Hér er stutt yfirlit yfir færslur af Loftslag.is. Einnig er yfirlit yfir fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun, en gerðum ekki sérstakar færslur um. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint.
Yfirlit – fréttir og pistlar:
Frá því síðasta yfirlit leit dagsins ljós þá hafa ýmsar færslur ratað á síður Loftslag.is. Við höfum skrifað ýmsar fréttir frá því síðasta yfirliti, verður farið yfir nokkrar hér. Við skrifuðum umfjöllun um það að nýliðin september var næst hlýjasti september frá því 1880. Nýleg rannsókn þar sem mælingar sýna fram á munstur milli vöxt trjáa og geimgeisla varð á vegi okkar. Skoðanakönnun sem gerð er af Pew Research Center for the People & the Press gefur til kynna að færri Bandaríkjamenn telji traustar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun, en í síðustu könnun, þessi frétt varð m.a. fréttaefni þar sem vitnað var í Loftslag.is á Visir.is. Hafa pálmar vaxið á norðurslóðum er spurning sem vísindamenn við háskóla í Hollandi velta fyrir sér og varð meðal annars fréttaefni á bæði Mbl.is og Visir.is. Nú síðast birtum við svo frétt um að tölfræðingar telja leitni hitastigs vera upp á við á síðustu árum og áratugum.
Fimmtudaginn 22. október birtist fróðlegur gestapistill um fugla og loftslagsbreytingar eftir Tómas Grétar Gunnarsson og kunnum við honum þakkir fyrir. Einnig eru nokkrar bloggfærslur sem vert er að nefna. Þankatilraun um það hvort að loftslagsvandinn sé tabú kom fram, en litlar umræður fóru fram um það, en enn er opið fyrir athugasemdir ef vilji er til þess að ræða það efni nánar. Við fengum fróðlega fyrirspurn frá Guðlaugi Ævari, sem við reynum að svara í “Geta hafnarbylgjur frá Austur Grænlandi valdið tjóni á Íslandi?“. Það hafa verið einhverjar vangaveltur að undanförnu um hokkíkylfuna svokölluðu, af því tilefni spurðum við spurningarinnar, “Er búið að strauja hokkíkylfuna?” í einni færslu. Að lokum má benda á stutta færslu um hversu mikið af CO2 er losað í andrúmsloftið af völdum manna.
Ýmislegt annað hefur ratað á síðurnar, m.a. myndbönd, léttmeti og heit málefni, sem sjá má hér. Helst má nefna af þessum lista færslu undir heit málefni, þar sem tekin er fyrir pistill sem birtis á vef BBC þar sem pistlahöfundurinn lýsir eftir hlýnun jarðar.
Stuttar fréttir
Hrísgrjónabændur heims eru í vanda, en mörg af þeim löndum sem framleiða hrísgrjón hafa orðið fyrir miklum búsifjum vegna óvenjulegs veðurfars. Skemmst er frá að minnast á óvenjulega mikla úrkomu á Filippseyjum, seinkun á monsúninum á Indlandi og mjög útbreidda þurrka á Ástralíu. Október-desember hefti Rice Today einblínir á loftslagsbreytingar og möguleg áhrif þess á hrísgrjónarækt. Í því kemur fram að það sé erfitt að sanna að loftslagsbreytingar séu valdar að núverandi veðri. Þrátt fyrir það, þá hefur stofnun í hrísgrjónarannsóknum (International Rice Research Institute – IRR) kortlagt þau svæði á Filippseyjum sem líklegust eru til að verða fyrir neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga. Nánar má lesa um málið á Science Daily, en einnig er hægt að nálgast tímaritið á heimasíðu IRRI (ókeypis en nauðsynlegt að skrá sig).
Jarðskjálftafræðingar hafa í gegnum tíðina síað út bylgjusuð sem jarðskjálftamælar nema þegar úthafsalda kemur af fullum krafti að landi – vegna truflana sem suðið veldur við mælingu jarðskjálfta. Nú ætla menn að snúa þessu við og sía út jarðskjálftana til að sjá breytingu í þeirri orku sem úthafsaldan veldur þegar hún kemur að landi. Talið er að þetta verði gott innlegg í umræðuna um það hvort fellibylir á Atlantshafi hafi aukist með hlýnun jarðar. Þar sem menn deila um það hvort fellibylir séu að aukast eða ekki þá gæti þessi rannsókn skorið úr um það. Sjá nánari umfjöllun á Discovery.
Bílasýningin í Tokyo er hafin. Að þessu sinni er mun meira úrval umhverfisvænna bíla en áður hefur verið. Þar eru til sýnis allskyns hugmyndabílar, tengitvinnbílar, rafmagnsbílar svo fátt eitt sé nefnt. Það eru því margir sem berjast um sviðsljósið nú sem endranær. Rafmagnsbílar virðast m.a. ætla að stela sviðsljósinu í ár vegna tækniframfara í endurhlaðanlegum rafhlöðum, sem getur gert fjöldaframleiðslu enn fýsilegri en áður. Við viljum benda á betri og nánari um fjöllun um þessa sýningu á heimasíðunni visindin.is.
Það er ekki úr vegi að benda fólki á íslenskt dæmi um afleiðingar hlýnandi loftslags – svokallaða Skógarmítlu sem færir sig norðar á bóginn. En þar sem þessi umræða hefur farið fram víða á íslenskum fjölmiðlum, þá látum við okkur nægja að benda á ítarlegar umfjallanir um þetta. Heimasíða Náttúrufræðistofnunar Íslands er lógískasti staðurinn til að byrja – hér er frétt og svo nánari umfjöllun á þeirri síðu. Einnig má lesa fréttir um málið meðal annars á ruv.is og mbl.is
.
Heimsmeistarakeppnin í fótbolta fer fram í Suður-Afríku 2010. Flestir stærri íþróttaviðburðir, eins og t.d. Ólimpíuleikarnir og HM í fótbolta reyna að jafna kolefnisfótsporin, helst þannig að það verði hlutlaust. HM í Suður-Afríku er engin undantekning þar á. Keppning í Suður-Afríku þarf að takast á við 10 sinnum stærri kolefnislosun heldur en keppnin 2006 í Þýskalandi. Mikilvægt er í þessu sambandi að taka fram að Þjóðverjar þurftu ekki að huga að því að kolefnisjafna frá flugi eins og gert verður í Suður-Afríku. Kolefnislosun frá flugi í þessum mánuði á meðan keppnin fer fram, verður 67% af heildarlosun landsins á tímabilinu, þar sem búist er við um 500.000 áhorfendum og þátttakendum á keppnina. Sjá nánar, Reuters og COP15.
Leave a Reply