Frétt: Ítarleg skýrsla um loftslag Suðurskautsins

Antarctic climate change and the environmentÚt er komin ítarleg skýrsla eða yfirlitsrit um loftslag Suðurskautsins og hnattræn tengsl þess við loftslagskerfi jarðar, á vegum Vísindaráðs Suðurskautsrannsókna (Scientific Committee on Antarctic Research – SCAR). Yfirlitsritið fer yfir nýjustu rannsóknir sem gerðar hafa verið á Suðurskautinu, fer yfir hvar vantar meiri upplýsingar og tekur á spurningum sem brenna á fólki varðandi bráðnun jökla á Suðurskautinu, sjávarstöðubreytingar og líffræðilega fjölbreytni. 

Þessi skýrsla er alls ekki stutt, allt í allt er hún 555 blaðsíður að lengd, en eflaust á hún eftir að verða mikill fengur fyrir vísindamenn og áhugafólk um loftslag á Suðurskautinu – í fortíð, nútíð og framtíð.

Skýrslan er byggð á rannsóknum yfir 100 leiðandi vísindamanna frá 13 löndum og er fókusinn á áhrif og afleiðingar aukinnar hlýnunnar á Suðurskautsskaganum og Suður-Íshafi. Þá er einnig fjallað ítarlega um hörfun jökla og aukningu á hafís í kringum meginlandið, áhrif loftslagsbreytinga á plöntur og dýralíf, vensl hlýnunar af mannavöldum og náttúrulegra sveifla og það sem þykir hvað merkilegast í dag – að það virðist vera sem gatið í ósonlaginu hafi hægt á hlýnun jarðar á Suðurskautinu. Um margt annað er fjallað, enda er þetta mjög umfangsmikil skýrsla.

Í svona ítarlegri skýrslu er nauðsynlegt að hafa gott yfirlit yfir það hvað sé markverðast í skýrslunni og í ágripi skýrslunnar eru teknir saman 80 punktar yfir það markverðasta sem er í skýrslunni. Fyrir okkur sem höfum ekki tíma til að lesa alla skýrsluna í einni lotu, þá er í fréttatilkynningu um skýrsluna teknir saman 10 meginatriði úr skýrslunni (sem hér er þýtt lauslega):

 1: Gat í ósonlaginu hefur hægt á hlýnun jarðar á Suðurskautinu

Gatið í ósonlaginu hefur hægt á áhrifum gróðurhúsaáhrifanna á loftslag Suðurskautsins. Breytingar í veðrakerfum í kringum og á Suðurskauti hefur orðið til þess að Suðurskautið hefur einangrast og er ekki í takti við hlýnun jarðar annars staðar á hnettinum. Fyrir vikið hefur hlýnun Suðurskautsins verið mun minni en búast hefði mátt við – ef undan er skilið Vestur-Suðurskautið og þá sérstaklega Suðurskauts-Skaginn (Antarctic Peninsula) en þar hefur hlýnað hratt.

2: Hlýnun Suður-Íshafsins mun breyta vistkerfi Suðurskautsins

Hafstraumar umhverfis Suuðurskautið hafa hlýnað hraðar heldur en heildarhlýnun sjávar á hnettinum öllum. Suður-Íshafið bindir mikið af koldíoxíði úr andrúmsloftinu en auknir vestlægir vindar hafa dregið úr getu hafsins til að taka til sín koldíoxíðs. Ef  hlýnun jarðar heldur áfram, þá munu framandi tegundir lífvera aukast á svæðinu og keppa um fæðu við upprunalegar tegundir Suðurskautsins. Lykiltegundir í fæðukeðju svæðisins eru taldar eiga erfitt uppdráttar ef súrnun sjávar eykst.

3: Aukin umsvif planta á Suðurskauts-Skaganum 

Hröð hlýnun hefur verið á Suðurskauts-Skaganum, ásamt breytingu frá snjókomu og yfir í rigningu yfir sumartímann. Það hefur leitt af sér aukin umsvif planta og dýra á því svæði.

4: Hröð jökulhörfun á hluta Suðurskautsins

Jökulhvel Vestur Suðurskautsins hefur þynnst mikið í kjölfar hlýrri sjávar. Einnig hafa íshellur á Austur Suðurskauts-Skaga minnkað og  90% af jöklum Skagans hafa hopað síðustu áratugi. Hinsvegar hefur meirihluti jökulhvels Suðurskautsins sýnt litla breytingu. 

5: Hafís umhverfis Suðurskautið hefur aukist um 10%

Frá 1980 hefur hafís umhverfis Suðurskautið aukist um 10%, sérstaklega á Rosshafi, sem bein afleiðing af sterkari vindum umhverfis meginlandið (vegna gatsins í ósonlaginu). Á móti hefur hafís minnkað vestur af Suðurskauts-Skaganum vegna hlýrri vinda á því svæði.

6: Koldíoxíð eykst nú hraðar en nokkru sinni síðastliðin 800.000 ár

Magn CO2 (koldíoxíðs) og CH4 (metans) eru hærri nú en síðastliðin 800.000 ár og aukast hraðar nú en nokkurn tíma á þeim tíma. Suðurskautið var hlýrra á síðasta hlýskeiði ísaldar (fyrir um 130.000 árum) og sjávarstaða var hærri, en  framlag Vestur-Suðurskautsins til þess ástands er óþekkt. Lítilsháttar breytingar í loftslagi síðastliðin 11.000 ár hefur haft töluverð áhrif á jökulmassann, hafstrauma og vindakerfi, sem sýnir hversu viðkvæmt Suðurskautið er fyrir loftslagsbreytingum. Rannsóknir á setlögum undir nýlega horfnum íshellum benda til þess að hvarf þeirra eigi sér ekki fordæmi á því tímabili.

7: Minnkun hafíss hefur áhrif á magn átu og mörgæsaþyrpingar

 Vestur af Suðurskauts-Skaganum hefur orðið breyting á þörungagróðri og hnignun í útbreiðslu átu. Minnkun hafíss á sama svæði hefur haft þau áhrif að þyrpingar Adélie mörgæsa hafa minnkað en haldið í horfunu annars staðar.

8: Spáð er að Suðurskautið muni hlýna um sirka 3°C á þessari öld

Á þessari öld er því spáð að gatið í ósonlaginu muni minnka, svo að áhrif aukningar á gróðurhúsalofttegundum fer að verða nær því sem búast megi við. Hafís er talin muni minnka um þriðjung. Aukning hitastigs er ekki talin vera nóg til að bræða aðal jökulhvel Suðurskautsins og aukning úrkomu í formi snjókomu er talin geta myndað mótvægi um nokkra sentimetra á móti sjávarstöðuhækkunum.

9: Bráðnun jökuls á Vestur-Suðurskautinu gæti hækkað sjávarstöðu um 1,4 m

Líklegt er talið að bráðnun jökuls á Vestur-Suðurskautinu eigi eftir að valda sjávarstöðuhækkunum um tugi sentimetra til ársins 2100. Því er búist við sjávarstöðuhækkun um 1,4 m eða meira á þessari öld.

10: Bætt líkanagerð sem skýrir út ferli á heimsskautunum er nauðsynleg fyrir betri spár

Breytileiki í loftslagi heimsskautanna er meiri en annars staðar á hnettinum, samt er lítið til um loftslagsgögn fyrir þessi svæði. Þau þarf að vakta mun nákvæmar í framtíðinni til að hægt sé að nema breytingar og auka þekkingu á þeim ferlum sem þar eru að verki – og til að hægt sé að gera betri greinarmun á náttúrulegum loftslagssveiflum og þeim sem eru af mannavöldum. Aukning á þekkingu fornloftslags er einnig mikilvægt til að greina þar á milli, auk þess sem fínstilling loftslaglíkana getur gert gæfumun í að auka þekkingu okkar á loftslagi heimsskautanna.

Heimildir

Skýrsluna, ásamt fréttatilkynningu má finna á þessari heimasíðu: Antarctic Climate Change and the Environment

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál