Blogg: Kuldatíð og hnattræn hlýnun

Ég ætla að velta upp spurningu sem virðist stundum koma upp og sérstaklega á tímum sem þessum. Það er jú vetur á norðurhveli jarðar og vetri fylgir oftast nær kuldatíð, eins og t.d. Skandinavar og fleiri hafa fundið fyrir undanfarna daga (sjá t.d. frétt á mbl.is). Spurningin er þessi:

Ef það eru miklir kuldar á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, afsannar það ekki að um hnattræna hlýnun sé að ræða?

519121

Veðrið er síbreytilegt, það er erfitt að reikna það út og lítil breyting í lægðakerfum jarðar getur orðið til þess að kuldamet eru slegin á ákveðnum svæðum (reyndar einnig hitamet – sem dæmi, þá er mjög kalt í Skandinavíu á meðan óvenju hlýtt er á Vesturströnd Grænlands).

Fréttir af kuldatíð á ákveðnum stað á ákveðnum tíma er einmitt það – fréttir af veðri og skal alls ekki rugla því saman við loftslag – en loftslag er tölfræðileg lýsing á veðurfarslegum þáttum þegar til lengri tíma er litið (oft notast við 20-30 ára tímabil). Það sama á vissulega við um fréttir af hitastigi á Grænlandi síðustu daga – sá hiti segir í raun lítið um loftslag.

Af því leiðir að óvenjulegir kuldar á ákveðnum stað og ákveðnum tíma segja í raun lítið um hnattræna hlýnun, þar sem kuldamet eru einnig slegin þegar hnattræn hlýnun er í gangi. Kuldametin gerast þó færri en hitametin, eins og raunin hefur orðið í t.d. Bandaríkjunum, en þar hefur tölfræði hitameta verið skoðuð undanfarna áratugi – en nú er það svo að hitamet hvers dags síðastliðinn áratug hafa komið um tvisvar sinnum oftar en kuldamet (sjá Frétt: Hitamet mun fleiri en kuldamet í Bandaríkjunum).

Þessi mynd sýnir hlutfall hitameta og kuldameta sem féllu á 1800 veðurstöðum í Bandaríkjunum frá 1950 til september 2009, skipt eftir áratugum.

Þessi mynd sýnir hlutfall hitameta og kuldameta sem féllu á 1800 veðurstöðum í Bandaríkjunum frá 1950 til september 2009, skipt eftir áratugum.

Niðurstaða

Niðurstaðan er sú að jafnvel þegar hnattræn hlýnun er í gangi eins og nú, þá geta komið óvenju kaldir dagar á ákveðnum stað á ákveðnum tíma. Þeim fækkar þó samanborið við óvenju hlýja daga.

Ítarefni

Skeptical Science fjallar nokkuð vel um þessa spurningu hér: It’s freaking cold!

NASA fjallar einnig um munin á veðri og loftslagi, sjá hér: What’s the Difference Between Weather and Climate?

Sjá einnig gott myndband eftir Greenman:

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál