Blogg: Er loftslagsvandinn tabú?

Ég hef verið að velta því fyrir mér að undanförnu hvort umræðan um loftslagsvandann sé tabú. Á þessari síðu höfum við í ritstjórninni haft þá stefnu að skrifa um það sem vísindin hafa að segja um loftslagsmálin. Þ.e. að koma inn á rökin, rannsóknirnar og fræðin. Viðtökurnar hafa almennt verið góðar. Efninu er raðað í ákveðna flokka, í hliðarstikunni til hægri eru fastar síður þar sem reynt að koma inn á vísindin á bak við fræðin og svo eru fréttir, blogg, gestapistlar og svokallað heitt efni í tenglunum hér að ofan.

Mitt persónulega mat er það, að það séu verulegar líkur á því að gróðurhúsalofttegundir og magn þeirra í lofthjúpnum hafi bein áhrif á hitastig jarðar, það er það sem vísindin segja okkur í dag. Hversu mikið, er ákveðinni óvissu háð, þ.a.l. eru t.d. ekki allar spár um hækkun hitastigs eins. Einnig koma þarna inn náttúrulegar sveiflur jarðar sem hafa áhrif á hitastig jarðar nú eins og alltaf. Þessar náttúrulegu sveiflur hafa þau áhrif að bæði getur hitastig hækkað meira en spár gerðu ráð fyrir eða jafnvel lækkað tímabundið.

Umræða um þessi mál er frekar undarleg á köflum. Umræðan virðist stundum fara út í skotgrafahernað tveggja öfgasjónarmiða, þ.e. þeirra sem telja að heimurinn sé að farast og þeirra sem ekkert vilja gera. Þarna á milli eru svo mörg litbrigði skoðana. Nú vil ég gjarnan taka það fram að ég tilheyri hvorugum öfgahópnum, en tel vandann vera til staðar og tel að við honum verði að bregðast. Persónulega tel ég að hægt sé, með hjálp tækni og með breyttum viðhorfum, að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ef meira þarf til, þá þarf að fara fram pólítísk umræða um hvernig skuli ná þeim markmiðum, sú umræða fer m.a. fram í Kaupmannahöfn í desember, þar sem fulltrúar 192 landa koma saman og ræða málin.

Nú langar mig að fara í smá þankatilraun, þar sem ég bið lesendur um að hugsa sem svo, “Loftslagsvandi af mannavöldum er raunverulegur”. Þessi tilraun gengur út á að hugsa sem svo, hvað ef vísindamenn þeir sem rannsaka þessi mál mest hafa rétt fyrir sér? Við þessa tilraun verða til nokkrar spurningar sem vert er að skoða nánar.

  1. Eigum við að hafa áhrif á framtíðina og ræða loftslagsmálin opinskátt?
  2. Er það skylda okkar að finna lausnir?
  3. Hvar viljum við setja markið fyrir því að þetta sé í raunverulegur vandi, er það við 0,5°C eða 2°C hækkun hitastigs, eða einhver önnur tala?
  4. Ef hitastig hækkar lítillega, miðað við einhverjar forsendur, stendur okkur þá á sama?
  5. Hvenær verður vandinn raunverulegur samkvæmt því (3. og 4. spurning)?
  6. Hvað ef það kemur í ljós eftir 50 ár að þetta hafi verið minni vandi en hugsanlega er talið líklegt í dag, ætti sá möguleiki að hafa áhrif á umræðuna í dag, sem ætti að vera út frá bestu fáanlegum upplýsingum dagsins í dag?
  7. Eigum við að ræða hugsanlegar óþægilegar afleiðingar loftslagsbreytinga af mannavöldum?
  8. Á loftslagsumræða á pólítískum nótum rétt á sér?
  9. Hvernig munu lífskilyrði þróast um allan heim ef við tökum á vandanum?
  10. Ef vandinn er raunverulegur, hversu langt á þá að ganga í því að gera athugasemdir við umfjöllun sem gerir annaðhvort lítið úr vandanum eða telur hann ekki fyrir hendi?

Þetta eru spurningar sem mig langar að biðja ykkur kæru lesendur, að velta fyrir ykkur. Persónulega hef ég ekki ákveðin svör við öllum atriðunum. Röð spurninga er ekki vegna vægis heldur að handahófi. Fróðlegt væri ef lesendur vildu taka þátt í þessari þankatilraun, með því að svara einni eða fleiri spurningum. Þessi mál mega að mínu viti ekki verða að tabú.

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.