Blogg: Sólvirkni og hitastig

Ég ætla að fjalla hér um línurit sem birt var í Morgunblaðinu í gær (15. janúar 2010), í fréttaskýringu – en mikinn hluta textans má einnig lesa á mbl.is. Það var reyndar ekki rétt teiknað eins og við komumst að, en hér fyrir neðan er leiðrétta útgáfan að þeirri mynd (þakkir til teiknara Morgunblaðsins fyrir að senda okkur myndina). Þetta línurit notar Morgunblaðið til að spá í meintum tengslum sólarinnar við hitastigsbreytingar og þá í kjölfarið að ýja að því að skortur á sólblettum eigi eftir að færa Ísland aftur til litlu ísaldar – hvað hitastig varðar.

Mynd morgunblaðsins sem sýnir sólvirkni og hita á norðurhveli jarðar (morgunblaðið 15. janúar 2010)

Leiðrétt útgáfa af mynd Morgunblaðsins sem sýnir sólvirkni og hita á norðurhveli jarðar (Morgunblaðið 15. janúar 2010)

Hér fyrir ofan er leiðrétta myndin, en sú sem birtist í Morgunblaðinu sýndi nánast það sama, nema hvað að teygt var á hitagögnunum þannig að norðurhvelshitinn náði alla leið til árið 2000, sem gerði það að verkum að svo virðist sem að það hafi kólnað frá árinu 1950-2000, sem er augljóst öllum sem að skoðuðu þá mynd. Myndin er eitthvað skárri eins og hún birtist hér, nema hvað að ég ætla að gera smá æfingar og skoða betur þessi gögn.

Ég mun notast við sömu gögn og Morgunblaðið (þótt betra hefði verið að nota allavega önnur hitafarsgögn – auk þess sem sólvirkni virkar á allan hnöttinn en ekki bara norðurhvelið) – en þar sem þau ná ekki nógu langt fram í tíman, að mínu mati, þá bæti ég við tvenns konar gögn inn á myndina. Þ.e. mæld hitagögn síðustu rúmlega 100 ár og mynd sem sýnir sólvirkni síðustu nokkra tugi ára. Þannig ætti í raun og veru að sjást hver tengslin eru milli sólvirkni og hita til dagsins í dag – en við höfum fjallað um það áður á loftslag.is (sjá Mýta:  Hlýnunin nú er af völdum sólarinnar).

Uppbygging myndarinnar

Í grunnin notast morgunblaðið við myndir af heimasíðu Veðurstofunnar og eru það eftirtaldar myndir sem mynda grunninn (þ.e. myndir 2 og 6 – sjá skýringar á heimasíðu Veðurstofunnar):

Mynd 2 (mynd af vedur.is)

Mynd 2 (mynd af vedur.is)

Mynd 6 (mynd af vedur.is)

Mynd 6 (mynd af vedur.is)

Með því að teikna þessar tvær myndir upp – skala til þannig að ártöl séu svipuð, þá fæst svipuð mynd og Morgunblaðið notar:

Hér er fyrsta uppkast að mynd, búið að teikna inn sólvirkni (Lean) á móti Norðurhvelshita (Moberg).

Hér er fyrsta uppkast að mynd, búið að teikna inn sólvirkni (rauð lína - Lean) á móti Norðurhvelshita (græn lína - Moberg).

Eins og sést á myndinni, þá vantar töluvert upp á að þetta sé mynd sem sýnir hvað er að gerast nú – í fyrsta lagi þá nær línuritið sem sýnir hitastigið eingöngu fram að áttunda áratug síðustu aldar (sirka 1975) og sólvirknin nær fram til ársins 2000.

Viðbætur

Til að hitalínurið nái nær okkar tíma, þá náði ég í línurit af heimasíðu NASA GISS sem sýnir þróun hitastigs á norðurhveli jarðar og til að sýna sólvirknina þá náði ég í PMOD-sólvirknigögn af heimasíðu ACRIM (rökstuðning fyrir að nota PMOD má sjá á RealClimate).

Þegar búið er að teikna, skala og teygja ofangreindar myndir til, svo þær passi sirka saman þá fæst eftirfarandi mynd:

Hér er þá komin afstæð mynd þar sem búið er að teikna inn sólvirkni aftur í tímann (rauð lína - Lean), Norðurhvelshita (græn lína - Moberg), sólvirkni til fram til 2009 (fjólublá - PMOD) og 5 ára meðalhitastig til 2009 (blá lína -NASA).

Hér er þá komin afstæð mynd þar sem búið er að teikna inn sólvirkni aftur í tímann (rauð lína - Lean), Norðurhvelshita (græn lína - Moberg), sólvirkni til fram til 2009 (fjólublá - PMOD) og 5 ára meðalhitastig til 2009 (blá lína -NASA).

Það skal tekið fram að það eru engin vísindi á bak við þessa mynd hjá mér – nema hvað að ég teikna upp gögn vísindamanna og skala þau saman. En af þessari tilraun minni má greinilega sjá að sólvirkni hefur haldist nokkuð jafndreifð síðastliðin 50 ár og á niðurleið nú. Frá 1950-1975 sirka, þá kólnaði lítillega en eftir það hefur hitastig rokið upp – en hægt á sér síðustu ár (ath að þó að það sé hægt að segja að það hafi verið pása í hlýnuninni ef skoðaður er hiti síðustu 10 ára – þá er þar samt um að ræða heitasta áratug frá því mælingar hófust og það er í raun engin pása ef skoðuð er leitni gagnanna og ljóst er að kuldakastið í Evrópu og Bandaríkjunum er veður en ekki loftslag).

Það má því segja að tengsl milli sólvirkni og hitastigs hafi verið rofin.

Hvað segja mæliniðurstöður okkur?

Þessi rofnu tengsl má sjá betur á mynd af heimasíðunni Skeptical Science og nær frá árinu 1885 til loka ársins 2009 (með 11 ára meðaltali fyrir hita og sólvirkni). Þar sést  samhengið mun betur, hitagögnin eru hnattræn gögn frá NASA GISS og sólvirknin er unnin upp úr Solanki og PMOD og greinilegt er hvernig hitastig og sólvirknin fjarlægjast hvoru öðru:

Árlegt hnattrænt hitastig jarðar (þunn blá lína) með 11 ára meðatalslínu (þykk blá lína). Hitastig frá NASA GISS. Árleg sólvirkni - TSI (þunn rauð lína) með 11 ára meðaltalslínu TSI (þykk rauð lína). TSI frá 1880-1978 frá Solanki. TSI frá 1979-2009 frá PMOD.

Árlegt hnattrænt hitastig jarðar (þunn rauð lína) með 11 ára meðatalslínu (þykk rauð lína). Hitastig frá NASA GISS. Árleg sólvirkni - TSI (þunn blá lína) með 11 ára meðaltalslínu TSI (þykk blá lína). TSI frá 1880-1978 frá Solanki. TSI frá 1979-2009 frá PMOD.

Niðurstaða

Það má eiginlega segja að þó það séu nokkuð góð líkindi með sólvirkni og hitastigi jarðar síðastliðin 400 ár (samkvæmt þeim gögnum sem Morgunblaðið notar) og mjög líklegt að sveiflur í sólinni hafi haft nokkur áhrif á sveiflur í hitastigi fyrr á öldum. Það er þó ljóst að sú tenging er að mestu rofin og telja menn að nú séu það gróðurhúsaáhrifin sem ráða ríkjum hvað varðar hitastig jarðar og að Sólin valdi eingöngu tímabundnum sveiflum í hitastigi.

Það er ekki nóg að teikna upp einhver gögn og telja að þau sýni fram á eitthvað  – nema að forsendurnar séu nokkuð ljósar og að ekki sé verið að fela það að gögnin séu takmarkandi. Myndin sem er ástæðan fyrir þessari færslu og er líklega föst núna í hugarþeli margra lesenda Morgunblaðsins er að mínu mati ófullnægjandi:

Í fyrsta lagi var hún ekki rétt teiknuð til að byrja með (leiðrétta myndin er efst – en sú óleiðrétta er föst á síðum Morgunblaðsins).
Í öðru lagi ná gögnin ekki nógu langt fram í tíman til að sína fram á hvað hefur verið að gerast undanfarna áratugi.
Í þriðja lagi, þá skal tekið fram að ég hefði aldrei notað hitastigsferil Moberg og félaga, þar sem ég hef góðan aðgang að Mann og félögum 2008 sem er mun nýrri og betri heimild.
Í fjórða lagi, þá er sólvirkni hnattræn og því rétt að miða við hnattrænt hitastig.

Með því að birta þessa teikningu hefur Morgunblaðið ýtt undir mýtuna Hlýnunin nú er af völdum sólarinnar auk þess sem þeir gefa undir fótinn með mýtuna Hlýnun jarðar er af völdum geimgeisla (í textaboxi og fyrri fréttaskýringu) og taka þar með undir mýtuna að jörðin stefni rakleitt í átt til kólnunar – en út á það gekk fréttaskýringin sem ofangreind mynd er fengin úr.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mynd hefur verið sýnd til að sýna fram á tengsl sólvirkni og hitastigs. Skemmst er frá að minnast á  The Global Warming Swindle, en Potholer fjallaði um það í myndbandinu Al Gore gegn Durkin (frá sirka 2:00-4:30 í myndbandinu).

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál