Blogg: Er búið að strauja hokkíkylfuna?

Þeir sem fylgst hafa með umræðu um loftslagsmál í einhvern tíma, kannast eflaust við hokkíkylfuna – sem gengur almennt undir nafninu hokkístafurinn í íslenskri umræðu (en það er eflaust bara misskilningur á hokkí-íþróttinni). Á loftslag.is er ein síða þar sem farið er lauslega yfir mýtuna um að hokkíkylfan sé röng. Sífellt bætast þó við nýjar og nýjar ásakanir um að eitthvað sé “bogið” við hana. Smá upprifjun fyrst:

Hokkíkylfan hin fyrri

Hokkístafurinn sem gerður var 1999 og birtist í skýrslu IPCC 2001.

Hokkístafurinn sem gerður var 1999 og birtist í skýrslu IPCC 2001.

Hokkíkylfan er viðurnefni sem línurit nokkuð hefur fengið og fékkst út úr viðamiklum rannsóknum sem Micheal Mann og fleiri gerðu, oft eingöngu kennt við Micheal Mann sem er sérfræðingur í fornloftlagsfræðum (paleoclimatology). Línuritið sýnir fornhitastig síðustu 1000 árin og er gert með samanburði á ýmsum ferlum sem voru í gangi til forna og hvernig þessi ferli eru nú – og þannig fengið svokallað proxý hitastig (nálgunarhitastig – óbeinar hitamælingar). Í þessu tilfelli voru notuð trjáhringagögn, vöxtur kórala og borkjarnar úr jöklum og það borið saman við hitastigsferil samkvæmt beinum mælingum.

Hokkíkylfan hin nýrri

Í september í fyrra kom síðan út grein þar sem Mann og fleiri endurskoðuðu línuritið og notuðu til þess tvær nýjar tölfræðiaðferðir (aðrar en í upphafi) og bættu með viðbótar gögnum (setlögum o.fl).  Þessi grein styðst því minna við árhringjarannsóknir en fyrri rannsóknir hans.

Hokkístafurinn hinn nýji (Mann og fleiri 2008). Hann sýnir hitastig síðustu 1800 ár. Rauða línan sínar beinar mælingar en ýmsar óbeinar mælingar (proxý) í ýmsum litum.

Hokkístafurinn hinn nýji (Mann og fleiri 2008). Hann sýnir hitastig síðustu 1800 ár. Rauða línan sínar beinar mælingar en ýmsar óbeinar mælingar (proxý) í ýmsum litum.

Micheal Mann og félagar endurgerðu semsagt línuritið og bættu um betur og lengdu það, svo nú sýnir það áætlað hitastig síðustu 1800 árin á norðurhveli jarðar. 

Nýjar deilur og nýjar rannsóknir

Háværustu mótmælin gegn hokkíkylfunni nú virðast miða að því að gera hluta af gögnunum ómerk (sjá Er hokkíkylfan ónýt?). Það snýst í fyrsta lagi um trjáhringjagögn frá Yamal skaga í Síberíu (sem er eitt af mörgum nálgunarhitastigunum sem notuð eru í hokkíkylfunni). Komið hefur í ljós að gögnin sem Yamal nálgunarhitastigið er byggt á frekar tölfræðilega litlu sýni (12 sýni) og að töluverður hluti af öðrum sýnum, fyrir þetta tiltekna svæði, voru ekki notuð vegna þess að þau kvörðuðu ekki vel við mælt hitastig í nágrenninu. Það er vissulega eðlilegt að nota ekki gögn sem sýna ekki samsvarandi hitastigsbreytingar og þekkt mæld gögn, en eflaust er þetta full lítið af gögnum til að byggja á – tölfræðilega séð.

Nú er nýútkomin grein sem eflaust fær marga til að halda að nú sé búið að strauja hokkíkylfuna endanlega. En trjáhringjagögn á Skotlandi benda til þess að tengsl trjáhringja við geimgeisla sé mun sterkari en tengsl við hitastig – og þar af leiðandi er komin vafi um það hvort nálgunarhitastig gert með trjáhringjarannsóknum séu ómerk (sjá Vöxtur trjáa í takti við munstur geimgeisla). Það á reyndar eftir að koma í ljós hvort þetta sé einstakt fyrir þetta gagnasafn og hvort eitthvað sé að aðferðafræðinni.

En hvað gerist ef við dæmum trjáhringjagögn, við gerð nálgunarhitastigs fyrir fornloftslag, úr sögunni? Hvaða áhrif hefur það á hokkíkylfuna?

Trjáhringjagögn skipta ekki öllu máli

Staðsetning sýnatökustaða. Mismunandi tákn fyrir mismunandi tegund gagna og mismunandi litur eftir hvenær þau byrja (Mann o.fl. 2008)

Staðsetning sýnatökustaða. Mismunandi tákn fyrir mismunandi tegund gagna og mismunandi litur eftir hvenær þau byrja (Mann o.fl. 2008)

Það sem hefur vantað í umræðuna allavega hér á Íslandi er það að Mann sá fyrir að einhverjir myndu gagnrýna notkun hans á trjáhringjagögnum og því prófaði hann að plotta fornhitastigið án trjáhringjagagna:

Hokkíkylfan. Öll gögnin (græn lína), án trjáhringjagagna (blá lína). Mann o.fl. 2008.

Hokkíkylfan. Öll gögnin (græn lína), án trjáhringjagagna (blá lína) og hiti með beinum mælingum (rauð lína). Mann o.fl. 2008.

Eins og sést á myndinni hér fyrir ofan þá er ekki mikill munur á gögnunum með og án trjáhringjagagna – en ástæða þess að Mann o.fl. ákváðu þó að nota þau – var að án trjáhringjanna varð skekkjan, fyrir árin 700 og fyrr, mun meiri.

Það er því langt í frá komin ástæða til að afskrifa hokkíkylfuna, þrátt fyrir einhvern vafa um trjáhringjagögn – hvort heldur vafinn um þau eigi eftir að reynast réttur eða ekki.

Hokkíkylfan er því enn óstraujuð.

Heimildir

Greinin frá því í fyrra um hokkíkylfuna. Mann o.fl. – Proxy-based reconstructions of hemispheric and global surface temperature variations over the past two millennia 

Viðbótargögn sem fylgdu greininni: Supplementary material.

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál