytinga sem gerast miklu hraðar en nokkurn órar fyrir. Þetta er bara spurning um í hvaða liði maður vill vera.
Eftirmáli
Það vill svo skemmtilega til að í dag, 15. október 2009, er alþjóðlegur aðgerðadagur bloggara, sem er að þessu sinni helgaður loftslagsbloggum, (sjá nánar á www.blogactionday.org).
Takk fyrir fínan pistil Stefán. Ég er að mestu leiti sammála þér um að almenningi sé ekki sama um loftslagsmál, en um leið tel ég að þetta mál hafi hingað til ekki verið ofarlega á forgangslista fólks. Þetta er hlutur sem mörgum langar ekki til að spá í, m.a. vegna þess að því þykir erfitt að setja sig inn í hvað þetta er og svo vegna þess að reglulega koma fram fullyrðingar um hið andstæða. Þetta er ekki alveg einfalt samhengi að setja sig inní og sumir virðast þar að auki hafa efasemdir um sérfræðinga almennt, sem litar skoðanir þeirra. En eins og þú nefnir, þá er sterk undiralda í gangi víða, þar sem almenningur er byrjaður að krefjast þess að tekið sé á loftslagsmálum af alvöru.
Mbk.
Sveinn Atli
Mjög fínn pistill. Það má eflaust nefna það að við höfðum hugsað okkur að fjalla um eitthvað af þessum grasrótarsamtökum, en höfðum ekki komist í það. Þannig að þú færð hér með miklar þakkir fyrir.
Ég hef haft áhuga fyrir loftslagsmálum í áratugi og lesið ýmislegt um þau allan þamnn tíma. Lengst af þann tíma hafa flestir engan áhuga haft á því fyrirbæri. Hér virðist af pistlinum sem loftslagsmál séu ekkert nema áhrif mannlegra athafna á loftslag. Og það eitt virðist vera telið fyrir fyrirbærisins loftslag á þessari bloggsíðu. Þetta er pólitík. Og á henni hef ég engan áhuga. Ég vona svo að ég móðgi engan þó ég komi þessu á framfæri og finnist mitt gamla góða áhugamál vera orðið illþolandi pólitískt þjark.
Takk fyrir athugasemdina Sigurður. Við höfum lítin sem engan áhuga á pólítíkinni um loftslagsmál. Ef þér finnst pólítísk lykt af því að koma með fréttir af því sem vísindin hafa um málið að segja og hvaða ráðstefnur eru á dagsskrá, þá verður svo að vera, ég veit svo sem ekki hvað við ættum að gera öðruvísi, þú mátt koma með hugmyndir. Við, umsjónarmenn síðunnar, eins og lang stærstur hluti vísindamanna, teljum að losun gróðurhúsalofttegunda hafi áhrif á hitastig hnattrænt. Það er að sjálfsögðu óvissa í þessum efnum og vonandi getum við kastað ljósi á það að einhverju leiti í framtíðinni. Mér finnst það samt undarlegt að það teljist pólítískt að segja frá því sem vísindamenn eru að skoða vegna þessara mála, t.d. fréttir um það að Grænlandsjökull sé að bráðna hraðar en talið reiknað var með, svo dæmi sé tekið.
Ég er alls ekki móðgaður yfir að þú viljir koma þessu á framfæri, en vona þó að þú missir ekki áhuga á þínu gamla góða áhugamáli. Þú mátt gjarnan koma með athugasemdir ef þér finnst við verða pólítískir einhversstaðar, því það er ekki hugmyndin með þessari síðu.
Mbk.
Sveinn
Ef þetta með alla þessa grasrótarhópa er ekki pólitík þá veit ég ekki hvað er pólitík.Þetta eru EKKI fréttir af því sem vísindin hafa að segja.
Það eru ekki allt fréttir hér á síðunni, t.d. eru hér gestapistlar (eins og þessi pistill) og blogg og að sjálfsögðu er pláss fyrir skoðanaskipti eins og t.d. hér í athugasemdunum. En það að koma með fréttir af því sem t.d. NASA eða NOAA segja um hitastig jarðar eða hafísinn á Norðurskautinu, það eru FRÉTTIR, meira að segja fréttir sem ekki rata alltaf á aðra fjölmiðla. En hvers vegna að þínu mati, Sigurður, má ekki bara segja frá því sem lang flestir vísindamenn hafa um málið að segja, án þess að það sé einhverskonar pólítík? Og hvernig getur það orðið að pólítísku máli að segja frá því sem margir vísindamenn telja vera nánast staðreynd? Og, EF það er staðreynd að gróðurhúsalofttegundir valda hækkandi hitastigi (eins og lang flestir vísindamenn telja), hversvegna má þá ekki ræða það – er það einhverskonar tabú? Jafnvel þó að það sé gert í hópum fólks sem telur að vandinn sé til staðar og að eitthvað þurfi að gera.
Frá mínu sjónarhorni finnst mér oft meiri stjórnmál í því að reyna að draga úr vandanum en að reyna að benda á hann. Ég hef t.d. engin falin tilgang með því að vilja koma ákveðnum upplýsingum (mikilvægum að mínu mati) til skila, heldur tel ég að eftir því sem fleiri þekki til málsins þá höfum við meiri möguleika til að ná góðum árangri.
Það sem Stefán bendir á í gestapistlinum eru nokkrir hópar fólks sem einnig vilja benda á að þessi vandi sé til staðar, það má með góðum vilja kalla það pólítík þeirra samtaka, en þá er einnig hægt að benda á að það lífið sjálft er ekki laust við pólítík. Kannski er erfitt að sneiða hjá pólítík í þessari umræðu, en það er ekki takmark okkar umjónarmanna síðunnar að vera pólítískir í nálguninni á efninu almennt, en væntanlega verður því takmarki seint náð til fullnustu.
Mig langar einnig að taka fram að við gefum öllum gestapistlahöfundum frjálsar hendur við nálgun efnisins.
Mbk.
Sveinn
Á það skal einnig bent að ég hef ekki hugmynd um hvar Sveinn Atli stendur í pólitík og ég veit ekki til þess að hann viti hvar ég stend í pólitík. Við spyrjum heldur ekki gestapistlahöfunda okkar hvar þeir standa í pólitík.
Hér er skrifað um loftslagsmál og loftslagsbreytingar og þær eru til staðar hvar svo sem menn standa í pólitík.
Mikið væri það nú gleðilegt ef menn væru til í ræða loftslagsmál á vísindalegum grunni. Því miður er bara ekki að sjá að það sé möguleiki. Í hvert sinn sem áhugamenn um málið ætla að ræða saman er ekki farið að skoða rökin með og á móti heldur er hlaupið yfir í ad hominem árásir, mönnum gerðar upp annarlegar hvatir og sakaðir um að eiga beinna hagsmuna að gæta og/eða vera í vasanum á einhverjum sem hagsmuna að gæta. Þessa gætir hjá báðum fylkingum en þó verður að segjast að þeir sem aðhyllast hnattræna hlýnun af mannavöldum leyfa sér öllu meira í þeim efnum. A.m.k, sé ég ekki að hinir séu sakaðir um þjóðarmorð og hvatt til þess að þeir verði teknir af lífi né að þeir séu í flokki með nasistum útrýmingarbúðanna.
Það er hárrétt sem Sigurður Þór Guðjónsson segir að spurningin um hnattræna hlýnun er ekki lengur vísindaleg heldur trúarleg spurning.
Takk fyrir innleggið Hörður. Hér á þessum síðum greinum við frá vísindalegum grunni þessara kenninga. Þú getur kíkt á síðurnar og gert athugasemdir við stóran hluta efnisins, ekkert mál. Þú hefur þó kosið, með athugasemdinni hér að ofan, að gera það ekki og tel ég það vera miður.
Við sökum engan um þjóðarmorð og notum ekki Ad hominum rök að ég tel. Aftur á móti bendum við á rök, mælingar, niðurstöður og ályktanir vísindamanna þar sem það á við og getum heimilda fyrir meirihlutanum af því efni sem við skrifum hér á þessum síðum. Ástæðan fyrir því hversu oft við vitnum í heimildir er í fyrsta lagi vegna þess að við erum áhugamenn um loftslagsmál og í öðru lagi til að gefa lesendum kost á að leita sér upplýsinga sjálft. Jafnframt getur fólk þá komið með athugasemdir og leiðréttingar á því sem hér kemur fram og bent á betri upplýsingar.
Hitt er annað sem ég skil ekki, en það er af hverju umræða um loftslagsmál verður alltaf neikvæð. Við höfum í sjálfu sér ekki boðið heim neikvæðni að mínu mati, við mótmælum því reyndar ef einhver kemur fram með alhæfingar sem styðjast ekki við gögn – sumir túlka það neikvætt. Mér finnst það jákvætt og vil endilega að fólk bendi okkur á ef það sér eitthvað hér sem styðst ekki við gögn, því að út á það ganga vísindin.