Styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu á miðlífsöld

Frétt

Styrkur koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti Miðlífsaldar (fyrir 251-65 milljón árum), sem er með heitari tímabilum í sögu jarðar, og í upphafi Nýlífsaldar (fyrir sirka 55 milljónum ára) gæti hafa verið mun minna en áður var talið – en greining á styrk þess er erfið og óvissa mikil. Ný greining á jarðvegi bendir til þess að styrkur koldíoxíðs, í andrúmslofti þessara tímabila, gæti hafa verið svipaður og spáð er að geti orðið í lok þessarar aldar.

Á myndinni hér fyrir neðan er sýnt hvernig talið er að magn CO2 hafi verið, en ég hef ekki komist yfir mynd úr greininni sem hér er fjallað um.

Hér má sjá nokkrar mismunandi rannsóknir á magni CO2, aftur til loka Kambríum. Eins og sést eykst óvissan mikið eftir aldri. Mynd af wikipedia.

Hér má sjá nokkrar mismunandi rannsóknir á magni CO2, aftur til loka Kambríum. Eins og sést eykst óvissan mikið með aldri. Mynd af wikipedia.

Greindur var jarðvegur (frá nútíma) í Bandaríkjunum og reynt að ákvarða skilyrði þau sem þurfa að vera til staðar til að mynda steindina kalsít – en það er að hluta til myndað úr koldíoxíði og hefur þessi steind verið notað til að áætla styrk þess í andrúmsloftinu.

Við rannsóknina kom í ljós að kalsít myndast í jarðvegi einungis á heitasta og þurrasta tíma ársins – en ekki allt árið í kring. Með þessar upplýsingar í farteskinu endurreiknuðu höfundar styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu síðastliðin 400 milljón ár. Sumar fyrri rannsóknir hafa bent til styrks upp á 3-4000 ppm – en þessi rannsókn bendir til þess að styrkur þess hafi verið mest um 1000 ppm.

Ef rétt reynist (það má búast við mótbárum frá öðrum sem rannsaka styrk CO2 á fyrri jarðsögutímabilum), þá má búast við að hitabreytingar geti orðið hraðari en spár gefa til kynna, þ.e. ef gróðurhúsaáhrifin munu hegða sér líkt og á fyrri tímabilum jarðsögunnar.

Heimildir og ítarefni

Greinina má finna hér (áskrift): Breecker o.fl 2010 – Atmospheric CO2 concentrations during ancient greenhouse climates were similar to those predicted for A.D. 2100

Hér á loftslag.is má finna umfjöllun um orsakir fyrri loftslagsbreytinga.

Ég mæli einnig með lestri annarrar greinar, þó hún taki ekki fyrir Miðlífsöld – en fókusinn er á hlut CO2 í loftslagi Nýlífsaldar (síðastliðin 65 milljón ár): Hansen o.fl 2008 – Target Atmospheric CO2: Where Should Humanity Aim?

Einnig er hérna skemmtilegur fyrirlestur sem fjallar um jarðsöguna og áhrif CO2 á hitastig hennar: The biggest control knob

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál