Frétt: Pálmatré á norðurslóðum

1216_02_75---Palm-tree--Las-Vegas--Nevada--USA_webSamkvæmt rannsókn sem gerð var frá Háskólanum í Utrecht í Hollandi, þá uxu pálmar á svæði sem var um 500 km frá Norðurpólnum fyrir rúmum. 50 miljón árum (tengt svokölluðu Paleocene–Eocene Thermal Maximum). Loftslagið þar hefði þá verið líkt því sem er í Flórída í dag að sögn Appy Sluijs, sem er einn þeirra sem stóð að rannsókninni. Í rannsókninni fundust frjókorn úr m.a. pálmaplöntum (ekki er hægt að segja til um hvort þetta voru tré) í setlögum á sjávarbotni á svæði því sem rannsóknin fór fram á.

Ef pálmaplöntur hafa vaxið á þessu tímabili þá þykir ljóst að hitastig hefur ekki farið undir 8°C á kaldasta tíma ársins, sem er töluvert meira en áður hefur verið talið. Það má orða það þannig að menn töldu að það hefði verið heitt, en ekki svona heitt. Loftslagslíkön sem notuð eru í dag hafa ekki náð að sýna svo hátt hitastig á þessum tíma á þessu svæði. Þar með hafa vaknað spurningar um hvort að líkönin geti með nægilega tryggum hætti sýnt fram á hitastig þessa tíma og hvort þau hafi þá mögulega vanmetið áhrif aukins CO2 í lofthjúpnum. Þá spyrja menn sig hvort óútskýrð magnandi svörun hafi átt sinn þátt í þessu aukna hitastigi.

Ástæða aukningar CO2 á þessum tíma og hvaða magnandi svörun varð þess valdandi að það hlýnaði svona mikið eru á huldu. Kenningar hafa verið uppi um að við opnun Atlantshafsins hafi eldfjöll losað gríðarlega mikið magn CO2 – það eitt og sér þykir þó langt frá því að vera nóg. Kolefnisríkur loftsteinn hefur einnig verið nefndur til sögunnar, en Irridium frávik í setlögum þess tíma bendir ekki til þess að það sé möguleiki (Irridium er frumefni sem óhjákvæmilegur fylgifiskur slíkra loftsteina). Móbruni og breytingar í sporbaug jarðar hafa einnig verið nefnd til sögunnar. Hver svo sem ástæðan fyrir því að aukningin á CO2 varð, þá verður að koma til magnandi svörun. Hingað til hefur metanlosun verið talin líklegasti sökudólgurinn, þá við bráðnun sífrera í sjávarsetlögum á norðurslóðum. Það gæti hafa haft magnandi áhrif og aukið hraða hlýnunarinnar.

Í þessari rannsókn kemur fram ný tilgáta um ferla sem gætu hafa haft áhrif samfara fyrrnefndum kenningum, en hún er sú að óþekkt tegund skýja hafi myndast á norðurslóðum þegar hlýnaði – sem virkaði eins og teppi yfir norðurskautinu. Þannig hafi hitinn aukist á norðurslóðum og hlýnunin orðið hraðari.

Vísindamennirnir velta því fyrir sér hvort slík myndun skýja geti orðið hálfgerður vendipunktur við núverandi hlýnun.

Ítarefni:

Frétt á Reuters
Frétt af MBL
Um hitahámarkið Paleocene-Eocene má lesa á Wikipedia: Paleocene–Eocene Thermal Maximum

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.