Margir hafa eflaust heyrt um hin svokölluðu lýsandi nætuský (e. Noctilucent cloud – einnig kölluð Polar Mesospheric Clouds – PMCs), en ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um tilurð þeirra. Sumir tengja þau við hnattrænar breytingar í loftslagi en tengsl hafa einnig fundist við sólblettasveiflu sólar.
Veðurstofan segir eftirfarandi um lýsandi næturský:
Ofan við háský eru til glitský / perlumóðuský (nacreous clouds) í um 15 – 30 km hæð og lýsandi næturský noctilucent clouds) í um 75-90 km hæð. Þessar skýjagerðir eru mjög sjaldgæfar og tengjast ekki veðri.
Ný rannsókn NASA
Nýjar myndir frá AIM gervihnöttum sýna þessi lýsandi næturský í einstakri upplausn (3×3 mílur) og svo virðist sem tímabil þessara skýja kveiki og slökkvi á sér eins og jarðeðlisfræðileg ljósapera. Svo virðist sem að vísbendingar séu um að einhverskonar “veðrakerfi” myndist í miðhvolfinu, sem að fylgi svipuðu munstri og síbreytilegt veðurfar veðrahvolfsins.
Þessar myndir sýna í fyrsta skipti flókið myndunarferli þessara skýa, yfir þrjú norðurhvelssumur og tvö suðurhvelssumur. Sjá myndband sem sýnir breytinguna í sumar á norðurhveli (maí – ágúst 2009). Hægt var að fylgjast með myndun þeirra, tíðni og birtustig þeirra og hvers vegna svo virðist vera sem þau myndist nú á lægri breiddargráðum en áður (þ.e. á norðurhveli færast þau suður á bóginn).
Þessi ský myndast oftast nær yfir sumartíma hvors hvels jarðar og eru gerð úr ískristöllum sem myndast þegar vatnsgufa þéttist utanum örður í helkulda miðhvolfsins. Þau lýsa á himninum vegna þess hversu hátt þau eru yfir yfirborði jarðar að þau endurspegla sólarljós, þrátt fyrir að sól sé sest.
Þessar gervihnattamyndir ásamt háþróuðum tölvulíkunum hafa sýnt eftirfarandi:
- Hitastig virðist stjórna því hvenær skýin myndast fyrst, breytileika þess yfir hvert tímabil og hvenær þau hætta að myndast. Vatnsgufa er einnig mikilvæg en þekking á því er minni
- Hnattrænar bylgjur í efri lögum lofthjúpsins valda því að næturskýin sýna hnattrænan breytileika, meðan minni bylgjur vegna breytileika í þyngaraflinu veldur því að þau hverfa staðbundið
- Það eru ákveðin tengsl á milli þess hvels sem er í sumar og vetrarham, þ.e. þegar hitastig breytist á því hveli þar sem vetur er – þá breytast næturskýin á hinu hvelinu að sama skapi.
Það virðist því sem þekking á þessu fallega fyrirbæri sé að aukast, en sitthvað er á huldu ennþá.
Ítarefni
Sjá nánari umfjöllun á heimasíðu NASA – NASA’s AIM Satellite and Models are Unlocking the Secrets of Mysterious “Night-Shining” Clouds
Við mælum með Google myndaleit til að skoða fleiri myndir af lýsandi næturskýjum
Leave a Reply