Ég ætla að velta upp spurningu sem virðist stundum koma upp og sérstaklega á tímum sem þessum. Það er jú vetur á norðurhveli jarðar og vetri fylgir oftast nær kuldatíð, eins og t.d. Skandinavar og fleiri hafa fundið fyrir undanfarna daga (sjá t.d. frétt á mbl.is). Spurningin er þessi:
Ef það eru miklir kuldar á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, afsannar það ekki að um hnattræna hlýnun sé að ræða?
Veðrið er síbreytilegt, það er erfitt að reikna það út og lítil breyting í lægðakerfum jarðar getur orðið til þess að kuldamet eru slegin á ákveðnum svæðum (reyndar einnig hitamet – sem dæmi, þá er mjög kalt í Skandinavíu á meðan óvenju hlýtt er á Vesturströnd Grænlands).
Fréttir af kuldatíð á ákveðnum stað á ákveðnum tíma er einmitt það – fréttir af veðri og skal alls ekki rugla því saman við loftslag – en loftslag er tölfræðileg lýsing á veðurfarslegum þáttum þegar til lengri tíma er litið (oft notast við 20-30 ára tímabil). Það sama á vissulega við um fréttir af hitastigi á Grænlandi síðustu daga – sá hiti segir í raun lítið um loftslag.
Af því leiðir að óvenjulegir kuldar á ákveðnum stað og ákveðnum tíma segja í raun lítið um hnattræna hlýnun, þar sem kuldamet eru einnig slegin þegar hnattræn hlýnun er í gangi. Kuldametin gerast þó færri en hitametin, eins og raunin hefur orðið í t.d. Bandaríkjunum, en þar hefur tölfræði hitameta verið skoðuð undanfarna áratugi – en nú er það svo að hitamet hvers dags síðastliðinn áratug hafa komið um tvisvar sinnum oftar en kuldamet (sjá Frétt: Hitamet mun fleiri en kuldamet í Bandaríkjunum).

Þessi mynd sýnir hlutfall hitameta og kuldameta sem féllu á 1800 veðurstöðum í Bandaríkjunum frá 1950 til september 2009, skipt eftir áratugum.
Niðurstaða
Niðurstaðan er sú að jafnvel þegar hnattræn hlýnun er í gangi eins og nú, þá geta komið óvenju kaldir dagar á ákveðnum stað á ákveðnum tíma. Þeim fækkar þó samanborið við óvenju hlýja daga.
Ítarefni
Skeptical Science fjallar nokkuð vel um þessa spurningu hér: It’s freaking cold!
NASA fjallar einnig um munin á veðri og loftslagi, sjá hér: What’s the Difference Between Weather and Climate?
Sjá einnig gott myndband eftir Greenman:
Kæmi ekki réttara mynd ef byrjað væri á árinu 1930? Þá voru mörg mjög hlý ár.
Auðvitað yrði það betri mynd, að sjálfsögðu – en eitthvað hljóta gögnin að hafa verið takmarkandi fyrst þeir fóru ekki lengra aftur (Greinin).
Hitt er annað að í samhengi við færsluna sjálfa, þá þurfum við ekki meira en síðasta áratug og síðasti áratugur sýnir okkur að hitamet eru tvöfalt algengari en kuldamet – það sýnir okkur greinilega að þeir sem koma með þá kjánalegu fullyrðingu að nú sé kalt í Noregi (eða einhverju öðru landi) og því sé engin hlýnun jarðar, hafa annað hvort slæmt minni eða eru að velja viljandi köldu dagana til að sýna fram á einhvern punkt og sá punktur er byggður á sandi.
Mér sýnist gögnin ekki vera sérstaklega takmarkandi eða ættu ekki að vera það, sjá neðarlega á þessari síðu: http://data.giss.nasa.gov/gistemp/graphs/ Hér nær hitakúrfan til ársins 1880. Hitastigsgögnin fyrir Bandaríkin eru meðal vísindamanna þekkt sem ein bestu í heiminum.
Kannski ekki, en þetta er þó niðurstaða rannsóknarhópsins varðandi áratugina frá 1950 og áfram. Þeir tóku ekki fyrir áratugina á undan. Það er klárlega fleiri hitamet en kuldamet á síðustu áratugum í BNA, sem segir í sjálfu sér ekki alla söguna um hnattræna hlýnun, en er þó eitt af því sem rannsakað hefur verið.
En þessi færsla hér að ofan fjallar hins vegar að mestu leiti um þessa undarlegu umræðu sem hefur komið fram á bloggi og á ýmsum heimasíðum varðandi t.d. þetta kuldakast sem er núna á ýmsum stöðum. Þessi umræða virðist koma upp með jöfnu millibili.
Hér skiptir máli hvort það sé verið að tala um met sem standa enn eða bara fjölda meta á hverjum áratug. Mér finnst það ekki koma alveg fram. Eftir því sem tíminn líður og mælingasagan lengist þá ættu ný met að koma æ sjaldnar og hvert nýtt met verður þar með merkilegra. Á fjórða áratugnum var mun hlýrra í Bandaríkjunum en áður hafði mælst á stuttri mælingasögu og því hljóta mjög mörg hitamet eðlilega að hafa fallið á þeim tíma.
Rétt er það Emil, líklega kemur það ekki nógu vel fram. En ég skil þetta þannig að við hvert nýtt met sé verið að slá fyrri met en ekki að eingöngu séu met sem standa enn – þegar ég birti fréttina á sínum tíma þá var greinin ekki komin út og ég hef ekki aðgang að henni (nema ágripi).
Einnig kemur það líklega ekki nógu vel fram að hér er verið að athuga hvort viðkomandi dagur ársins sé að slá fyrri met á viðkomandi veðurstöð (sem eru töluvert margar í Bandaríkjunum).
Annars finnst mér línurit sem birt eru á síðu sem vitnað er í hér fyrir ofan í færslunni (Skeptical Science) nokkuð gott, en þar sést hvernig hita og kuldametum fækkar eftir því sem á tímabilið líður.